Stjórn fiskveiða

Fimmtudaginn 27. maí 2004, kl. 14:24:57 (9193)

2004-05-27 14:24:57# 130. lþ. 128.8 fundur 996. mál: #A stjórn fiskveiða# (sóknardagar báta, krókaaflamark o.fl.) frv. 74/2004, JBjarn (um atkvæðagreiðslu)
[prenta uppsett í dálka] 128. fundur, 130. lþ.

[14:24]

Jón Bjarnason (um atkvæðagreiðslu):

Frú forseti. Hér er verið að greiða atkvæði um frumvarp, eiginlega ekki-frumvarp. Þegar það var lagt fram við 1. umr. hljóðaði þetta frv. um stjórn fiskveiða upp á það hvernig ætti að festa dagabátana í sessi, festa sóknarmarkið í sessi og finna því grundvöll. Að vísu voru það sýndartillögur en það var hið yfirlýsta markmið þess frv.

Í allan vetur höfum við verið að fjalla um hvernig mætti styrkja stöðu sóknardagabátanna, styrkja stöðu þessa flota, styrkja byggðirnar sem hafa reitt sig á afla og sókn þessa flota. Þetta hefur verið umræðuefnið í vetur og við höfum verið að vinna að því.

Svo allt í einu er hent hingað inn gjörsamlega nýju frv. beint úr sjútvrn. Þegar við í hv. sjútvn. héldum að við værum að fjalla um málið komu tillögur úr ráðuneytinu sem hljóðuðu upp á það að slá ætti sóknardagakerfið gjörsamlega af.

Ég mótmæli svona vinnubrögðum á Alþingi. Einnig mótmæli ég þeirri stefnu sem hér er verið að taka upp, að slá algjörlega af sóknardagakerfið og setja allt í kvóta. Ég skil hins vegar að þeir sem hafa viljað fá allan fisk á Íslandsmiðum í framseljanlegan kvóta gleðjist.

Þetta er virkilegt ekki-frumvarp og hörmulegt sem við erum að taka hér til afgreiðslu.