Frestun á fundum Alþingis

Fimmtudaginn 27. maí 2004, kl. 16:06:04 (9222)

2004-05-27 16:06:04# 130. lþ. 129.1 fundur 1005. mál: #A frestun á fundum Alþingis# þál. 27/130, SJS (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 129. fundur, 130. lþ.

[16:06]

Steingrímur J. Sigfússon (andsvar):

Já, frú forseti, það var sem sagt algerlega án nokkurra tengsla við núverandi stöðu Ólafs Ragnars Grímssonar. Það var þá hrein tilviljun að hæstv. forsrh. rakst á þessi snjöllu ummæli í ræðusafninu og ákvað að gera þau að sínum, fann engan betri leiðtoga lífs síns og rökvissari mann en Ólaf Ragnar Grímsson til að tala fyrir sína hönd (Forsrh.: Ég hefði getað ...) þegar hann gerði hér grein fyrir máli sínu. Það var algerlega óviðkomandi þeirri staðreynd að nefndur maður, Ólafur Ragnar Grímsson, sem, já, vissulega var með mér í flokki lengi, (Gripið fram í.) situr nú á Bessastöðum og fer með hið umrædda vald sem auðvitað svífur hér undir og yfir og allt um kring.

Varaformaðurinn, hæstv. fjmrh., var þá a.m.k. notaður sem sendiboði því að hann kom beint að efninu nokkrum klukkustundum síðar í eldhúsdagsumræðum hér og svo fylgdi skyttuliði á eftir, hv. þm. Sigurður Kári Kristjánsson, og bætti um betur. Þegar þetta er allt lagt saman og blaðagrein hæstv. forsrh., sem var þó sannanlega um þennan málskotsrétt ... (Forsrh.: ... var lögfræðilegur ...) Vissulega lögfræðileg vangavelta, það skal viðurkennt og það er rétt að ég hef hvergi séð hæstv. forsrh. taka endanlega eða efnislega afstöðu beinlínis til réttarins persónulega enda finnst mér það í raun og veru ekki vera hlutverk hans frekar en okkar. Ég segi fyrir mitt leyti að ég hef ekki verið að úttala mig um það hvað mér finnist að forsetinn eigi að gera við þessar aðstæður og mun ekki gera.

Málið er samt þarna, þetta er opinber umræða, ekki teboð á Alþingi og við hljótum að ræða um hlutina eins og þeir eru.

Ég mótmæli því enn og aftur að hæstv. forsrh. skuli reyna endurtekið að snúa sig út úr því að svara hér ákaflega einfaldri spurningu: Er ekki alveg víst að hans fyrsta verk verður að kalla saman Alþingi ef dregur til óvæntra tíðinda? Ég ætla reyndar, frú forseti, að taka þögn sem samþykki. Mótmæli hæstv. forsrh. því ekki skal hann við drengskap sinn standa við það --- gerist það --- að kalla þingið saman.