Þjóðgarðurinn á Þingvöllum

Fimmtudaginn 27. maí 2004, kl. 11:57:35 (9165)

2004-05-27 11:57:35# 130. lþ. 128.24 fundur 868. mál: #A þjóðgarðurinn á Þingvöllum# frv. 47/2004, ÖS
[prenta uppsett í dálka] 128. fundur, 130. lþ.

[11:57]

Össur Skarphéðinsson:

Herra forseti. Ég vil í örfáum orðum reifa þetta frv. svolítið. Eins og ég sagði í andsvari við hv. formann allshn. áðan er ég mjög ánægður með þessa vinnu. Ég gleðst sannarlega yfir því að frv. skuli vera komið hingað til lokasamþykktar á þinginu. Það eru ein sjö ár síðan lögð voru drög að því að frv. kæmi fram. Innan Þingvallanefndar fór fram töluvert mikil vinna við undirbúning frv. og ég sé það á þeim brtt. sem hér liggja fyrir að þær eru í flestum tilvikum ákaflega jákvæðar. Sú brtt. t.d. sem tengist vatnsvernd er mjög til fyrirmyndar og ekki gleður það mig síður að sjá þarna brtt. sem varðar beinlínis vernd búsvæða bleikjuafbrigðanna í vatninu og urriðans. Það er ekki vanþörf á að vel sé tekið á því í ákvæðum laga að framkvæmdarvaldinu beri að búa svo um hnúta að tryggt sé að það sérstæða lífríki sem í vatninu dafnar verði ekki fyrir neinu hnjaski.

Ég vil segja það líka að ég er þeirrar skoðunar að þeim ákvæðum sem verða í þessum lögum og í lögum um vatnsvernd, sem líklega verða þó ekki sett fyrr en á næsta hausti, eigi að beita. Það er sérstaklega tekið fram í greinargerðum með a.m.k. öðru frumvarpanna að það eigi að reyna eftir föngum að draga úr sveiflum á yfirborði vatnsins til þess að koma í veg fyrir að ýmis dýr eyðist, t.d. kuðungar. Kuðungarnir eru aðalfæða sérstaks afbrigðis bleikjunnar, svokallaðrar kuðungableikju, sem er einmitt sú bleikja sem mest er veidd af þeim sem leita í vatnið til útivistar og stangveiði. Hún er sömuleiðis aðalfæða sérstaks afbrigðis bleikju sem lifir í gjánum og er stundum kölluð gjámurta og dvergbleikja og er að öllu leyti eins í útliti og kuðungableikjan nema miklu smávaxnari og hefur þróað með sér alveg sérstaka strategíu til þess að lifa af. Hún er undrafiskur. Það hefur reyndar komið fram á síðustu árum að þetta afbrigði hefur þróast í sprungusveimnum sem liggur frá suðvesturhorninu í gegnum allt hálendið og til norðausturhornsins. Það er alveg einstakt í heiminum að fiskur hafi með þessum hætti þróast í eldfjallasprungum. Í Þingvallavatni er hann þekktastur og þeir fiskifræðingar sem fyrstir fóru í vötn til rannsóknar fyrir árið 1900, Feddersen hinn danski og síðan Árni Friðriksson, urðu fyrstir til þess að uppgötva þennan fisk. Við sem eyddum löngum stundum sem drengir og ungir menn við að veiða á stöng í vatninu veiddum þennan furðufisk oft. Veiðimenn taka hann yfirleitt ranglega fyrir murtu en hann er allt öðruvísi útlits og tekur allt öðruvísi á stöngina líka þannig að það er auðvelt að þekkja þennan fisk. Hv. þm. ættu að leggja leið sína að Peningagjá og ganga út í jaðra hennar, þá sjá þeir þessa fiska sem alltaf er hægt að finna í gjánum. Þennan fisk þarf að rannsaka betur alveg eins og urriðann og bleikjuafbrigðin.

