Loftferðir

Fimmtudaginn 27. maí 2004, kl. 10:29:38 (9144)

2004-05-27 10:29:38# 130. lþ. 128.17 fundur 945. mál: #A loftferðir# (Montreal-samningurinn, EES-reglur o.fl.) frv. 88/2004, ÞBack
[prenta uppsett í dálka] 128. fundur, 130. lþ.

[10:29]

Þuríður Backman:

Frú forseti. Það má taka undir orð hv. þm. Einars Más Sigurðarsonar og þakka formanni samgn. fyrir góða stjórn á fundum í vetur.

Þetta frv. sem við fjöllum um hér er afrakstur samnings sem er kenndur við Montreal og varðar öryggisþætti og loftferðir. Atburðir 11. september 2001 höfðu áhrif á mörg svið úti um allan heim, jafnt hér á landi sem annars staðar. Alls staðar er þörf á aukinni öryggisgæslu á flugstöðvum og í almenningssamgöngum. Þetta er staðreynd sem við stöndum frammi fyrir. Jafnframt tel ég að við þurfum að gæta okkar á því að fara ekki offari, fara ekki fram úr okkur hvað varðar öryggisþætti og kostnað við það að koma upp óheyrilegri öryggisgæslu.

Við ráðum þessu samt ekki öllu sjálf. Við erum bundin af alþjóðlegum samningum og kröfum sem við verðum að uppfylla og m.a. er þetta gjald sem nú er verið að leggja á, öryggisgjald, til þess að standa undir ýmsum þeim þáttum sem snúa að öryggismálum, ekki eingöngu vopnaleit eins og hér kom fram í máli hv. frsm. og formanns samgn.

Verið er að hækka það gjald sem áður var vopnaleitargjald --- nú heitir það öryggisgjald og lendingargjald --- samtals um 220 millj. og þetta fjármagn er ekki sérstaklega sundurgreint. Þetta er hækkun sem fer inn í farseðlana og þar af leiðandi út í verðlagið. Það er alveg vitað og því er ekkert sjálfgefið að hækka þessi gjöld án þess að skoða líka hvort ekki sé hægt að spara eitthvað í rekstrinum og koma þarna á móti.

Eins og kemur fram í nefndaráliti hafa nokkrir aðilar bent á að góðar tekjur hafa verið af Flugstöð Leifs Eiríkssonar. Ég tek undir þá skoðun að horfa eigi á rekstur Keflavíkurflugvallar og Flugstöðvarinnar sem eina heild og nýta þær tekjur sem koma af rekstri flugstöðvarinnar í þann rekstur sem er á flugvellinum að öðru leyti. Mér finnst mjög óeðlilegt að hægt sé að ná inn umtalsverðum tekjum af flugstöðinni, þar sem er jú þjónusta við þessa sömu farþega og verið er að taka af gjald vegna reksturs á flugvellinum og flugprömmunum, en jafna þessu ekki út og hafa sem eina rekstrareiningu. Ég tel að skoða þurfi þetta betur og reyna í framtíðinni að fá þarna inn tekjur svo ekki þurfi að hækka enn frekar þessi gjöld, öryggisgjaldið og lendingargjaldið. Það mun hafa áhrif á ferðaþjónustuna í landinu ef við skerum okkur úr hvað varðar þessi gjöld. Það hefur áhrif á komu leiguflugvéla hingað, starfsemi lággjaldaflugfélaga, hvort þau telji Ísland vænlegan kost, og þó að þetta sé ekki mjög mikil hækkun núna hefur þetta allt saman áhrif og sérstaklega hjá lággjaldaflugfélögunum. Við þurfum að fara varlega í sakirnar.

Það er í sjálfu sér ekki mikið um þetta að segja annað en að það þarf að skoða betur í framhaldi af afgreiðslu þessa máls þær tekjur sem koma af flugstöðinni og rekstur á flugvöllunum. Eins þarf að skoða hvernig það kemur út að breyta gjaldinu í dollara eins og gert er í frv. Ég tel að það þurfi að meta eftir einhvern tíma hvort það hefur eitthvað að segja að hafa gjaldið í dollurum í stað íslensku krónunnar. Það voru tvær ástæður fyrir því að þessu var breytt í dollara. Íslenska krónan hafði um tíma veikst og eins var talið að lággjaldaflugfélögin sérstaklega teldu heppilegra að hafa gjaldið í dollurum og það væri aðgengilegra fyrir þau félög.