Frestun á fundum Alþingis

Fimmtudaginn 27. maí 2004, kl. 15:50:29 (9218)

2004-05-27 15:50:29# 130. lþ. 129.1 fundur 1005. mál: #A frestun á fundum Alþingis# þál. 27/130, SJS
[prenta uppsett í dálka] 129. fundur, 130. lþ.

[15:50]

Steingrímur J. Sigfússon:

Frú forseti. Ég tel að mjög alvarleg staða sé hér uppi í umræðum um þessa þingfrestunartillögu, að hæstv. forsrh. skuli daufheyrast algerlega við því að veita svör við einföldum spurningum. Hann færir engin haldbær rök fram fyrir því að honum sé eitthvað að vanbúnaði að svara.

Þegar þetta er sett í samhengi við ummæli hæstv. forsrh. í fjölmiðlum um sitt eigið hlutverk til að meta það, skoða eða kanna hvað muni gerast ef forseti synji um staðfestingu laga er náttúrlega von að mönnum verði hér órótt. Ég hlýt að spyrja hæstv. forsrh. og endurtaka spurningu mína: Hvenær verða lögin send? Hvað er svona erfitt við að svara því? Við vitum öll að þau eru tilbúin niðri í Stjórnarráði, búin að vera þar í einn og hálfan, tvo sólarhringa. Þau bíða þar, þau eru ekki send, svo einfalt er það mál. Hvers vegna? Er eitthvað að vanbúnaði? Eru einhverjir erfiðleikar á því?

Það þarf ekki að þýða á nokkurn hátt að verið sé að fara fram á einhverja óeðlilega eða óvenjulega málsmeðferð, eingöngu þetta eitt að þau séu bara ósköp einfaldlega send þannig að þessari óvissu linni.

Í öðru lagi ítreka ég og ekki af minni þunga aðra spurningu mína til hæstv. forsrh., og henni finnst mér að hann verði að svara Alþingi áður en við greiðum atkvæði um þessa þingfrestunartillögu: Er ekki alveg öruggt að þing verður kvatt saman að nýju án tafar ef dregur til óvæntra tíðinda í þessum málum? Í sjálfu sér gerum við mikið með svar við þeirri spurningu þó að hinni sé ekki svarað því að þá vitum við þó að ef hið óvænta, skulum við segja, gerist hefur það ósköp einfaldlega þau áhrif skyldi þingið vera farið heim að það verður tafarlaust kvatt saman til fundar að nýju. Það er algerlega vandræðalaust, það eru a.m.k. ekki stórkostleg vandræði eins og menn hafa látið að liggja að gætu skapast í þessum efnum að öðru leyti, það eru ekki mikil og illleysanleg vandamál, eins og segir í texta, vegna þess að þingið situr með umboð og er að störfum að öllu leyti nema því að fundum þess hefur verið frestað.

Spurningin er mjög gild vegna þess að þingfundafrestun með þáltill. vekur bráðabirgðalagavald. Það eru ótal hefðir fyrir því að handhafar þess verði að gefa löggjafanum skýr svör. Skyldi verða einhver hugsanlegur möguleiki að til þess yrði gripið? Auðvitað gef ég mér að það komi ekki til greina við þessar aðstæður en ég vil samt vita vissu mína og ég krefst þess að hæstv. forsrh. svari þessu. Hæstv. ráðherra hlýtur að sjá að við þingmenn eigum rétt á svörum við þessari spurningu.

