Loftferðir

Fimmtudaginn 27. maí 2004, kl. 10:19:22 (9142)

2004-05-27 10:19:22# 130. lþ. 128.17 fundur 945. mál: #A loftferðir# (Montreal-samningurinn, EES-reglur o.fl.) frv. 88/2004, Frsm. GHall
[prenta uppsett í dálka] 128. fundur, 130. lþ.

[10:19]

Frsm. samgn. (Guðmundur Hallvarðsson):

Virðulegi forseti. Ég flyt nefndarálit samgn. um frv. til laga um breytingu á lögum um loftferðir, nr. 60/1998, með síðari breytingum.

Nefndin hefur fjallað um málið og fengið á sinn fund fjölda aðila. Umsagnir hafa líka borist frá fjölmörgum aðilum. Málið var rætt í nefndinni í samhengi við þingmál 946, frumvarp til laga um breytingu á lögum nr. 41/1949...

(Forseti (SP): Forseta þykir vera nokkur kliður í salnum og biður hv. þingmenn að hafa hér ró og veita hv. þingmanni tækifæri til að ljúka máli sínu.)

Virðulegi forseti. Málið var rætt í nefndinni í samhengi við þingmál 946, frumvarp til laga um breytingu á lögum nr. 41/1949, um gildistöku alþjóðasamnings um samræmingu nokkurra reglna varðandi loftflutninga milli landa, með síðari breytingum, og þingmál 947, frumvarp til laga um breyting á lögum um flugmálaáætlun og fjáröflun til flugmála, nr. 31/1987, með síðari breytingum, en nefndin gefur álit um hvert mál fyrir sig.

Í frumvarpinu er annars vegar að finna breytingar á gjaldtöku samkvæmt loftferðalögum og hins vegar viðamiklar breytingar á lögunum vegna Montreal-samningsins frá 1999.

Í 1. gr. frumvarpsins eru lagðar til breytingar á lendingargjöldum í millilandaflugi þannig að þau verði 650 kr. í millilandaflugi á flugvöllum utan Reykjavíkur en 10 bandaríkjadalir fyrir lendingu millilandaflugs í Reykjavík. Lendingargjald í millilandaflugi á flugvöllum utan Reykjavíkur er samkvæmt gildandi lögum 7,05 bandaríkjadalir og hefur verið svo um langa hríð. Þörf fyrir breytingar er m.a. að finna í niðursveiflu á gengi bandaríkjadals sem hefur komið illa við rekstur flugvalla þar sem kostnaður er í íslenskum krónum. Nefndin fellst á að þörf sé fyrir hækkun lendingargjalda í millilandaflugi að teknu tilliti til aukinna umsvifa og fjárfestinga á Keflavíkurflugvelli auk áhrifa af fyrrgreindum breytingum á raungengi krónunnar gagnvart bandaríkjadal. Nefndin telur þó réttara að lendingargjöld verði áfram ákveðin í bandaríkjadölum þar sem það fellur betur að alþjóðlegu hlutverki millilandaflugvalla auk þess sem meira samræmi er þá í greininni þar sem lendingargjald vegna millilandaflugs í Reykjavík er ákveðið í bandaríkjadölum. Nefndin leggur til að lendingargjald í millilandaflugi utan Reykjavíkur verði 8,15 bandaríkjadalir.

Lendingargjald í innanlandsflugi helst óbreytt frá gildandi lögum.

Í 2. gr. frumvarpsins er lagt til að tekið verði upp öryggisgjald í stað vopnaleitargjalds og það ákveðið 570 kr. Kröfur um eftirlit og öryggi í flugi hafa stóraukist á undanförnum árum, sérstaklega eftir voðaatburðina í Bandaríkjunum 11. september 2001. Jafnframt hefur tækni á þessu sviði fleygt fram og ríkar kröfur eru gerðar til alþjóðaflugvalla um að þeir fylgi þeirri þróun með endurnýjun tækjabúnaðar og þjálfun. Til að tryggja öryggi í flugi og á flugvöllum fer nú fram víðtækara öryggiseftirlit en felst í vopnaleit. Að þessu virtu fellst nefndin á að réttara sé að tala um ,,öryggisgjald`` en ,,vopnaleitargjald`` og leggur hún til að það verði 620 kr. fyrir hvern farþega sem er eldri en tólf ára enda telur nefndin sýnt að 570 kr. öryggisgjald sem gert er ráð fyrir í frumvarpinu standi ekki undir kostnaði sem fellur til við að tryggja öryggi á íslenskum millilandaflugvöllum þannig að þeir geti mætt þeim kröfum sem gerðar eru í flugi á alþjóðavísu.

