Synjunarvald forseta Íslands og staðfesting laga um fjölmiðla

Fimmtudaginn 27. maí 2004, kl. 10:08:11 (9137)

2004-05-27 10:08:11# 130. lþ. 128.91 fundur 601#B synjunarvald forseta Íslands og staðfesting laga um fjölmiðla# (aths. um störf þingsins), PHB
[prenta uppsett í dálka] 128. fundur, 130. lþ.

[10:08]

Pétur H. Blöndal:

Frú forseti. Ég ætla ekki að blanda mér í þessar deilur. Í fyrradag barst mér tölvupóstur frá Helga Magnússyni þar sem hann segir að hann hafi ætlað að kanna á askorun.is hvort kennitala samstarfsmanns síns hefði verið skráð að honum forspurðum. Það gat hann ekki. (Gripið fram í: Störf þingsins?) Þetta er um störf þingsins, já.

Þegar hér var komið sögu segir hann að sér hafi þótt þetta undarleg síða og ákvað að prófa hana frekar. Hann skráði inn kennitölu afa síns. Það gekk viðstöðulaust en afinn dó fyrir 20 árum. Ég hringdi í Helga í gær og hann fékk kennitölu mína og gat skráð mig viðstöðulaust einhvers staðar úti í bæ án þess að ég skrifaði undir eitt eða neitt. (Gripið fram í: Þannig að þú hefur skorað á forsetann?) Við fundum líka kennitölu forsetans en við skráðum hana ekki inn, þ.e. Helgi skráði hana ekki inn, en okkur hefði verið það í lófa lagið.

Það er ekki þetta sem ég ætla að gera athugasemdir við heldur fréttaflutning fjölmiðla af þessari áskorun. Allir fjölmiðlar, RÚV, Morgunblaðið, Fréttablaðið, Stöð 2 o.s.frv., hafa treyst þessari áskorun eins og nýju neti. Enginn þeirra hefur spurt eða kannað eitt eða neitt. Fréttir hafa birst í fjölmiðlum um að 31.700 manns hafi skorað á forsetann með þessari könnun án þess að framkvæma gagnrýna rannsókn á því hvers lags könnun þetta var.

Frú forseti. Ég tel þetta mjög slæma niðurstöðu hjá fjölmiðlum. Af því að við höfum rætt svo mikið fjölmiðla undanfarið vildi ég gera þessa athugasemd við störf þingsins. (MÁ: Banna fjölmiðla?) (BH: Athugasemd við störf þingsins?)