Varðandi málskotsrétt forsetans og það sem hér hefur verið vitnað til nefna menn m.a. til sögunnar viðtal við Bjarna heitinn Benediktsson, fyrrv. forsrh. Það sem ég las fyrst og fremst út úr því viðtali sem birtist í Morgunblaðinu fyrir tveim dögum eða svo var ákaflega fróðleg útskýring og góð frá fyrstu hendi á því hvers vegna búið var um nefnt ákvæði í stjórnarskránni með þeim hætti sem raun bar vitni, hvers vegna menn vildu ekki ganga svo langt að hafa þar stöðvunarvald, eins og verið hafði hjá kónginum, heldur eingöngu málskotsrétt. Það var sett í samhengi við m.a. andrúmsloftið á dögum utanþingsstjórnarinnar hér á árunum 1942--1944 og var allt saman fróðlegt. Út úr því las ég samt ekki að eitthvað annað hefði gengið mönnum til en stendur í stjórnarskránni, stendur í greinargerð með frv. frá sínum tíma, fram kom í ræðum þingmanna og tengt er við þjóðkjör forsetans og fleira í þeim dúr.

Ég ætla ekki að reyna að setja mig í spor fræðimanna á þessu sviði en ég er sammála hæstv. forsrh. um það að ég tel að t.d. Sigurður Líndal og Eiríkur Tómasson hafi fært fram ákaflega sannfærandi rök fyrir því að þessi málskotsréttur sé þarna til staðar og virkur, og sérstaklega Sigurður Líndal í seinni svargrein sinni við greinum Þórs Vilhjálmssonar.

Eftir stendur auðvitað það að enginn aðili í landinu er bærari til þess að taka þá af skarið um hvað gera skuli en Alþingi. Í mínum huga er ekki neinn minnsti vafi á að hinn lýðræðislegi þankagangur er þá sá að láta þjóðina og lýðræðið njóta vafans ef menn telja að hann sé einhver uppi. Það er auðvitað alveg sérstaklega vegna þess, eins og ég hef áður nefnt, að stjórnarskráin geymir ekki önnur úrræði til að framkalla þjóðaratkvæðagreiðslu um einstök málefni sem ekki tengjast stjórnskipun landsins. Hafi einhver misskilningur verið í orðaskiptum okkar hæstv. forsrh. í morgun eyðist hann vonandi núna. Það sem ég var að vitna til með málskotsréttarákvæði 26. gr. stjórnarskrárinnar var að það er hið eina sinnar tegundar þar sem farvegur er fyrir það að skjóta til þjóðarinnar einstökum málum af þessu tagi ef þau varða ekki það sem stjórnarskráin að öðru leyti geymir að skuli fara til atkvæða á þann óbeina hátt sem stjórnarskrárbreytingar gera með okkar gallaða fyrirkomulagi, að þær eru í tengslum við almennar kosningar til Alþingis. Það þýðir að sjálf stjórnarskrárbreytingin, kjördæmabreytingin eða hvað það nú er, fær ekki sjálfstæða kosningu á sjálfstæðum atkvæðaseðli.

Þó að auðvitað hafi farið hér fram þjóðaratkvæðagreiðslur, af því að menn hafa orðið sammála um að svoleiðis skyldi það vera, eru hér ekki hefðir eða ákvæði sem gera t.d. kjósendum kleift að framkalla þær með tilteknum fjölda áskorana eða undirskrifta.

Ég tel að það verði að fara að botna þetta mál. Það liggur við að það sé orðið að sjálfstæðri röksemd í þessari umræðu að komin er upp alveg ný staða þegar það er vefengt að málskotsrétturinn sé til staðar. Það er óþolandi að hafa málið þannig og hafa það endalaust afvelta. Það verður að botna það. Hæstv. forsrh. hafði uppi og hefur haft uppi áform um að skipa stjórnarskrárnefnd, ég hef stutt þau áform og þeim hefur almennt verið vel tekið. Þá hafa verið nefndir til sögunnar í svari við fyrirspurn einmitt fyrstu kaflar stjórnarskrárinnar sem fjalla um sjálfa stjórnskipun ríkisins. Auðvitað er löngu tímabært að fara í þetta mál og fá í það botn. Það er ekki hægt að hafa þetta svona, að á nokkurra ára eða áratuga fresti gjósi upp umræðan um að beita þessu ákvæði og þá segja menn: Já, en það vantar lögin og menn vita ekkert hvernig á að fara að þessu ef þetta verður gert og það eru voðaleg vandræði o.s.frv. Þetta er ómögulegt.