Í umsögnum frá Icelandair, Flugfélagi Íslands og Samtökum ferðaþjónustunnar er gagnrýndur aðskilnaður sem er á milli rekstrar Keflavíkurflugvallar og Flugstöðvar Leifs Eiríkssonar. Í umsögnunum er bent á að Flugstöð Leifs Eiríkssonar hafi verið rekin með miklum hagnaði undanfarið en að sá hagnaður nýtist ekki til að halda niðri kostnaði sem notendur Keflavíkurflugvallar eru krafðir um. Þessir aðilar fara í umsögnum sínum fram á að stjórnvöld leiti leiða til að samræma betur heildarstarfsemina á Keflavíkurflugvelli, þ.e. rekstur flugvallarins og flugstöðvarinnar, auk samræmingar í stjórnsýslu Flugmálastjórnar Íslands og Flugmálastjórnar í Keflavík. Nefndin ræddi þetta nokkuð og komst að þeirri niðurstöðu að þessar athugasemdir geti ekki haft áhrif á þetta frumvarp enda sé þess gætt að hafa þau gjöld, sem kveðið er á um í 1. og 2. gr., ekki of há og með breytingu á lendingargjaldi sé m.a. verið að mæta breytingum á gengi bandaríkjadals gagnvart íslensku krónunni. Nefndin telur þó fulla ástæðu til að taka þessar athugasemdir til frekari skoðunar og mun hún gera það á næstu mánuðum.

Í 3. gr. frumvarpsins eru fjölmörg ákvæði er öll varða breytingar sem gera þarf á lögunum vegna Montreal-samningsins frá 1999 sem tók gildi 4. nóvember 2003 gagnvart þeim ríkjum sem höfðu fullgilt hann. Samgönguráðherra skipaði starfshóp um endurskoðun loftferðalaga 14. maí 2000 og byggjast ákvæði 3. gr. frumvarpsins á vinnu þess hóps. Skipuð í þann starfshóp voru Kristján Þorbergsson hæstaréttarlögmaður, Ástríður S. Thorsteinsson, héraðsdómslögmaður hjá Flugmálastjórn Íslands, og Kristín Helga Markúsdóttir, lögfræðingur hjá samgönguráðuneyti. Samgöngunefnd gerir ekki efnislegar athugasemdir við ákvæði 3.--8. gr. en gerir tillögur um tvær orðalagsbreytingar.

Nefndin leggur til eftirfarandi breytingar á frumvarpinu:

1. Að lendingargjald fyrir loftfar í millilandaflugi sem lendir á flugvelli utan Reykjavíkur verði 8,15 bandaríkjadalir en ekki 650 kr. eins og lagt er til í frumvarpinu.

2. Að orðalag 2. gr. verði gert skýrara með orðunum ,,vopna- og öryggisleit`` í stað ,,slík leit`` í 1. málsl. 1. efnismgr. og að öryggisgjald fyrir farþega sem orðnir eru tólf ára verði 620 kr. í stað 570 kr. svo sem lagt er til í frumvarpinu.

3. Að orðalagi 1. og 4. mgr. k-liðar 3. gr. verði breytt lítillega.

Nefndin leggur til að frumvarpið verði samþykkt með framangreindum breytingum sem gerð er tillaga um í sérstöku þingskjali.

Þuríður Backman sat fund nefndarinnar sem áheyrnarfulltrúi og er hún samþykk áliti þessu með fyrirvara. Kristinn H. Gunnarsson var fjarverandi við afgreiðslu málsins.

Þannig afgreitt úr samgn. 10. maí 2004. Undir nefndarálitið rita Guðmundur Hallvarðsson, Arnbjörg Sveinsdóttir, Birkir J. Jónsson, Guðjón Hjörleifsson, Guðjón A. Kristjánsson, með fyrirvara, Einar Már Sigurðarson, með fyrirvara, Jóhann Ársælsson, með fyrirvara og Einar Karl Haraldsson, með fyrirvara.

Herra forseti. Að loknum umræðum legg ég til að málinu verði vísað til 3. umr.