Flugmálaáætlun og fjáröflun til flugmála

Fimmtudaginn 27. maí 2004, kl. 10:44:19 (9148)

2004-05-27 10:44:19# 130. lþ. 128.18 fundur 947. mál: #A flugmálaáætlun og fjáröflun til flugmála# (flugvallaskattur) frv. 95/2004, Frsm. GHall
[prenta uppsett í dálka] 128. fundur, 130. lþ.

[10:44]

Frsm. samgn. (Guðmundur Hallvarðsson):

Frú forseti. Ég mæli fyrir nefndaráliti um frv. til laga um breyting á lögum um flugmálaáætlun og fjáröflun til flugmála nr. 31/1987, með síðari breytingum.

Málið var rætt í samgöngunefnd í samhengi við þingmál 946, frumvarp til laga um breytingu á lögum nr. 41/1949, um gildistöku alþjóðsamnings um samræmingu nokkurra reglna varðandi loftflutninga milli landa, með síðari breytingum, og þingmál 945, frumvarp til laga um breytingu á lögum um loftferðir, nr. 60/1998, með síðari breytingum, en nefndin gefur álit um hvert þessara mála fyrir sig.

Með frumvarpi þessu er brugðist við dómi EFTA-dómstólsins frá 12. desember 2003 þar sem dæmt var að með því að viðhalda gildandi ákvæðum um flugvallagjald í lögum um flugmálaáætlun og fjáröflun til flugmála, þar sem hærra gjald er lagt á farþega sem ferðast frá landinu til annarra EFTA-landa en á farþega í innanlandsflugi, bryti Ísland gegn skyldum sínum skv. 36. gr. EES-samningsins og grein 3(1) í reglugerð ráðsins (EBE) nr. 2408/92 frá 23. júlí 1992 um aðgang bandalagsflugvéla að flugleiðum innan bandalagsins.

Í frumvarpinu er lagt til að í stað flugvallagjalds samkvæmt gildandi lögum komi flugvallaskattur sem verði 382 kr. á hverja brottför á flugvelli á Íslandi og jafnhár hvort sem um innanlands- eða millilandaflug er að ræða. Þá verði lagt á sérstakt þjónustugjald til að fjármagna viðbótarkostnað vegna rekstrar og viðhalds alþjóðlegra varaflugvalla á Íslandi sem skal greiða vegna hvers manns sem ferðast frá Íslandi til annarra landa. Gjald þetta er ákveðið í 2. gr. frumvarpsins 598 kr. en skal endurskoðað á tveggja ára fresti, sbr. 9. gr. frumvarpsins.

Við undirbúning frumvarpsins leitaði samgönguráðuneyti eftir sérstöku áliti Davíðs Þórs Björgvinssonar lagaprófessors um framangreindan dóm EFTA-dómstólsins og túlkun viðeigandi réttarreglna. Við gerð frumvarpsins hefur m.a. verið tekið tillit til niðurstaðna hans.

Nefndin fellst á þau sjónarmið sem frumvarpið byggist á og fram koma í athugasemdum með því.

Nefndin leggur til orðalagsbreytingu á 8. gr. frumvarpsins, að frumvarpið verði samþykkt með eftirfarandi breytingu við 8. gr.:

Orðin ,,Tekjum af`` í 1. og 2. málsl. falli brott.

Þuríður Backman sat fund nefndarinnar sem áheyrnarfulltrúi og er hún samþykk áliti þessu með fyrirvara og áskilur sér rétt til að styðja breytingartillögur.

Guðjón Hjörleifsson, Guðjón A. Kristjánsson, Einar Már Sigurðarson, Jóhann Ársælsson og Einar Karl Haraldsson undirrita álitið með fyrirvara og áskilja sér rétt til að leggja fram og styðja breytingar við málið.

Kristinn H. Gunnarsson var fjarverandi við afgreiðslu málsins.

Þannig samþykkt í samgöngunefnd Alþingis 10. maí 2004. Undir álitið rita Guðmundur Hallvarðsson, formaður og frsm., Arnbjörg Sveinsdóttir, Birkir J. Jónsson, Guðjón Hjörleifsson, með fyrirvara, Guðjón A. Kristjánsson, með fyrirvara, Einar Már Sigurðarson, með fyrirvara, Jóhann Ársælsson, með fyrirvara og Einar Karl Haraldsson, með fyrirvara.