Frestun á fundum Alþingis

Fimmtudaginn 27. maí 2004, kl. 15:46:47 (9215)

2004-05-27 15:46:47# 130. lþ. 129.1 fundur 1005. mál: #A frestun á fundum Alþingis# þál. 27/130, ÖS (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 129. fundur, 130. lþ.

[15:46]

Össur Skarphéðinsson (andsvar):

Frú forseti. Ég get upplýst hæstv. forsrh. um það að ég hef enga hugmynd um ætlanir forsetans. Ég tel hins vegar að forseti lýðveldisins sé manna best fallinn til þess að komast að skynsamlegri niðurstöðu í þessu máli. Hins vegar mætti ráða af máli hæstv. forsrh. hér síðustu dægur að hann geri sér eitthvað í hugarlund um það hver niðurstaðan verði. Ég skal ekkert um það segja.

Hitt er alveg ljóst að þær getgátur sem hér hafa verið uppi um þetta mál hafa auðvitað fyrst og fremst verið í röðum stjórnarliða, og ekki bara einstakra þingmanna stjórnarinnar heldur fyrst og fremst á meðal ráðherra hæstv. ríkisstjórnar. Það er hugsanlegt, ég skal ekkert úr því draga, að vegna þess að hæstv. forsrh. hefur tjáð sig svo víða um þetta mál á síðustu dögum og vikum hafi ég hér ruglað saman einhverjum viðtölum við hæstv. forsrh. og umræddri grein. Ég get þó hughreyst hæstv. ráðherra með því að allt það sem hann skrifar um þetta mál og allt það sem hann les um þetta mál les ég.

Það sem mér finnst mestu skipta í þessu máli er það að hæstv. forsrh. hreinsi loftið og segi við þá þingmenn sem hér sitja á hinu háa Alþingi, lýðræðislega kjörna fulltrúa þjóðarinnar, hvenær hann ætli að klára sinn hlut í þessu máli. Mér finnst það ekki ofrausn að biðja oddvita framkvæmdarvaldsins um það. Hann hefur það hlutverk að koma lögunum til forsetans. Þetta eru lög sem voru samþykkt hér á hinu háa Alþingi. Þó að ég hafi greitt atkvæði gegn þessum lögum er ég partur af þinginu og hæstv. forsrh. á eftir að ljúka hluta af sínu starfi fyrir þingið. Ég er hluti af því.