Stjórn fiskveiða

Miðvikudaginn 26. maí 2004, kl. 22:35:58 (9070)

2004-05-26 22:35:58# 130. lþ. 127.22 fundur 996. mál: #A stjórn fiskveiða# (sóknardagar báta, krókaaflamark o.fl.) frv. 74/2004, Frsm. minni hluta JÁ
[prenta uppsett í dálka] 127. fundur, 130. lþ.

[22:35]

Frsm. minni hluta sjútvn. (Jóhann Ársælsson):

Hæstv. forseti. Þetta mál hefur verið keyrt hratt í hv. sjútvn. Það er ekki lengra síðan en seint í gærkvöldi að frv. sem hér er til umræðu varð til og komst til umfjöllunar í nefndinni. Það eru mikil öfugmæli hjá hv. formanni nefndarinnar að halda því fram að menn hafi haft nægan tíma til að fást við málið. Það var rætt um allt annað mál í nefndinni þann tíma sem hún hafði, sem ekki var langur. Þetta er því auðvitað fáránlegt.

Hæstv. forseti. Það hefur lengi verið ljóst að ákvæði í lögum um stjórn fiskveiða, um skerðingu sóknardaga, mundi kippa fótunum undan útgerð á þeim bátum ef ekki yrði að gert. Þessir bátar hafa verið afar mikilvægir fyrir mörg sjávarþorp en mest þau smærri á norðvesturhorni landsins. Í aðdraganda síðustu kosninga var málið rætt og stefna frambjóðenda í landsbyggðarkjördæmunum, þar sem þessir bátar hafa gert út og eflt atvinnulífið á undanförnum árum, var ávallt sú sama. Þeir ætluðu að beita sér fyrir lausn á vanda þessara báta og tryggja dagakerfi til framtíðar. Á Alþingi var ákaft spurt eftir efndum þessara loforða á fyrri hluta þessa þingvetrar. Svör komu um að sjútvrh. væri að vinna að lausn málsins. Þegar ekki bólaði á þeirri lausn var tillaga um 23 daga gólf í dagakerfið borin upp við afgreiðslu breytingu á lögunum um stjórn fiskveiða fyrir síðustu áramót. Tillagan var studd af stjórnarandstöðunni einni. Þingmenn stjórnarliðsins, sem sögðust þá líkt og í kosningabaráttunni berjast af öllu afli fyrir gólf í dagakerfið, lýstu þá yfir að þeir vildu gefa ráðherranum, hæstv. sjútvrh., ráðrúm til að leysa málið.

Þegar komið var að lokadögum þinghalds lagði hæstv. sjútvrh. loks fram frv. sem fól í sér tvo kosti að hans mati. Annar var sá að útgerðarmenn þessa bátaflokks gætu valið kvótasetningu sem miðaðist við 22% skerta veiðireynslu. Hinn kosturinn var að vera áfram í dagakerfi en veiðireynsla þeirra sem eftir yrðu skyldi ráða þeim dagafjölda sem yrði þar til ráðstöfunar.

Innihald frumvarpsins var að öllu leyti sniðið að þeirri augljósu fyrirætlan hæstv. ráðherra að þurrka dagakerfið út. Þessir tveir kostir gátu ekki með nokkru móti talist jafngildir vegna þess að í dagakerfi sem þessu er veiðirétturinn sameiginlegur og enginn hefur í raun meiri rétt en annar til að veiða. Með því að gefa þeim sem mesta aflareynslu hafa síðustu tvö ár kost á að fara út úr kerfinu með hana hefði orðið eðlisbreyting á þessum veiðirétti og þeir sem hafa stundað veiðarnar af mestum krafti síðustu ár hefðu á grundvelli þessarar fyrirhuguðu lagasetningar hrifsað veiðiréttinn sem sameiginlegur er í dagafyrirkomulaginu með sér út úr kerfinu. Örfáir bátar hefðu því orðið eftir í dagakerfinu, þ.e. eingöngu þeir sem hafa nýlega fjárfest í bátum og hafa það litla veiðireynslu að þeirra hefði ekkert beðið nema gjaldþrot við flutning yfir í krókaaflamarkið. Þeirra beið reyndar gjaldþrot í dagakerfinu líka. Þar hefði svo lítil veiðireynsla orðið eftir að dagarnir sem til ráðstöfunar gátu orðið hefðu hreinlega getað gufað upp á öðru ári. Þannig var í pottinn búið. Þetta var tillaga hæstv. ráðherra.

