Stjórn fiskveiða

Miðvikudaginn 26. maí 2004, kl. 23:55:37 (9079)

2004-05-26 23:55:37# 130. lþ. 127.22 fundur 996. mál: #A stjórn fiskveiða# (sóknardagar báta, krókaaflamark o.fl.) frv. 74/2004, sjútvrh. (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 127. fundur, 130. lþ.

[23:55]

Sjávarútvegsráðherra (Árni M. Mathiesen) (andsvar):

Frú forseti. Hv. þm. Guðjón A. Kristjánsson beindi til mín ákveðnum spurningum sem mér er bæði ljúft og skylt að svara.

Í fyrsta lagi spurði hann hvort krókaaflamarkskerfið og aflamarkskerfið yrðu sameinuð innan skamms og hvort vilyrði hefðu verið gefin fyrir því. (Gripið fram í.) Því er til að svara að engin slík vilyrði hafa verið gefin nokkrum manni. Engar slíkar fyrirætlanir eru uppi af hálfu stjórnvalda. Ég veit ekki um neinar slíkar fyrirætlanir af hálfu nokkurs stjórnmálamanns á hv. Alþingi. Ég sé eiginlega ekki fyrir mér hvað þyrfti að breytast til að slíkt gerist á næstu árum, a.m.k. svo langt sem ég get séð fram í tímann hvað þessi mál varðar.

Hv. þm. nefndi að eitthvert slíkt vilyrði gæti verið ástæðan fyrir því hve hógværir LÍÚ-menn væru þessa dagana. Ég hef ekki tekið eftir þeirri hógværð og ekki orðið var við hógværðina í skoðunum þeirra á þeim málum sem við vinnum að, hvorki í opinberum yfirlýsingum né persónulegri yfirlýsingum sem ég hef fengið að heyra.

Varðandi spurninguna um áhrif á byggðirnar þá er ég ekki sammála þeim forsendum sem hv. þm. gefur sér, að sá afli sem kemur á land frá sóknardagabátunum muni berast að landi á öðrum stöðum en í dag. Ég er ekki viss um að sá vandi verði til, hæstv. forseti, sem hv. þm. er að ræða um. Ég mun reyna að svara því betur í síðara andsvari.