Frestun á fundum Alþingis

Fimmtudaginn 27. maí 2004, kl. 16:01:56 (9219)

2004-05-27 16:01:56# 130. lþ. 129.1 fundur 1005. mál: #A frestun á fundum Alþingis# þál. 27/130, forsrh. (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 129. fundur, 130. lþ.

[16:01]

Forsætisráðherra (Davíð Oddsson) (andsvar):

Virðulegi forseti. Hv. þm. nefndi að það væri auðvitað þingsins að taka af skarið. Þingið hefur tekið af skarið í þessu máli sem nú er dregið upp aftur hér við frestunartillögu viku eftir að það mál var rætt. Þingið tók af skarið og afgreiddi málið með sínum lögformlega meiri hluta. Þingið hefur tekið afstöðu og tekið af skarið í því máli.

Ef maður skoðar 60 ára sögu lýðveldisins segi ég að þó að stundarhávaði hafi verið búinn til um þetta mál er það ekki mál sem varðar þjóðina jafnmiklu og mörg önnur stórmál sem hér hafa verið afgreidd af þinginu, oft eftir harðar deilur og mikil átök bæði innan þings og utan. Auðvitað hafa þeir fjölmiðlar sem í hlut hafa átt gert mikinn hávaða. Sá hávaði endurspeglast ekki í þjóðfélaginu að mínu mati. Málið er ekki af neinni þeirri stærð að það sé boðlegt að vera með einhverjar getgátur gagnvart forseta Íslands í þeim sökum fyrst menn hafa ekkert frá honum sjálfum um það.

Ég mun ekki taka þátt í neinum getgátum, byggi hvorki svör mín né annað á slíku. Það eru ekki neinar forsendur fyrir þeim að mínu viti, engar forsendur varðandi stærð þess máls ef við tökum önnur mál sem hafa verið margfalt stærri og þýðingarmeiri fyrir afkomu og heill þjóðarinnar í bráð og lengd.