Þjóðgarðurinn á Þingvöllum

Fimmtudaginn 27. maí 2004, kl. 12:45:54 (9171)

2004-05-27 12:45:54# 130. lþ. 128.24 fundur 868. mál: #A þjóðgarðurinn á Þingvöllum# frv. 47/2004, Frsm. BjarnB (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 128. fundur, 130. lþ.

[12:45]

Frsm. allshn. (Bjarni Benediktsson) (andsvar):

Virðulegi forseti. Hér var spurt um tvö atriði. Fyrra atriðið er það hvort ég sé tilbúinn til að breyta fyrirkomulaginu með kosningu á formanni og varaformanni til að skapa meiri sátt um málið.

Þá vil ég bara vekja athygli á því að það var algjör sátt um málið í þeirri mynd sem ég hef nú kynnt það, þ.e. um þær brtt. sem ég hef mælt fyrir í dag. Þar af leiðandi hef ég ekki orðið var við þessa miklu ósátt sem hv. þm. Mörður Árnason hefur nú gefið í skyn að ríki um þetta fyrirkomulag með formanns- og varaformannsskipunina.

Ég vísa til þeirra raka sem ég hef hér fyrr í dag vitnað til og koma fram í nál. um þessa skipan, þ.e. þau tengsl sem eru við forsrn. í ljósi þess að það ráðuneyti fer með yfirstjórn mála er varða þennan þjóðgarð.

Um hitt atriðið á það jafnframt að liggja alveg ljóst fyrir að hér er gerð tillaga um hlutfallskosningu þannig að hlutföll flokkanna á þinginu ættu að endurspeglast í nefndinni. Mér finnst þetta í sjálfu sér ekkert vera óskýrt atriði. Megináherslan varðandi þessa breytingu er á það atriði að hér er verið að opna fyrir þann möguleika að allir þingflokkarnir geti eignast fulltrúa í Þingvallanefnd.