Með þessu voru forsvarsmenn Landssambands smábátaeigenda lamdir, með þessu frumvarpi. Þeir sem hafa veiðireynslu undir 15 tonnum áttu að fá þann kost samkvæmt frv. að flytja sig á milli kerfanna með tilboði um lágmarkskvóta sem svaraði 15 tonnum. Þannig hugðist sjútvrh. ýmist þvinga eða kaupa menn út úr dagakerfinu í þeim augljósa tilgangi að koma þessu eina sóknarstýrða kerfi við fiskveiðistjórn á Íslandi fyrir kattarnef. Sú fyrirætlan hlýtur að vera mörgum umhugsunarefni vegna fiskveiðistjórnarinnar í heild og af ýmsum öðrum ástæðum. Sóknarkerfi smábáta hefur m.a. gefið kost á að fylgjast með og mæla veiðanleika fisks á grunnslóð og bera saman mismunandi áhrif veiðistjórnar, t.d. með tilliti til brottkasts og vistvænna veiðarfæra.

Nú er að störfum nefnd sem á að kanna kosti og galla færeyska fiskveiðistjórnarkerfisins. Tillaga um það kom frá hv. þm. Hjálmari Árnasyni, ef ég man rétt. Nú er hann harðasti talsmaður þess að leggja af hið eina sóknarstýringakerfi sem við lýði hefur verið í landinu. Það er afar athyglisvert að stjórnvöld skuli, áður en starfi nefndarinnar er lokið, ákveða að leggja niður þetta sóknarstýrða kerfi.

Hagsmunaaðilar, með LÍÚ í broddi fylkingar og stjórnmálamenn sem dreymir frjálshyggjudrauma í sinni villtustu mynd, hafa ekki unað sér hvíldar fram á þennan dag og verða aldrei í rónni fyrr en hver einasta branda sem syndir um Íslandsmið er orðin einkaeign einhverra útgerðarmanna. Þeir munu ekki láta staðar numið fyrr en krókaaflamarkskerfið verður lagt af líka. Þeir sem ráða þessari vegferð í innsta hring LÍÚ hafa þann staðfasta vilja að tryggja með öllum ráðum að þeir geti sölsað undir sig allan veiðirétt á Íslandsmiðum. Þessir aðilar hafa sýnt, svo ekki verður um villst, að þeir geta ekki sofið rótt meðan einhver hluti flotans er utan seilingarfæris umbjóðenda þeirra og undir öðrum reglum, þótt lítið sé.

Vegna þessa er engu eirt og allt er lagt í sölurnar til að slátra síðasta frjálsræðinu í útgerð á Íslandi, þótt það hafi í raun engu skipt fyrir heildarstjórn veiðanna. Það kom glöggt fram við umfjöllun um málið, þegar forstjóri Hafrannsóknastofnunar var spurður um áhrif breytilegra veiða dagabáta og ráðgjöf stofnunarinnar um heildarveiði, að á þá ráðgjöf hefur þetta nánast engin áhrif.

Fjölmargir aðilar sendu inn athugasemdir og álit á þessu frumvarpi og hv. formaður nefndarinnar las þá runu upp áðan. Þeir voru nánast allir á móti því fyrirkomulagi sem hv. formaður mælti fyrir. Þeir voru reyndar að gefa álit á fyrra frumvarpinu sem hæstv. ráðherra lagði fram. Öll voru álitin nær einróma í þá átt að frumvarpið mundi þýða endalok dagakerfisins, að það mundi hafa miklar og alvarlegar afleiðingar fyrir margar smærri sjávarbyggðir og tefla í vanda atvinnu margra útgerðarmanna í þessum flokki og fólks í byggðum sem notið hafa góðs af útgerð þeirra. Áhrifin eru nákvæmlega þau sömu af því frv. sem nú liggur fyrir. Á því er ekki vafi.

Eftir umfjöllun um málið í nefndinni ákvað meiri hlutinn að skárra væri að ganga hreint til verks og slá dagakerfið endanlega af. Frumvarpið var endursamið í snatri í gær, á hnjánum á hv. þm. Guðjóni Hjörleifssyni eftir því sem hann segir sjálfur, en hann sagðist hafa verið á staðnum. Smábátaeigendur eða forsvarsmenn þeirra voru kallaðir til í einhvers konar rústabjörgun undir þeim formerkjum að ekki væri til neinn kostur sem tryggt gæti dagakerfið til framtíðar. Þetta voru þau býti sem þeir urðu að semja undir eða öllu heldur reyna að hafa áhrif á hvað mundi standa í plagginu að lokum. Undir þeirri nauðung voru forsvarsmenn þessa bátaflota þvingaðir til að taka þátt í vinnu við þá útgáfu málsins sem liggur fyrir í breytingartillögu meiri hlutans.