Kannski fer forsetinn sem væntanlega fylgist með þessum umræðum að horfa á þetta sem sjálfstæðan efnisþátt í málinu.

Ég vil spyrja formann Framsfl. sem var hér fyrir augnabliki síðan og er vonandi hér áfram í salnum: Hvað segir formaður hins stjórnarflokksins um þessa stöðu? Finnst formanni Framsfl. það eðlilegt að --- frú forseti, er hægt að gera hæstv. utanrrh. viðvart? Hann var hér fyrir andartaki síðan. Mér finnst eðlilegt að formaður Framsfl. komi hér líka og svari til um þessi mál fyrir hönd ríkisstjórnarinnar.

(Forseti (SP): Forseti vill upplýsa það að hæstv. utanrrh. er ekki í húsinu.)

Hann hefur haft hratt á hæli, hæstv. utanrrh., að forða sér. Það er mjög miður, frú forseti, ég held að það væri allt í lagi að gera hæstv. utanrrh. aðvart um það að menn sakni hans mjög. Mér finnst að hæstv. utanrrh. eigi ekkert síður að svara fyrir um það hvernig ríkisstjórnin heldur á þessu máli. Það skyldi þó ekki vera að þeir hafi samið um þingrofsréttinn, hæstv. forsrh. og hæstv. utanrrh., í tengslum við myndun ríkisstjórnar sinnar þannig að þeir þurfi stundum að ráðgast um hin stærstu mál?

Hvernig tekur hæstv. utanrrh. því ef það er í raun og veru í huga hæstv. forsrh. að drífa þingið heim, sturta því heim áður en málið fer til Bessastaða, hvort sem því verður nú róið yfir Skerjafjörð eða það fer landleiðina og á þetta reynir? Það þarf ekki að tala neina sérstaka tæpitungu um þetta, frú forseti, þetta er opinber umræða, hefur geisað í fjölmiðlum og verið í ræðum manna hér. Engir hafa verið duglegri við að halda henni uppi en einmitt forkólfar Sjálfstfl. Það þýðir ekki fyrir þá að ætla að eigna öðrum upphafið að umræðum um þetta eða það að halda þessari umræðu vakandi þegar þeir hafa linnulaust í ræðum sínum og viðtölum við fjölmiðla haldið þessu við.

Það hefur hins vegar lítið heyrst frá Framsfl. Ég veit ekki hvort hér er einhver annar sem treystir sér til að svara fyrir hann. Hann er nú stundum frekar þunnskipaður og liðfár hér í salnum, Framsfl., og sennilega nú eins og endranær því að ég sé engan einasta mann hér sem ... (Gripið fram í: Kristinn H.) Nú, Kristinn H. Gunnarsson er hér. Að vísu gleymir formaður flokksins stundum að telja hann með en við skulum taka það gilt. Kannski hv. þm. Kristinn H. Gunnarsson hafi fullt umboð formanns síns, Halldórs Ásgrímssonar, til að svara fyrir þetta mál. Ekki var það nú efnislega hér á dögunum en um málsmeðferðina hefði verið ástæða til að spyrja t.d. hæstv. heilbrrh., áhrifamann í Framsfl.: Styður Framsfl. það að svona sé staðið að verki, að þessi skollaleikur sé leikinn, að beðið sé með að senda lögin til Bessastaða þangað til þing hefur lokið störfum?

Ég endurtek að lokum þá kröfu mína að við fáum a.m.k. ótvíræð svör við spurningunni: Getur Alþingi ekki lokið störfum í öruggri vissu þess að dragi til óvæntra tíðinda verði það fyrsta verk hæstv. forsrh. að kalla það saman að nýju?