Stjórn fiskveiða

Miðvikudaginn 26. maí 2004, kl. 23:04:33 (9075)

2004-05-26 23:04:33# 130. lþ. 127.22 fundur 996. mál: #A stjórn fiskveiða# (sóknardagar báta, krókaaflamark o.fl.) frv. 74/2004, MÞH (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 127. fundur, 130. lþ.

[23:04]

Magnús Þór Hafsteinsson (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég vildi hnykkja á atriði úr ræðu hjá hv. þm. Jóhanni Ársælssyni. Hann var að tala um að ýmsir þingmenn hefðu lofað ýmsu á fundum hingað og þangað um landið. Fyrr í dag var ég að athuga þetta. Það eru til margar blaðagreinar á netinu og ýmsar ræður og greinar sem menn hafa skrifað. Það er hægt að finna ótal dæmi þess að þeir stjórnarþingmenn, sem nú hafa lagst á sveif með þessu hroðalega frumvarpi eða þessum hroðalegu breytingartillögum, hafa verið með mikinn fagurgala árum saman um mikilvægi þess að verja smábátaflotann með ráðum og dáð, verja dagaflotann og helst reyna að færa þeim flota aukinn sóknarmátt. Þeir hafa aldrei minnst á kvóta, aldrei nokkurn tímann, fyrr en í gær. Þá fyrst kom það eins og hvít kanína upp úr hatti. Kvóti á alla línuna.

Ég vildi að þetta kæmi fram. Ég hef fjölda sönnunargagna og mun fara yfir það nánar í ræðu minni. Þegar ég er búinn að því munu þessir menn standa berstrípaðir eftir.