[22:45]

Landssambandið hafði unnið af heilindum og haft í því sérstaka sóknardaganefnd að ræða við stjórnvöld um framtíð sóknardagakerfisins. Með því var það að framfylgja stefnu félagsmanna sinna, sem samþykkt hafði verið á fundum um allt land. Sjávarútvegsráðherra hélt þessum mönnum uppi á kjaftæði sem enga þýðingu hafði því að hann ætlaði greinilega í ljósi síðustu atburða allan tímann að leggja kerfið af. Fáeinir útgerðarmenn úr þessum bátaflokki gerðu harða hríð að kerfinu með baráttu fyrir því að breyta veiðireynslu sinni í kvóta. Þeir voru leiddir fram, eins og sérstakir fulltrúar félaga sinna, á fundi í sjútvn. og fengu þar lengstan tímann af öllum til að fara yfir það hve hörmulegt væri að vera í þessu kerfi. Þessir aðilar færðu þau rök helst fyrir því að leggja kerfið af að þeir vildu geta róið allt árið. Verði dagakerfið tekið upp eins og minni hlutinn vill gera og þeim sem veiðar stunda í því kerfi skapaður traustur rekstrargrundvöllur er ekkert sem festir útgerðarmenn sem vilja haga atvinnu sinni með öðrum hætti í kerfinu. Þeir geta selt bátana og fjárfest í öðrum fiskveiðikerfum í staðinn. Það hefur alltaf verið hægt og verður auðvitað hægt aftur ef settur verður botn í kerfið og því sköpuð einhver framtíð.

Loforð og svardagar þingmanna stjórnarflokkanna um að tryggja framtíð þessa bátaflokks eru með þessum vinnubrögðum svikin með einstæðum hætti. Áhrif þess á byggðarlög, sérstaklega á norðvesturhorni landsins, að leggja þetta fiskveiðikerfi af eru ófyrirsjáanleg en þau verða augljóslega mikil í mörgum smáum sjávarbyggðum. Varla getur kúvending stjórnmálamanna í þessu máli talist í samræmi við yfirlýsingar um að nú sé komið að því að hið opinbera styrki þessi svæði. Er þetta byggðaátakið fyrir norðvesturhorn landsins sem hér er verið að kynna.

Minni hlutinn leggur til í sérstöku þingskjali að gerðar verði breytingar á frumvarpinu sem miðast við að tryggja útgerðarmönnum dagabáta rekstrargrundvöll til framtíðar og að kerfinu verði viðhaldið í heild áfram. Í tillögunni er gert ráð fyrir því að sama viðmiðun verði notuð um heildarveiði og hefði verið ef allir útgerðarmenn dagabáta hefðu valið þann kost, sem er í fyrsta frumvarpinu, að vera kyrrir í kerfinu. Útgerðarmönnum yrði hins vegar ekki gefinn kostur á því að fara með aflareynsluna út úr kerfinu og eyðileggja það eins og ráðherra ráðgerði. Þá eru lagðar til breytingar á veiðistjórn sem munu tryggja stjórn á heildarveiði bátanna og að hún verði með sem minnstum sveiflum. Þess vegna er gert ráð fyrir fimm ára viðmiðun við ákvarðanir um dagafjölda.

Gerð er tillaga um að bátar fái ekki að hafa fleiri rúllur um borð en fimm. Einnig er lagt til að sóknardögum fjölgi um næstu fiskveiðiáramót í 22 og að þeim verði fjölgað eða fækkað í samræmi við meðalheildarafla bátanna í flokknum miðað við fimm ára viðmiðunartímabil en að viðmiðunin verði þó aldrei lægri en aflinn var í tonnum á fiskveiðiárinu 2002/2003.

Þá er gerð tillaga um að hömlur á hestaflatölu bátanna verði nokkru rýmri en frumvarpið gerði ráð fyrir og að þær komi til framkvæmda um leið og lögin öðlast gildi, annars verði lögin afturvirk gagnvart þeim sem hafa nú þegar hafist handa um vélaskipti. Öflugar vélar eru mikið öryggistæki í bátum og geta skipt sköpum ef þessi litlu fley þurfa að forðast skyndilegar veðrabreytingar.

Þá lagt til að 3. gr. frumvarpsins falli brott en hún fjallar um flutning bátanna úr dagakerfinu yfir í krókaaflamarkskerfið.

Jón Bjarnason, áheyrnarfulltrúi í nefndinni, er samþykkur áliti þessu. En undir nál. rita auk mín hv. þm. Guðjón A. Kristjánsson, Kristján L. Möller og Jón Gunnarsson.