[12:00]

Ég vil geta þess að Þingvallanefnd hefur einmitt lagt mjög mikla áherslu á í stefnumótun sinni til næstu 20 ára, sem verður kynnt 2. júní nk., að bæði rannsaka og vernda þessi afbrigði. Í þeirri áætlun kemur alveg skýrt fram að það er stefnt að því, helst í fyrstu framkvæmdaáætlun þeirrar stefnumótunar sem nær til fimm ára, að ná samkomulagi við Landsvirkjun um að stöðva helst alveg allar yfirborðssveiflur í vatninu --- vatnið hefur verið notað sem miðlunarlón fyrir Landsvirkjun --- og sömuleiðis að freista þess að fá samþykki Landsvirkjunar til þess að rjúfa gat í stífluna sem er fyrir Efra-Soginu sem áður var hið náttúrulega útfall Þingvallavatns niður í Sogið.

Þetta er í framhaldi af umræðum sem hér hafa margsinnis orðið á hinu háa Alþingi og þess vegna gleður það mig að hv. þingmenn í nefndinni skuli hafa tekið mið af þeim. Ég vísa til þess að núverandi hæstv. forseti Alþingis, Halldór Blöndal, var landbúnaðar- og samgönguráðherra í ríkisstjórninni 1991--1995. Þar fóru fram óformlegar umræður um nauðsynina á að ráðast í það að opna farveginn. Halldór Blöndal, hv. 2. þm. Norðaust., lýsti því þá yfir í ræðu hér á Alþingi að hann teldi að grípa ætti til þess ráðs til að tryggja urriða aftur farveg niður í Efra-Sogið. Þar var áður stærsti og merkilegasti urriðastofn vatnsins og sá stórvaxnasti sem nokkrar sögur fara af, hefur þó verið leitað gagna í öll mestu urriðavötn sem þekkjast í heiminum. Engum blöðum er um það að fletta að þetta er mjög sérstæður hluti af þeirri náttúrulegu arfleifð sem við höfum tekið okkur í fang og eigum að flytja helst í betra lagi inn í framtíðina.

Sömuleiðis finnst mér nauðsynlegt að fá þessi lög til að hægt sé að ráðast í annars konar vernd á þessu svæði. Þjóðgarðurinn hefur verið undir vernd Alþingis allt frá því að hann var stofnaður 1928. Það hafa auðvitað komið upp hnökrar á sambúð þingsins og þjóðgarðsins á langri sögu. Ég rifja það upp að fyrir nokkrum áratugum spunnust harðar deilur þegar forsn. og forseti Alþingis tóku ákvörðun um það upp á sitt eindæmi að úthluta sumarbústöðum í svokölluðu Gjábakkalandi. Ég hef lýst þeirri skoðun minni hér að það væri æskilegt að sumarbústaðir væru engir í þjóðgarðinum. Af þeim stafar tvenns konar mengun, bæði sjónmengun og sömuleiðis hlýst af þeim líka ákveðin lífræn mengun sem hefur vissa hættu í för með sér fyrir vatnið. Það er ekki bara augnayndi okkar og heimili fiska og smádýra, það er líka mikilvæg auðlind þegar kemur fram síðar um þessa öld. Þá er alveg ljóst að í vatnakerfi sem liggur ofan úr Langjökli og til sjávar munu Reykvíkingar sækja drjúgan part af neysluvatni sínu og nú þegar eru þeir auðvitað farnir að sækja vatn úr iðrunum undir Þingvallavatni þannig að það er byrjað að nýta þessar auðlindir.

Ég geri mér hins vegar grein fyrir því að það eru bústaðir við Þingvallavatn sem hafa öðlast ákveðinn þegnrétt, bústaðirnir sunnan Valhallar. Þó að lög kveði á um það að Þingvallanefnd hafi forkaupsrétt á þeim bústöðum tel ég að það sé of mikið í ráðist að eyða fé skattborgaranna til að kaupa þá upp. Hins vegar hef ég lýst þeirri skoðun minni og geri það hér aftur að þeir bústaðir sem Alþingi beinlínis heimilaði fyrir nokkrum áratugum að yrðu byggðir í Gjábakkalandi ættu að verða keyptir upp í framtíðinni og fjarlægðir.

