Loftferðir

Fimmtudaginn 27. maí 2004, kl. 10:36:43 (9145)

2004-05-27 10:36:43# 130. lþ. 128.17 fundur 945. mál: #A loftferðir# (Montreal-samningurinn, EES-reglur o.fl.) frv. 88/2004, Frsm. GHall
[prenta uppsett í dálka] 128. fundur, 130. lþ.

[10:36]

Frsm. samgn. (Guðmundur Hallvarðsson):

Virðulegi forseti. Ég þakka þeim þingmönnum sem hér hafa fjallað um þetta mál og þakka samnefndarmönnum mínum í samgn. góð orð í minn garð og þakka þeim jafnframt fyrir mjög sérstakt og gott samstarf sem hefur tekist í samgn.

Aðeins út af því sem kom fram, bæði hjá síðasta ræðumanni svo og hv. þm. Einari Má Sigurðarsyni, þeim varnaðarorðum að við færum ekki fram úr sjálfum okkur í öryggiseftirlitinu er ég sammála því. Það þarf að halda vel á því svo að ekki verði þar um of. Hitt er þó rétt að benda á að öryggisgæsla á Keflavíkurflugvelli, á þessum alþjóðaflugvelli, nýtur trausts annars staðar, á öðrum flugvöllum. Ef það væri ekki svo, ef öryggið væri ekki í samræmi við kröfur erlendis, þýddi það að þeir sem kæmu frá Keflavíkurflugvelli á aðra flugvelli mundu fá einhverja sérstaka afgreiðslu á endaflugvöllum og vera jafnvel fluttir í sérstakri vél eða rútu á annan flugvöll eða til annarra rannsókna. Þeir gætu þá ekki gengið í gegnum aðrar flugstöðvar eins og er í dag þannig að það þarf líka að passa þetta.

Síðan er það rétt eins og hér hefur komið fram í sambandi við rekstur flugstöðva og flugvalla. Það er náttúrlega mjög sérstakt að þetta skuli vera með þeim hætti sem verið hefur í áraraðir á Keflavíkurflugvelli. Þessi tilraun hefur verið gerð á öðrum flugvöllum þar sem rekstur flugvallar og flugstöðvar hefur verið slitinn í sundur og það hefur gefist afar illa og er nánast hvergi nokkurs staðar til í dag eftir því sem fram kom hjá okkar færustu sérfræðingum á sviði flugmála og starfsemi flugvalla annars staðar í heiminum. Enda varð samgn. líka sammála um að halda áfram þessari vinnu og fara á vettvang, m.a. á Keflavíkurflugvöll, og kynna sér þessi mál rækilega.

Svo er náttúrlega líka hitt að það er mjög óeðlilegt að í ekki stærra landi en Íslandi skuli vera tvær flugmálastjórnir. Þetta er með ólíkindum. Það er eðlilegt að Flugstöð Leifs Eiríkssonar og Keflavíkurflugvöllur séu rekin saman og líka það að flugmálastjórn á Íslandi sé ein og hin sama yfir öllum flugvöllum.

(Forseti (SP): Forseti sér ástæðu til að áminna hv. þingmenn um að hafa ekki kveikt á farsímum í salnum.)