Virðulegur forseti. Við flytjum síðan breytingartillögu á þskj. nr. 1804. Hún er svona:

,,1. Við 1. gr.

a. Í stað orðsins ,,fjórar`` í a-lið komi: fimm.

b. Efnismálsgrein b-liðar orðist svo:

Á fiskveiðiárinu 2004/2005 skal fjölga leyfilegum sóknardögum hvers báts um 16% frá þeim sóknardagafjölda sem bundinn var hverjum báti í lok fiskveiðiársins 2003/2004. Sóknardögum skal fjölga um heila daga og broti sleppt. Eftir fiskveiðiárið 2004/2005 skal sóknardagafjöldi einstakra báta óbreyttur nema sem leiðir af flutningi sóknardaga milli báta og breytingum á vélarstærð báta og brúttótonnastærð þeirra samkvæmt ákvæðum þessarar greinar. Þó skal endurskoða leyfilegan fjölda sóknardaga í upphafi hvers fiskveiðiárs og skal úthlutuðum sóknardögum einstakra báta fækkað eða fjölgað í sama hlutfalli og meðalheildarafli sóknardagabáta á næstliðnum fimm fiskveiðiárum fer yfir eða undir heildarafla sömu báta á fiskveiðiárinu 2002/2003. Þar til fimm ára viðmiðunartímabilinu verður náð frá og með fiskveiðiárinu 2002/2003 að telja skal bæta við jafnmörgum viðmiðunartölum fiskveiðiársins 2002/2003 og á vantar. Þó skal viðmiðunin aldrei verða lægri en sá grunnur sem fiskveiðiárið 2002/2003 gefur.

c. c-liður orðist svo: Á eftir 3. málsl. 4. mgr. koma tveir nýir málsliðir, svohljóðandi: Verði breytingar á skráðri hestaflatölu vélar miðað við gildistöku laganna þannig að heildarvélaraflið aukist skal leyfilegum dögum viðkomandi báts fækkað á þann hátt að verði heildarafl vélar eftir breytingar meira en 200 hestöfl rýrast sóknarheimildir um eina klukkustund fyrir hver 10 hestöfl aukningar vélaraflsins. Séu sóknardagar fluttir til báts með meira vélarafl en bátur sá er búinn sem sóknardagar eru fluttir frá skerðast sóknardagar með sama hætti og segir í þessari grein.

2. 3. gr. falli brott.``

Hæstv. forseti. Við höfum gert gerum tilraun til að ná samstöðu á Alþingi um að að vernda þetta kerfi áfram og skapa því heilbrigðan rekstrargrundvöll í takt við aflagrunn sem hægt er á að byggja. Það er hægt með þeim aflagrunni sem hæstv. ráðherra setur inn í frumvarp sitt. Það var hins vegar ekki hægt með þeirri aðferð sem hann notar, þ.e. að gefa mönnum leyfi til að flytja veiðireynsluna út úr kerfinu og eyðileggja það, sem var auðvitað fullkomlega meðvituð ákvörðun af hálfu hæstv. ráðherra.

Það er alveg ljóst eftir atkvæðagreiðsluna í desember um 23 dagana og miðað við aðdraganda þessa máls að ef menn sem gáfu stórar yfirlýsingar á fundum í Norðvest. a.m.k., það þarf ekki fleiri til, mundu standa við þær væri meiri hluti fyrir því að fara leiðina sem við lýsum hér. Það veldur mér miklum vonbrigðum að þeir menn sem sóru heitast að þetta kerfi skyldi lifa áfram virðast nú ætla að hlaupa í hitt liðið, af einhvers konar nauðung sem virðist stunduð í sölum Alþingis eða bakherbergjum öllu heldur. Það er ljóst að menn hljóta að fara gegn sannfæringu sinni ef ekki á að standa við þau orð sem voru svo skýr á þeim fundum sem ég var að vísa til. Þeir voru fleiri en einn og fleiri en tveir.

Ég held að það þurfi að útskýra það býsna rækilega fyrir fólki, ef það er greinilega meiri hluti á Alþingi fyrir tillögu eins og þessari, hvar menn standa varðandi stóru orðin um að tryggja framtíð kerfisins. Menn þurfa að útskýra það rækilega í umræðunni hvernig á því stendur að þeir hafa skipt um skoðun, sem þeir hafa sannarlega gert.

Ég ætla ekki að halda lengri ræðu. Ég tel betra að fleiri komist að en ég og fari yfir ýmislegt sem tengist þessari umræðu, bæði frá síðustu kosningum og raunar fyrir þá tíð líka. Það verður fróðlegt að hlusta á útskýringar manna á þeirri nauðungarleið sem þeir virðast ætla að ganga í þessu máli.