Þjóðgarðurinn á Þingvöllum

Fimmtudaginn 27. maí 2004, kl. 12:47:29 (9172)

2004-05-27 12:47:29# 130. lþ. 128.24 fundur 868. mál: #A þjóðgarðurinn á Þingvöllum# frv. 47/2004, MÁ (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 128. fundur, 130. lþ.

[12:47]

Mörður Árnason (andsvar):

Forseti. Nú sit ég ekki í allshn. sem kunnugt er, eða mér er það a.m.k. kunnugt og væntanlega hv. formanni nefndarinnar, og ég veit eiginlega ekki hvar ég á að koma á framfæri athugasemdum mínum annars staðar en héðan úr stólnum. Ég fylgdist ekki með þessari tillögugerð og veit ekkert um hana. Ég var hins vegar trúr allshn. sem umhverfisnefndarmaður og stóð að þeirri umsögn sem þar var gerð.

Það sem ég er að tala um er að í þessari umræðu hafa komið fram frá tveimur þingmönnum athugasemdir við þessa skipan. Ég veit að ekki eru allir hér í salnum en þó hafa tveir af þeim sem taka þátt í umræðunni verið með athugasemdir. Þeir hafa margtekið fram báðir að þær séu ekki persónulegar, þær séu ekki vegna erfiðra samskipta stjórnar og stjórnarandstöðu upp á síðkastið heldur séu þær almennar og varði það málefni sem um er rætt, séu til þess gerðar að tryggja að tengsl Þingvalla og þingsins séu sem mest, ráðuneytið sé á réttum stað og yfirmaður þess, hæstv. forsrh., sem framkvæmdarvald og umsjónarmaður stjórnsýslunnar sem í þessu felst.

Síðan hef ég bent sérstaklega á það frá sjónarmiði umhvn. að öll önnur skipan en sú sérstaka undantekning vegna eðlis máls, að þingið sjái um þetta, sé óeðlileg. Ef menn fara út fyrir það sé það annað ráðuneyti sem hafi þessi mál á verksviði sínu, þjóðgarðsmálin öll, og það breyti málinu töluvert ef hæstv. forsrh. er farinn að ráða svo miklu að hann geti skipað formann og varaformann nefndarinnar á eigin vegum. Ég skil ekki af hverju ég fæ ekki almennileg svör við þessu.

Ég held, forseti, að þá verði að koma til greina að ég taki hér aðra ræðu til þess að ræða þetta við hv. þm. Bjarna Benediktsson. Ég tala hér tiltölulega hlýtt til hans og um þessi mál og ætlast til þess að það sé gert á móti.