Stjórn fiskveiða

Miðvikudaginn 26. maí 2004, kl. 23:57:56 (9080)

2004-05-26 23:57:56# 130. lþ. 127.22 fundur 996. mál: #A stjórn fiskveiða# (sóknardagar báta, krókaaflamark o.fl.) frv. 74/2004, GAK (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 127. fundur, 130. lþ.

[23:57]

Guðjón A. Kristjánsson (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég veit náttúrlega ekki hvaða persónuleg samtöl hafa farið fram milli hæstv. ráðherra og LÍÚ. En hinu hef ég tekið eftir, að það er langt frá því sami hamagangurinn í LÍÚ þessa dagana og var þegar rætt var um línuívilnunina og var þó um minni aflaheimildir að ræða þá en nú er lagt upp með, enda tekur ráðherrann viðmiðunina úr 2 þús. tonnum yfir í 11 þús. tonn. Ég dreg þá ályktun af því, af því að ég þekki þessa menn og samdi við þá í einhverja áratugi, að þeir geri sér vonir um að komast í að kaupa þessar aflaheimildir upp við tækifæri.

Ég vona svo sannarlega að hæstv. ráðherra hafi rétt fyrir sér með það að þetta muni ekki hafa þau áhrif sem ég óttast, að veikja mjög byggðirnar. En vítin eru til að varast þau og það er staðreynd að framsal aflaheimilda hefur haft mikil áhrif eins og dæmin hafa sannað. Var ekki síðasta dæmi um það Djúpivogur fyrir austan? Þar áður Raufarhöfn, Seyðisfjörður og Sandgerði. Við gætum talið upp fleiri staði. En eins og hv. þm. Einar K. Guðfinnsson sagði í grein sinni, sem ég vitnaði í áðan, þá neitar því enginn lengur að það sé beint samband milli framsals, aflaheimilda, byggðaþróunar og atvinnutekna.