Umferðarlög

Fimmtudaginn 27. maí 2004, kl. 11:07:39 (9152)

2004-05-27 11:07:39# 130. lþ. 128.19 fundur 464. mál: #A umferðarlög# (öryggi barna, gjöld, EES-reglur o.fl.) frv. 84/2004, ÞBack
[prenta uppsett í dálka] 128. fundur, 130. lþ.

[11:07]

Þuríður Backman:

Frú forseti. Ég tek undir orð hv. þm. Kolbrúnar Halldórsdóttur hvað varðar þetta atriði, í fyrsta lagi um hjólreiðastígana sem er mjög mikilvægt að koma í einhvern farveg og fara að vinna markvisst að, að það sé eins og það er í dag hjá skipulagi hvers sveitarfélags innan þéttbýlis. Það vantar líka tengingu við þjóðvegakerfið og tengingu milli staða þar sem við getum smám saman byggt upp samfellt net hjólreiðastíga en ekki eins slitrótt og það er í dag. Því miður vantar algjörlega hjólreiðastíga víða um land. Þar er treyst á að umferð sé ekki of mikil til að mönnum stafi hætta af að vera úti á götunni eða þá uppi á gangstéttunum.

Því tel ég mikilvægt að endurflytja það mál sem sent var út til umsagnar varðandi reiðhjólastíga og tenginet hjólreiðastíga. Þegar umsagnir verða komnar nú í sumar þarf að taka málið upp og vinna með það strax í haust.

Eftir stöndum við með þá staðreynd að þegar eru komin tæki sem eru hvorki leiktæki né heldur hugsuð sem samgöngutæki eins og þau hjól sem eru knúin með rafmótor og geta farið á allt 20 km hraða á klst. Fullorðnir hafa helst notað þau. Það er ekki gert ráð fyrir þeim í frv. en það hefur verið mikil eftirspurn eftir því að flytja inn þessi hlaupahjól með litlum rafknúnum mótor og þau fara þá ekki hraðar en 15 km á klst. Þessum farartækjum, hlaupahjólum, verður óheimilt að vera úti á akbrautunum, þau eiga að vera uppi á gangstéttum eða hjólreiðastígum. Ég tek undir það með hv. þingmanni að auðvitað er af þessum hjólum bæði hávaðamengun og truflun fyrir þá sem eru á reiðhjólum. Þetta fer hugsanlega ekki vel saman en við þurfum að leggjast vel yfir það hvernig það geti orðið og þá sérstaklega með því að efla hér útfærslu og leggja hjólreiðabrautirnar.

Ég tek jafnframt undir það með hv. þingmanni að mörg tæki hafa létt undir með fullorðnum og þá sérstaklega þeim sem eru ekki fullfrískir en geta ferðast um annaðhvort með svona sérútbúnum hjólum með hjálparmótor eða á hlaupabrettum fyrir fullorðna sem eru nú til þar sem eru tvö hlaupabretti í stað eins eins og krakkarnir eru á. Á þeim er hægt að komast auðveldlega um, þ.e. ef allar gangstéttarbrúnir og hönnun vegakerfisins auðveldar slíkt. Þetta eru ný tæki sem við þurfum að finna pláss fyrir í samgönguneti okkar. Þá þarf enn frekar en gert er í dag, ef við ætlum að hvetja fullorðna einstaklinga til að nota svona hjól, að huga að öllum brúnum þannig að hvergi sé fyrirstaða. Allir þeir sem eru í dag með barnavagna, kerrur eða hjólastóla vita hvað það getur verið erfitt að komast um þó að búið sé að leggja gangstéttar meðfram öllum götum. Við erum að tala um sjálfbæra þróun, og sjálfbær þróun í samgöngum á að taka tillit til þarfa þessara einstaklinga og hjólafólksins líka.

Ég styð líka það að þetta ákvæði fari inn núna í stað þess að vera hér með tæki sem eiga þá hvergi heima í umferðinni, þ.e. þessi litlu mótorhlaupahjól. Þau eiga ekki að vera úti á götunum. Þetta eru meira en leiktæki og ég held að það sé þá betra að hafa þau uppi á gangstéttum og á reiðhjólabrautum eins og er en ég ætla rétt að vona að þetta verði ekki næsta æðið sem grípur um sig því að börnum er þó a.m.k. hollara að vera á venjulegum hlaupahjólum en ekki á þeim með litlum mótor. Það verður þó tíminn að leiða í ljós.

