Stjórn fiskveiða

Miðvikudaginn 26. maí 2004, kl. 22:33:30 (9068)

2004-05-26 22:33:30# 130. lþ. 127.22 fundur 996. mál: #A stjórn fiskveiða# (sóknardagar báta, krókaaflamark o.fl.) frv. 74/2004, MÞH (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 127. fundur, 130. lþ.

[22:33]

Magnús Þór Hafsteinsson (andsvar):

Hæstv. forseti. Hv. þm. segir að ekki neitt hafi komið frá mér í þessu máli. Það kann að vera en fundir nefndarinnar um málið hafa verið afskaplega fáir. Það veit formaðurinn ósköp vel. Þeir hafa verið fáir og málið verið keyrt í gegnum nefndina á lágmarkstíma.

Fjórir menn, frá svokölluðu Félagi áhugahóps dagabátaeigenda, einhverjir karlfauskar sem vilja komast inn í kvóta og segjast hafa 20 menn á bak við sig, voru boðaðir á fund nefndarinnar án þess að nefndarmenn sjálfir vissu að þeir væru á leiðinni. Þeir sátu þar í tvo tíma með áróður, eintóman áróður og lygar. Þetta veit formaðurinn og þetta er honum til hneisu. Það er til skammar hvernig hann hefur staðið að þessu máli. Hann mun ekki komast upp með þetta og sleppur ekki undan málinu í framtíðinni. Honum skal núið þessu um nasir allt þetta kjörtímabil og mun fá að standa reikningsskil gerða sinna við næstu kosningar.