Frestun á fundum Alþingis

Fimmtudaginn 27. maí 2004, kl. 15:27:52 (9208)

2004-05-27 15:27:52# 130. lþ. 129.1 fundur 1005. mál: #A frestun á fundum Alþingis# þál. 27/130, forsrh.
[prenta uppsett í dálka] 129. fundur, 130. lþ.

[15:27]

Forsætisráðherra (Davíð Oddsson):

Virðulegi forseti. Ályktun um heimild til að fresta fundum Alþingis hefur ekkert með þessa umræðu að gera. Það ákvæði sem menn eru að deila um í 26. gr. stjórnarskrárinnar hefur verið þar í 60 ár. Þingið hefur allan þann tíma haft tækifæri til þess að setja lög um meðferð þess ef til þess drægi að ákvæðið yrði gert virkt með einhverjum hætti. Það hefur enginn þingmaður gert og ekki einu sinni þeir sem hér hafa lengst setið, eins og sá sem síðast talaði, ekki gert nokkurn reka að slíku nokkru sinni svo ég muni til. Getur verið að hann hafi einhvern tíma gert það en ég minnist þess ekki.

Ekkert hefur komið fram sem bendir til þess með ótvíræðum hætti að það eigi að horfa á eitt einstakt mál sem frá þinginu kemur öðruvísi en önnur. Þingið hefur afgreitt fjölda laga, ég giska á 6 þús. lög, síðan þetta ákvæði kom fram og það er óþarfi að vera að gera eitthvert sérstakt mál úr þessu máli án þess að forsetinn hafi nokkuð gefið til kynna við nokkurn mann, svo ég viti til, að ástæða sé til að vera með einhverjar getgátur. Mér finnst afskaplega óviðfelldið að menn séu í salnum með slíkar getgátur af þessu tilefni, afskaplega óviðfelldið. Það er alveg klárt að ráðherra ber, hver sem hann er, að leggja lög fyrir forseta ekki seinna en 14 dögum eftir samþykkt þeirra. Hæstv. sjútvrh. var að leggja lög fyrir forseta sem voru samþykkt fyrir 7--8 dögum. Halda menn að það sé eitthvert samsæri hjá sjútvrh. að hafa ekki gert það fyrr? Við verðum að gera ráð fyrir því að öll lög, hverjir sem hafa áhuga fyrir þeim, sem frá þinginu koma fái sömu hlutlægu meðferðina hjá forseta Íslands. Ég geri ráð fyrir því. Mér finnst ekki viðfelldið að vera að draga einhverjar ályktanir með öðrum hætti í þessum sal. Málin hljóta að eiga sér stað bara með venjulegum hefðbundnum hætti eins og gerst hefur hér jafnan í 60 ár. Ekkert tilefni er til annars.