Þjóðgarðurinn á Þingvöllum

Fimmtudaginn 27. maí 2004, kl. 11:38:34 (9160)

2004-05-27 11:38:34# 130. lþ. 128.24 fundur 868. mál: #A þjóðgarðurinn á Þingvöllum# frv. 47/2004, Frsm. BjarnB
[prenta uppsett í dálka] 128. fundur, 130. lþ.

[11:38]

Frsm. allshn. (Bjarni Benediktsson):

Virðulegi forseti. Ég mæli fyrir nál. frá allshn. um frv. til laga um þjóðgarðinn á Þingvöllum.

Nefndin hefur fjallað um málið og fengið á fund sinn fjölmarga aðila eins og fram kemur í nál., m.a. frá forsrn., fulltrúa frá Þingvallanefnd og frá Grímsnes- og Grafningshreppi. Auk þess bárust fjölmargar umsagnir um frv.

Með frumvarpinu er lagt til að sett verði ný heildarlög um þjóðgarðinn á Þingvöllum en núgildandi lög sem taka til friðunar Þingvalla eru frá árinu 1928. Megintilgangur frumvarpsins er að stækka þjóðgarðinn úr 40 ferkílómetrum í 237 ferkílómetra. Stækkunin er því nánast sexföld. Þá eru í frumvarpinu settar fyllri efnisreglur um stjórn þjóðgarðsins og skýrt er kveðið á um tengsl Þingvallanefndar við hefðbundna stjórnsýslu ríkisins og úrskurðarvald í stjórnsýslukærum vegna ákvarðana Þingvallanefndar.

Nefndin vekur athygli á því að 1. febrúar 2003 tilnefndi ríkisstjórn Íslands Þingvallaþjóðgarð á heimsminjaskrá UNESCO. Nefndin telur það metnaðarmál að Þingvellir verði samþykktir á heimsminjaskrána en ráðgert er að ákvörðun þess efnis verði tekin nú í sumar í Kína. Nefndin telur að það muni fela í sér mikla viðurkenningu á sérstöðu Þingvalla sem og alþjóðlega viðurkenningu sem á að öllum líkindum eftir að hafa í för með sér jákvæð áhrif á náttúru- og minjavernd og ferðaþjónustu.

Við meðferð málsins í nefndinni var athygli nefndarmanna vakin á því í umsögnum og á fundum með gestum að nokkrir aðilar óskuðu eftir að haft yrði samráð við þá af hálfu Þingvallanefndar um málefni þjóðgarðsins á Þingvöllum. Nefndin telur eðlilegt að mælt verði fyrir um samráð Þingvallanefndar við sveitarstjórnir Grímsnes- og Grafningshrepps og Bláskógabyggðar í reglugerð og beinir því til ráðherra að svo verði gert. Þá telur nefndin sjálfsagt að kveðið verði á um samráð við Fornleifavernd ríkisins um stjórnsýslu fornleifa á svæðinu í reglugerð en í framkvæmd mála fram til þessa hefur verið virkt samráð við stofnunina sem festa má betur í sessi með reglugerðarákvæði.

Þá kom það einnig í ljós við meðferð málsins í nefndinni að kirkjuráð telur kirkjuna telja til réttinda á því svæði sem frumvarpið tekur til. Af þessu tilefni tekur nefndin fram að í 1. gr. frumvarpsins er á sama hátt og í 4. gr. gildandi laga gert ráð fyrir að allt land innan hins friðlýsta svæðis verði í eigu þjóðarinnar. Nefndin telur að frumvarpið feli ekki í sér neina efnislega breytingu hvað þetta varðar en bendir á að telji einhver annar til réttinda innan hins friðlýsta svæðis er í 5. gr. frumvarpsins að finna ákvæði um hvernig úr því skuli leysa.

Nefndin leggur áherslu á að með heimild 6. gr. frumvarpsins um að í reglugerð megi ákveða að taka gestagjöld innan þjóðgarðsins fyrir veitta þjónustu og dvöl þar til að mæta kostnaði við þjónustuna og eftirlit með dvalargestum sé eingöngu átt við þjónustugjöld, svo sem fyrir tjaldstæði, leiðsögn og aðgang að ákveðnum stöðum. Þessi gjöld má því ekki ákveða hærri en svo að þau standi undir kostnaði við hina veittu þjónustu og þá aðstöðu sem komið er upp til að veita hana. Nefndin telur þó að heimild þessa ætti ekki að nýta til að krefjast almenns aðgangseyris að garðinum.

Samhliða framlagningu þessa frumvarps af hálfu forsætisráðherra hefur umhverfisráðherra lagt fram frumvarp til laga um verndun Þingvallavatns og vatnasviðs þess. Nefndin sendi frumvarpið til umsagnar umhverfisnefndar eins og áður greindi. Í umsögn hennar kemur m.a. fram að umhverfisnefnd leggur til að tillaga sem forsætisráðuneyti hefur beint til allsherjarnefndar, um að við frumvarpið um þjóðgarðinn á Þingvöllum verði bætt ákvæði um vatnsvernd innan hans, verði tekin til greina.

Nefndin leggur til að frumvarpið verði samþykkt með breytingum sem gerð er tillaga um í sérstöku þingskjali, þingskjali 1656, og ég leyfi mér að vísa til þess gjalds um efni breytingartillagnanna. Efni þeirra er rakið í stuttu máli í nefndaráliti allsherjarnefndar. Auk þess fylgir umsögn umhverfisnefndar nefndarálitinu sem fylgiskjal.

Sigurjón Þórðarson skrifar undir álit þetta með fyrirvara sem lýtur að skipun Þingvallanefndar. Þá má geta þess að Kolbrún Halldórsdóttir sat fundi nefndarinnar sem áheyrnarfulltrúi og er samþykk áliti þessu með fyrirvara um skipun Þingvallanefndar og fyrirvara sem sjá má við umsögn umhverfisnefndar til allsherjarnefndar og birtist sem fylgiskjal með nefndaráliti þessu, eins og ég gat um áður.

Tel ég mig hafa farið yfir allt það helsta sem fram kemur í því þingskjali sem ég er hingað kominn til að kynna og læt máli mínu lokið.