Þjóðgarðurinn á Þingvöllum

Fimmtudaginn 27. maí 2004, kl. 12:49:51 (9173)

2004-05-27 12:49:51# 130. lþ. 128.24 fundur 868. mál: #A þjóðgarðurinn á Þingvöllum# frv. 47/2004, GAK
[prenta uppsett í dálka] 128. fundur, 130. lþ.

[12:49]

Guðjón A. Kristjánsson:

Hæstv. forseti. Ég mæli fyrir brtt. sem sá sem hér stendur flytur ásamt hv. þm. Steingrími J. Sigfússyni. Það er brtt. við brtt. allshn. og lýtur að því er varðar hina svokölluðu Þingvallanefnd og hvenær hún skuli kosin samkvæmt annars vegar brtt. meiri hlutans og hins vegar brtt. okkar.

Tillagan birtist á þskj. 1772, brtt. við brtt. á þskj. 1656, um þjóðgarðinn á Þingvöllum, og er svohljóðandi, með leyfi forseta:

,,1. Við 2. tölul. bætist nýr málsliður, svohljóðandi: Í fyrsta sinn skal kosið í nefndina eftir þessum lögum í upphafi þings haustið 2005.`` --- Það er að segja nokkurn veginn á miðju þessu kjörtímabili, eftir rúmt ár héðan frá að telja.

Í samræmi við þessa tillögu leggjum við til að 4. tölul. í brtt. meiri hlutans falli brott, sá sem kveður á um að þrátt fyrir hina nýju skipan um sjö menn í Þingvallanefnd og sjö til vara skuli núverandi skipan Þingvallanefndar halda gildi út þetta kjörtímabil og að næst verði kosið í Þingvallanefnd eftir næstu alþingiskosningar. Brtt. gengur sem sagt út á það að í hina nýju Þingvallanefnd, samkvæmt tillögum allshn., verði kosið á miðju þessu kjörtímabili, í upphafi þings 2005. Efni hennar er auðvitað auðskiljanlegt, þetta er ekki flókin breyting. Við erum einfaldlega á þeirri skoðun að það sé eðlilegt að fyrr verði kosið í Þingvallanefnd en meiri hlutinn hefur lagt til.

Það er líka rétt að vekja athygli á því, hæstv. forseti, svona til að halda öllu til haga, að ég og hv. þm. Steingrímur J. Sigfússon skrifuðum bréf til forsrh. með ábendingum um það hvort ekki væri hægt að taka tillit til þeirra sjónarmiða að allir þingflokkar á Alþingi ættu fulltrúa í Þingvallanefnd þar sem hún væri þess eðlis að varla yrði um störf hennar innbyrðis mjög mikill ágreiningur. Allir þingmenn hafa miklar tilfinningar til þessa staðar og vilja veg hans og virðingu sem mesta. Þess vegna væri eðlilegt að líta til þess að þingflokkar ættu fulltrúa í nefndinni. Við lögðum þar af leiðandi til að í nefndina yrðu skipaðir fimm menn.

Á það sjónarmið var ekki fallist en þessi tillaga kom hér fram, brtt. um sjö manna nefnd. Út af fyrir sig, úr því að sú varð niðurstaðan, ætlum við ekki að gera athugasemd við það en leggjum til að í nefndina verði þá kosið á miðju þessu kjörtímabili, í upphafi þings haustið 2005. Við teljum sem sagt eðlilegt að sjónarmið allra þingflokka séu inni í þessari nefnd og teljum ekki að í henni séu þau ágreiningsmál uppi að þar komi eða ætti að öllu jöfnu að koma til atkvæðagreiðslu sem byggðist á einhverju meirihlutavaldi. Ég kom með þá ábendingu í hv. allshn. að ef menn hefðu áhyggjur af því að ríkisstjórnarmeirihlutinn hefði ekki meirihlutavald í slíkri nefnd sem skipuð væri fimm aðilum mætti auðvitað taka upp það fyrirkomulag að formaður nefndarinnar hefði tvö atkvæði og ef atkvæði féllu jafnt réði atkvæði formanns. Þannig hefði verið hægt að mæta því ef menn eru hræddir um að þetta verði mikil átakanefnd við það að fjölga í henni. Ég hallast ekki að því og tel að þessi nefnd ætti eftir sem áður að geta starfað í mikilli sátt þó að í henni verði fulltrúar allra þingflokka.

Ég hef hér með gert grein fyrir þessari brtt., hæstv. forseti, og læt máli mínu lokið.