Ég er líka þeirrar skoðunar að til þess að tengja þennan stað betur Alþingi og eftir atvikum því stjórnvaldi sem fer með stjórnsýslulegt úrskurðarvald í forsrn. sé sjálfsagt að þessar stofnanir eigi með einhverjum hætti heimilisfesti á Þingvöllum. Ég tel að Alþingi eigi að eiga sér bústað á Þingvöllum. Eins og menn vita hefur forsrn. haft samastað um langt skeið í Þingvallabænum.

Hlutir hafa skapast þannig í okkar landi alveg eins og í hinu alþjóðlega umhverfi að önnur sjónarmið eru uppi varðandi öryggi og vernd, ekki síst þeirra sem eru í forsvari fyrir samfélag okkar og kynnu hugsanlega einhvern tíma að verða með einhverjum hætti skotmark þeirra sem vilja koma málstað sínum á framfæri með mótmælum og öðru. Á sumum dögum þegar mest er umferð í þjóðgarðinum fara hundruð manna um Þingvallastað og ganga þar fram hjá. Ég tel ótækt til frambúðar að forsrh. landsins hafi þar sumarstað. Ég tel þess vegna að það eigi að vera sómi þingsins að sjá til þess að honum verði fundinn annar staður á Þingvöllum en mér finnst eftir sem áður að forsrh. eigi að hafa þar bústað þar sem hann getur tekið á móti erlendum fyrirmönnum og haft þar fundi með þeim ef svo ber undir.

Þá vil ég líka segja í framhaldi af því að ég tel sem sagt að forsrn. eigi ekki að hafa samastað í Þingvallabænum af þeim rökum sem ég hef hér rakið. Ég tel að það rými sem þar er fyrir hendi, þegar búið verður að gera þessar breytingar, væri eftir atvikum hægt að nota sem opinberan móttökustað líka fyrir þingið, þ.e. forseta þingsins og þess vegna sem eins konar sumardvalarstað fyrir forseta þings og þingmenn eftir atvikum. Sömuleiðis væri þar líka hægt að tryggja rætur staðarins við menningu Íslendinga með því að hafa einhvern hluta staðarins undir fræðimenn og listamenn sem vildu leita til Þingvalla í skjól og næði til að verða sér úti um listrænt innsæi og innspýtingu. Ég tel að við eigum í framtíðinni að festa tengslin milli menningar okkar og staðarins með þeim hætti.

Annar staður sem ég vil í þessari umræðu líka gera að umræðuefni vegna þess að hann tengist málinu er Valhöll. Deilur hafa staðið um Valhöll en það liggur alveg ljóst fyrir að það svæði sem hótelið stendur á er í eigu íslenska ríkisins. Ásigkomulag hússins er ekki til þess að hrópa húrra fyrir og það kostar mikla peninga að ráðast í gagngerar endurbætur á því. Mér finnst þess vegna vel koma til greina að í framtíðinni verði á þeim stað í stað núverandi Valhallar reist einhvers konar lítil miðstöð sem væri nægilega stór til þess að Alþingi gæti hugsanlega haldið þar fundi ef svo bæri undir af einhverjum sérstökum tilefnum, eða ráðstefnur, og félagasamtök gætu eftir atvikum líka haldið þar litlar ráðstefnur. Ég tel að starfsemi af því tagi hafi öðlast þegnrétt í þjóðgarðinum. Um þetta kunna aðrir að vera mér ósammála en þetta er mín skoðun í þessu máli.

