Synjunarvald forseta Íslands og staðfesting laga um fjölmiðla

Fimmtudaginn 27. maí 2004, kl. 10:01:28 (9134)

2004-05-27 10:01:28# 130. lþ. 128.91 fundur 601#B synjunarvald forseta Íslands og staðfesting laga um fjölmiðla# (aths. um störf þingsins), ÖS
[prenta uppsett í dálka] 128. fundur, 130. lþ.

[10:01]

Össur Skarphéðinsson:

Frú forseti. Ég vil að það komi fram að ég hafði óskað eftir því að hæstv. forsrh. væri í salnum og hann hefur nú gengið í hann. Ég kveð mér hljóðs út af tvennum ummælum hæstv. ráðherra á síðustu dögum sem tengjast embætti forseta lýðveldisins.

Það hefur komið fram að hæstv. forsrh. hyggst ekki enn um sinn senda forseta lýðveldisins fjölmiðlalögin til staðfestingar eða synjunar. Hæstv. ráðherra hefur skýrt þetta með þeim hætti að það taki yfirleitt 5--10 daga að senda forsetanum slík lög og hann telji enga ástæðu til að hraða því. Ég er á öndverðri skoðun, frú forseti. Sökum þeirrar óvissu sem ríkir um þetta mál, ekki síst vegna ummæla hæstv. forsrh., tel ég að hraða beri sendingu laganna til forsetans.

Þetta lyktar allt af því, frú forseti, að hæstv. forsrh. vilji að þingið hafi lokið störfum og verði komið í frí þegar lögin berast forsetanum, og ég spyr hæstv. forsrh. hreint út: Er það tilgangur hans?

Í annan stað hefur hæstv. ráðherra ítrekað sagt það síðustu daga að hann telji að það sé í verkahring hans að kanna og skera úr um hvort forseti hafi rétt til að skjóta fjölmiðlalögunum til þjóðaratkvæðis. Þetta eru fráleit ummæli sem ég hlýt að mótmæla, frú forseti. Þetta er enn ein ögrunin af hálfu hæstv. forsrh. gagnvart forseta lýðveldisins og hluti af stöðugri viðleitni hans til þess að veikja og grafa undan embættinu.

Samkvæmt stjórnarskránni hefur forsetinn þríþætta hlutdeild í lagasetningarvaldinu. Hann getur staðfest lög, synjað lögum og þannig skotið þeim til þjóðaratkvæðis og hann getur sett bráðabirgðalög. Þetta er ótvírætt. Hæstv. forsrh. getur ekkert úrskurðað um neitt í þessum efnum, hann hefur enga heimild til þess. Eini aðilinn sem getur úrskurðað í þessu máli er þjóðin sjálf ef það kemur til þjóðaratkvæðagreiðslu. Ég tel því, frú forseti, að í þessu felist ekkert annað en viðleitni til að svipta forsetann hluta af því lagasetningarvaldi sem honum er veitt með stjórnarskránni. Ég tel að það væri brot á stjórnarskránni og ég lýsi því, frú forseti, að það er nóg komið af þessum leik. Ég spyr hæstv. forsrh. hvort hann hyggist ekki hætta honum.