Þjóðgarðurinn á Þingvöllum

Fimmtudaginn 27. maí 2004, kl. 12:41:48 (9169)

2004-05-27 12:41:48# 130. lþ. 128.24 fundur 868. mál: #A þjóðgarðurinn á Þingvöllum# frv. 47/2004, Frsm. BjarnB (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 128. fundur, 130. lþ.

[12:41]

Frsm. allshn. (Bjarni Benediktsson) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég hlýddi með athygli á ræðu hv. þm. Marðar Árnasonar, einkum þetta sem laut að brtt. allshn. um að fjölga í Þingvallanefnd frá því sem frv. gerði ráð fyrir.

Það á ekki að vera hægt að deila um það að þessi breyting er til þess fallin að auka möguleika allra þingflokka á að koma fulltrúa í nefndina, ég held að það hljóti að vera augljóst. Sé hv. þm. ósammála því meginmarkmiði fannst mér það kannski ekki koma nægilega skýrt fram. Hann gerði að aðalumtalsefni sínu þá staðreynd að sú staða kynni að koma hér upp að stjórnarflokkarnir ættu færri fulltrúa en stjórnarandstaðan í þessari nefnd. Það er bara meginreglan samkvæmt þeirri tillögu sem hér er kynnt að fram fari hlutfallskosning nema um annað verði samið. Það skal ekkert útilokað að samið verði um einhvers konar listakosningu sem mundi þá leiða til þess að stjórnarmeirihlutinn fengi meiri hluta í nefndinni.

Ég tel vangaveltur um þetta efni sem byggjast á úrslitum síðustu kosninga vera kannski dálítið óheppilegar. Hér erum við auðvitað að setja lög sem eiga að gilda til lengri tíma og þar af leiðandi hef ég í þessu starfi ekkert sérstaklega verið að velta því fyrir mér hvernig nefndin yrði skipuð miðað við það hvernig atkvæði féllu í síðustu alþingiskosningum. Aðalatriðið er að með því að fjölga í nefndinni eru meiri líkur til þess að þau stjórnmálaöfl sem hér eru inni á þingi geti eignast fulltrúa í nefndinni og þar með er verið að styrkja þau tengsl sem m.a. hv. þm. Össur Skarphéðinsson var að kalla eftir að yrðu styrkt, þ.e. á milli Alþingis og Þingvalla.