Ég vil að lokum, herra forseti, drepa aðeins á það atriði sem ég gerði hér að umræðuefni við hv. þm. Bjarna Benediktsson í kjölfar þess að hann lauk framsögu sinni áðan. Ég hnýt óneitanlega um það að eftir að hið friðlýsta svæði hefur verið undir því sem í lögum segir ,,vernd Alþingis`` síðan 1928 og stjórn þess að öllu leyti skipuð af Alþingi séum við núna með tvennum hætti, með lögunum og brtt., að hnýta það fulltraustum böndum við forsrn. Það er hinn stjórnsýslulegi forsjáraðili. Sú skipan mála hefur reynst mjög vel, af forsrn. hefur verið mjög gott skjól fyrir Þingvallanefnd og þjóðgarðinn. Hæstv. forsrh. hefur þó sjálfur lýst því yfir hér við 1. umr. að hann telji að með engu móti eigi forsrn. að hlutast til um störf Þingvallanefndar eða hafa meiri áhrif á hana en ráðuneytið hefur gert hingað til. Ég fagnaði þeirri yfirlýsingu.

Nú hefur sú breyting orðið á hinu upphaflega frv., verði brtt. nefndarinnar samþykktar, að Þingvallanefnd stækkar úr þremur mönnum í sjö. Sömuleiðis er lagt til að forsrh. skipi aðalmann og varamann ... (Gripið fram í: Formann og varaformann.) Formann og varaformann. Mér finnst að þar sé um of verið að tengja forsrn. inn í þjóðgarðinn og stjórn hans. Ég tel að betra hefði verið að gera það með öðrum hætti. Ég varpaði hér fram, kannski án mikillar umhugsunar, í andsvari mínu við hv. þm. Bjarna Benediktsson hvort ekki hefði mátt hugsa sér að forseti Alþingis eða forsn. skipaði formann og varaformann. Síðan ég átti þessi orðaskipti við hv. þingmann hef ég hugsað þetta aðeins betur og sennilega er það úr takti við hefðir allar að forseti þingsins eða forsn. skipi með þeim hætti fólk til starfa.

Við hér á hinu háa Alþingi kjósum hins vegar á hverju ári fólk í nefndir og munum halda áfram að kjósa í Þingvallanefnd en ég velti fyrir mér hvort ekki hefði þá farið langbest á því og hvort það hefði þá ekki verið í takt við hið gamla lýðræði sem til varð á Þingvöllum þegar Alþingi var háð við Öxará að Alþingi sjálft mundi kjósa formann og varaformann. (SJS: Á Þingvöllum kannski?) Þess vegna á Þingvöllum. Ef hv. þm. Steingrímur J. Sigfússon hefði komið hér fyrr inn í ræðu mína hefði hann einmitt hlustað á mig ræða þann möguleika að Alþingi héldi fundi á Þingvöllum og þá væri vel hægt einmitt að kjósa þessa ágætu nefnd þar. Síðan hefðu menn getað, eins og þingmenn til forna, leitað á vit eftirmanna ölkofra og gert sér dagamun af því tilefni.

Ég spyr þess vegna hv. þm. Bjarna Benediktsson hvort honum finnist ekki koma til greina að þessum sterku tengslum þingsins og hins friðlýsta svæðis verði haldið með því að formaður og varaformaður verði ekki skipaðir með þessum hætti heldur einfaldlega kosnir af hinu háa Alþingi. Þá væri algjörlega tryggt að þeir sem hafa meiri hluta á Alþingi ráði formanni og varaformanni. Ég hefði talið þetta æskilegt. Ég varð ekki áskynja um þessa brtt. fyrr en hún var komin í gegnum allshn. og búið var að samþykkja hana, annars hefði ég reynt að hreyfa þessu máli fyrr. Ég vil hins vegar ekki verða til þess að rjúfa þá prýðilegu sátt sem hefur náðst um þetta mál með því að fara að leggjast í einhvern víking í kringum brtt. sem ég mundi flytja. Ég varpa því hins vegar til formanns nefndarinnar að hann skoði málið aðeins nánar þegar þessari umræðu sleppir og athugi hvort hann telji föng eða ástæðu til að verða við þessum tilmælum með einhverjum hætti.