Fæðingar- og foreldraorlof og tryggingagjald

Fimmtudaginn 27. maí 2004, kl. 13:39:46 (9176)

2004-05-27 13:39:46# 130. lþ. 128.1 fundur 855. mál: #A fæðingar- og foreldraorlof og tryggingagjald# (hámarksgreiðslur, fjármögnun o.fl.) frv. 90/2004, ÖJ (um atkvæðagreiðslu)
[prenta uppsett í dálka] 128. fundur, 130. lþ.

[13:39]

Ögmundur Jónasson (um atkvæðagreiðslu):

Hæstv. forseti. Vinstri hreyfingin -- grænt framboð fagnar því að eitt af meginmarkmiðum laga um fæðingarorlof hefur náðst en frá árinu 2001 hefur hlutfall feðra sem taka fæðingarorlof aukist úr 30% í 80%.

Þær lagabreytingar sem liggja fyrir þinginu nú miða að því að styrkja undirstöður og treysta rekstrarforsendur Fæðingarorlofssjóðs. Sumt teljum við vera til góðs en leggjum fram ákveðnar brtt. sem skipta sköpum um stuðning okkar við þetta frv. Ræður atkvæðagreiðslan því núna hvort við styðjum frv.

Það er þverpólitískur ágreiningur um þakið, hvort yfirleitt eigi að setja þak á greiðslur úr Fæðingarorlofssjóði en við erum sameinuð um það að verði slíkt þak sett, sem ég styð, eigi þak og gólf viðmiðunarfjárhæða að breytast á hverjum tíma í samræmi við launavísitölu.

Þá teljum við að tekjur viðmiðunartímabils tekna vegna greiðslna í fæðingarorlofi taki breytingum í samræmi við breytingar á launavísitölu á tímabilinu.

Í þriðja lagi á að vera heimilt að taka tillit til tekna á fæðingarári barns ef einstaklingur í fæðingarorlofi hefur verið tekjulaus á viðmiðunartímabilinu, t.d. vegna atvinnuleysis. Orlof greiðist að loknu fæðingarorlofstímabili en við höfum flutt um það frv. að þetta verði gert og sú tillaga er nú felld inn í þessar brtt.

Enn fremur að umönnunar- og lífeyrisgreiðslur verði samrýmanlegar fæðingarorlofsgreiðslum.