Það sem ég vildi, hæstv. forseti, aðeins taka hérna upp varðar 4. gr. en ég hef fyrirvara við hana. Hún orðast svo, með leyfi hæstv. forseta:

,,Vegagerðin annast eftirlit með reglum um aksturs- og hvíldartíma ökumanna. Sérstökum eftirlitsmönnum hennar er heimilt að stöðva ökutæki til þess að skoða upplýsingar sem varðveittar eru í ökurita ökutækisins, á ökuritakorti eða með öðrum hætti. Dómsmálaráðherra setur reglur um hæfi og starfsþjálfun eftirlitsmanna Vegagerðarinnar og setur þeim starfsreglur.``

Ég set fyrirvara við það að þessu fyrirkomulagi verði komið á. Í dag eru ætíð fulltrúi Vegagerðarinnar og fulltrúi lögreglunnar saman í bíl í þessum eftirlitsferðum, það er lögreglan sem stöðvar bílinn og fulltrúi Vegagerðarinnar annast svo lestur af öllum mælum. Ég tel að við eigum að fara varlega í það að heimila öðrum en lögreglunni að stöðva bifreiðar. Ég veit að það tíðkast víða erlendis að sérstakir starfsmenn samsvarandi starfsmönnum Vegagerðarinnar hér hafi slíka heimild en Landssamband lögreglumanna hefur með mjög sannfærandi hætti varað við því að koma þeirri breytingu á. Öryggisins vegna er farsælast að lögreglan ein hafi heimild til að stöðva ökutæki.

Ég skil vel hugmyndir Vegagerðarinnar hvað þetta varðar. Hún greiðir fyrir þessa þjónustu, þarf að spara eins og allar aðrar opinberar stofnanir og telur sig geta komist betur frá þessu eftirliti með því að hafa tvo menn í bílnum, og að starfsmenn Vegagerðarinnar stöðvi þá flutningabílana til að lesa á aksturskortin. Fjármagnið kemur jú allt úr ríkissjóði, þ.e. greiðslur til Vegagerðarinnar og lögreglunnar, og ég tel að þarna eigum við að stíga varlega niður. Ég set stórt spurningarmerki við þá ákvörðun að heimila Vegagerðinni að stöðva bifreiðarnar þó svo að það verði sérstakir eftirlitsmenn og þó svo að þeir verði vel merktir. Þetta er þá fordæmi sem hægt er að útvíkka og gefa Vegagerðinni hugsanlega heimild til að stöðva bifreiðar í öðrum tilgangi sem lýtur að eftirliti Vegagerðarinnar. Alltaf eru að bætast við þeir þættir sem eftirlit þarf að hafa með, þá sérstaklega varðandi flutningabílana.

Annað sem ég vildi nefna varðar hvíldartímaákvæðin. Þetta er auðvitað öryggisatriði, það er öryggisatriði í umferðinni að ökumenn fái næga hvíld og séu vel upplagðir við aksturinn, en þetta er líka vinnuvernd. Ég vil koma því hér á framfæri að ég tel að það eigi að skoða það hvort hvíldartímaákvæðin eigi ekki að vera bara í sérlögum eða að sérákvæði eigi við um hvíldartíma ökumanna. Er ekki rétt að fara mjög ákveðið í þá vinnu að athuga hvort ekki sé hægt að fá undanþágu frá reglum ESB-tilskipunarinnar um hvíldartíma ökumanna og athuga hvort við séum með öll undanþáguákvæðin fullnýtt. Það er vitað að sendibílstjórar féllu utan þessarar tilskipunar og það er verið að endurskoða hana. Ég tel að við eigum að athuga hvort ekki sé hægt að fá undanþágu, sérstaklega með tilliti til veðurs, ófærðar og sérstakra aðstæðna sem oft skapast hér á Íslandi þegar farið er á milli staða sem hugsanlega á að taka fimm tíma að komast á milli en vegna ófærðar og veðurs getur það tekið mun fleiri klukkutíma.

Taka má dæmi af vöruflutningabílstjóra sem kemur vestan af fjörðum, er búinn að vera þar í mikilli ófærð og óveðri, er svo kominn fram yfir aksturstíma sinn og á að vera kominn í hvíldartíma og þá er hugsanlegt að hægt sé að stoppa hann bara uppi í Borgarfirði og sekta hann fyrir að brjóta hvíldartímaákvæðið. Það sér náttúrlega hver maður að það verður að taka tillit til aðstæðna þó svo að við verðum alltaf líka að horfa á það að þetta ákvæði um hvíldartímann er fyrst og fremst sett vegna aðstæðna í Evrópu þar sem vörubílstjórar fara landanna á milli og keyrðu áður svo lengi að ógn stóð af þeim í umferðinni. Þær vegalengdir eru ekki hér á landi. Við höfum ekki þessa möguleika, eins og innan Evrópusambandsins, að keyra frá Svíþjóð og suður á Ítalíu eða hvert það nú er. Lengsta vegalengdin er frá norðausturhorninu og hingað suður á höfuðborgarsvæðið eða frá Vestfjörðum og hingað suður. Ég tel að við þurfum með einhverjum hætti að taka tillit til þessara aðstæðna.