Loftferðir

Fimmtudaginn 27. maí 2004, kl. 10:39:55 (9146)

2004-05-27 10:39:55# 130. lþ. 128.17 fundur 945. mál: #A loftferðir# (Montreal-samningurinn, EES-reglur o.fl.) frv. 88/2004, ÞBack
[prenta uppsett í dálka] 128. fundur, 130. lþ.

[10:39]

Þuríður Backman:

Frú forseti. Ég fann þetta ekki í blöðum mínum áðan en ætlaði að minnast á það varðandi öryggisgjaldið að það kom fram hjá fulltrúum Flugleiða að þar sem það er orðin alþjóðleg staðreynd að auka þurfi mjög öryggi á flugvöllum og í opinberum samgöngum taki hið opinbera þátt í þessum kostnaði. Það er litið á þau viðbrögð sem verður að hafa á flugvöllunum vegna ótta við hryðjuverk eða glæpastarfsemi sem þjóðhagslegt öryggi. Þar af leiðandi eru flugfélögin ekki látin taka þetta alfarið á sig heldur kemur hið opinbera inn og tekur þátt í þessum kostnaði, bara mismunandi mikið.

Ég tel að þetta sé nokkuð sem við eigum að skoða líka þannig að við fáum ekki allan þann kostnað sem verður af öryggisgæslunni inn í flugfargjaldið sem mun bitna þá á ferðaþjónustunni hér á landi og fara beint og óbeint út í verðlagið.