Frestun á fundum Alþingis

Fimmtudaginn 27. maí 2004, kl. 16:23:16 (9230)

2004-05-27 16:23:16# 130. lþ. 129.1 fundur 1005. mál: #A frestun á fundum Alþingis# þál. 27/130, MÁ
[prenta uppsett í dálka] 129. fundur, 130. lþ.

[16:23]

Mörður Árnason:

Forseti. Ég fylgdist vel með málinu um Evrópska efnahagssvæðið á þinginu sem áhugamaður um stjórnmál og sérstakur áhugamaður um Evrópska efnahagssvæðið. Þau sem hæstv. forsrh. vitnar til hér, Jón Baldvin Hannibalsson, þáverandi utanrrh., og Vigdís Finnbogadóttir, þáverandi forseti Íslands, kunna að hafa sagt sitthvað um það mál en hvorugt þeirra efaðist um að málskotsrétturinn væri til eða að það mætti beita honum. Ef hæstv. forsrh. hefur aðrar heimildir en ég um þetta bið ég hann um að koma með þær og hafa þær þá skjalfestar og ekki eftir minni, eins og hann hefur vitnað að öðru leyti.

Ég er ekki svo hugumstór, forseti, að ég haldi að forsrh. svari mér frekar en öðrum í þessari umræðu um þá hluti sem spurt hefur verið um. Ég vil samt í tilefni hennar spyrja forsrh. um annan hlut af því að ég er aðeins leikmaður í lögum og stjórnskipunarmálum en þar er hæstv. forsrh. ákaflega lærður, svo lærður að hann getur fellt dóma um rök einstakra manna með og á móti, þ.e. mikilla lögspekinga í háskólum og annars staðar þar sem þau fræði eru stunduð, með og á móti tilteknum álitamálum sem kölluð eru, eða hlutum sem gerðir eru að álitamálum sem síðan þarf að skera úr um.

Það vekur athygli mína að hæstv. forsrh. talar t.d. hér um 100 ára þingræðisreglu. Ég þekki orðið ,,þingræði`` ekki í þeim skilningi sem hann virðist nota það í hér, þ.e. að stjórnarfyrirkomulag í ríki sé lýðræði með þingskipulagi, þingi sem fólkið kýs með tilteknum hætti og setur lög, þá gagnstætt annarri lýðræðislegri skipan þar sem lög ganga út af öðrum aðila en þinginu. Slíkt má hugsa sér þó að ég þekki það ekki sjálfur eða ekkert slíkt komi upp í hugann í bili. Ég þekki þingræði einungis í þeirri merkingu sem tíunduð er í Íslenskri orðabók. Ég veit að hún er reyndar ekki lögfræðigagn. Ég er hér með 2. útgáfuna frá 1983, því miður er 3. útgáfan ekki til á handhægum stað í þinginu, ég biðst afsökunar á því, en ég hygg að ekki hafi mikið breyst milli þessara útgáfna um þetta.

Þingræði er í orðabókinni skýrt svona, með leyfi forseta:

,,Stjórnarfyrirkomulag sem gerir ráðherra ábyrga fyrir þjóðþingi; sú venja að ríkisstjórn styðjist við meirihluta þingmanna og fari frá völdum þegar meirihlutinn bregst.``

Þetta er vissulega 100 ára gömul venja á Íslandi. Hún er að vísu ekki fest í stjórnarskrá en hún hefur tíðkast hér síðan árið 1904 þegar við fengum íslenskan ráðherra. Þá skapaðist sú fasta venja að ráðherra, og ríkisstjórn þar á eftir, situr ekki gegn vilja Alþingis. Það er einmitt þessi þingræðisregla, sú regla að þingið setur ríkisstjórn af, ríkisstjórn fer frá ef hún nýtur ekki trausts meiri hluta Alþingis, sem í raun og veru mælir að mínu viti gegn þeirri túlkun sem Þór Vilhjálmsson hefur gefið kost á í eins konar lögfræðilegum loftfimleikum sem ég sé ekki að geti verið festir við jörðu vegna þess ósköp einfaldlega að við lifum við þessa þingræðisreglu með góðu eða illu. Þess vegna er það þannig að ef maður ætti að taka túlkun Þórs og fleiri sem nefndir hafa verið, þar á meðal Hannesar Hólmsteins Gissurarsonar, hins mikla lögspekings í háskólanum, gilda væri hugsanlegt að þingið samþykkti lög sem ríkisstjórnin væri svo mikið á móti að hún vildi setja þau í sérstaka þjóðaratkvæðagreiðslu. Slíkur klofningur á milli þings og ríkisstjórnar sem styðst við meiri hluta í þinginu er nánast óhugsanlegur og er þá eingöngu um óeðlilegt bráðabirgðaástand að ræða.

Ef menn hugsa út í þennan gang mála hygg ég að þeir þurfi ekki að vera lögfræðingar til að sjá það að þetta gengur ósköp einfaldlega ekki og að þingið væri búið að setja slíka stjórn af, búið að lýsa á hana vantrausti, annaðhvort með formlegum hætti eða þá að það væri augljóst að hún nyti ekki trausts, þannig að ég efast um að ríkisstjórn, meirihlutastjórn eða minnihlutastjórn, gæti lifað áfram við slíkar aðstæður og alveg fráleitt að hún ætti þann kost að senda slíkt mál til þjóðarinnar.

Í kerfi þar sem forseti fer með löggjafarvaldið ásamt þinginu, eins og hér er um að ræða, er hins vegar eðlilegt að forsetinn hafi einhvers konar rétt, málskotsrétt, eins og hann hefur hér vegna þess að gjáin getur myndast á milli meiri hluta þingsins og ríkisstjórnarinnar annars vegar og þjóðarinnar hins vegar.

Menn þekkja þetta. Það er ekki þingræði í ýmsum lýðræðislöndum. Þingræði er ekki samheiti við lýðræði. Við þekkjum það t.d. í elsta lýðræðisríki veraldar, Bandaríkjum Vesturheims, að þar er lýðræði sem enginn efast um þótt menn kunni að gagnrýna það upp og niður og fram og aftur. Ég hygg að stofnanir þess hafi staðist nokkuð vel á margan hátt en þar er einmitt ekki þingræði. Þingið setur vissulega lög en ræður ekki ríkisstjórninni. Það gerir forseti. Forseti þar hefur einmitt vald sem ekki er málskotsréttur heldur beint synjunarvald, hann getur neitað þinginu staðfestingar laga, neitað lögum staðfestingar í kerfi sem gengur á allt annan hátt fyrir sig en hér.

Þetta vil ég gjarnan að hinn lærði hæstv. forsrh. svari okkur um vegna þess að ég tel að það sé umræðunni til gagns að menn fari nákvæmlega og varlega með þau hugtök sem þeir nota.