2004-05-27 14:11:12# 130. lþ. 128.4 fundur 652. mál: #A Stofnun Vilhjálms Stefánssonar og samvinnunefnd um málefni norðurslóða# (stjórn) frv. 102/2004, SJS (grein fyrir atkvæði)
[prenta uppsett í dálka] 128. fundur, 130. lþ.

[14:11]

Steingrímur J. Sigfússon:

Frú forseti. Ég verð bara að segja alveg eins og er að ég botna ekkert í þessu máli. Ég hélt að almenn ánægja væri ríkjandi með uppbyggingu Stofnunar Vilhjálms Stefánssonar í tengslum við Háskólann á Akureyri og hvernig þar hefur til tekist, að þar hefur byggst upp myndarleg stöð sem hefur haft sívaxandi hlutverki að gegna við að tengja saman ýmiss konar málefni sem tengjast norðurslóðum, rannsóknir, fræðslu, samstarf við önnur ríki, samstarf við erlenda háskóla og þar fram eftir götunum. Það getur ekkert orðið nema til styrktar þeirri stofnun og þessum málaflokki að að því komi fleiri en færri, þar á meðal stjórn áhugasamra aðila til að styðja við stofnunina og vera henni bakland og bakhjarl. Ég er algjörlega gáttaður á því hvað menn ætla að vinna með því að slátra þessari stjórn. Það er einhver furðuleg kerfismennska, tæknikratismi af versta tagi, ef ekki eitthvað annað og verra liggur á bak við.

Ég hvet hæstv. ráðherra til að láta þetta frv. hverfa héðan af yfirborði jarðar eftir 2. umr.