Meðferð opinberra mála

Fimmtudaginn 27. maí 2004, kl. 16:43:02 (9235)

2004-05-27 16:43:02# 130. lþ. 129.16 fundur 871. mál: #A meðferð opinberra mála# (rannsóknargögn, símhlerun o.fl.) frv. 86/2004, Frsm. minni hluta BH
[prenta uppsett í dálka] 129. fundur, 130. lþ.

[16:43]

Frsm. minni hluta allshn. (Bryndís Hlöðversdóttir):

Virðulegi forseti. Ég mæli fyrir nál. minni hluta allshn. á þskj. 1682. Á því nál. eru auk mín hv. þm. Ágúst Ólafur Ágústsson, Ingibjörg Sólrún Gísladóttir og Sigurjón Þórðarson. Kolbrún Halldórsdóttir sat fundi nefndarinnar sem áheyrnarfulltrúi og er samþykk því áliti sem hér er lagt fram.

Ég vil byrja á að segja það, virðulegi forseti, að það frv. sem hér er til umræðu vakti óhemju viðbrögð, ég vil segja í samfélaginu, vegna þeirra skilaboða sem í því fólust í sinni upphaflegu mynd. Ég vil segja það strax í upphafi hv. meiri hluta allshn. til hróss að sem betur fer var við meðferð málsins að miklu leyti tekið tillit til þeirra sjónarmiða sem komu fram. Ég hef sjaldan séð það gerast sem gerðist í þessu máli að nánast hver einasti umsagnaraðili lagðist mjög harkalega gegn frv. og þá er ég fyrst og síðast að tala um annars vegar 1. og 4. gr. frv., heimild til að halda gögnum frá verjanda, og hins vegar um 6. gr. sem fólst í því að heimilaðar yrðu símhleranir án dómsúrskurðar í hinni upprunalegu mynd frv.

Minni hlutinn gerir ekki sérstakar athugasemdir við aðrar greinar frv., þ.e. þær sem lúta að vitnaverndinni, heldur eru það fyrst og síðast þessi tvö ákvæði, annars vegar heimild til að halda gögnum frá verjanda og hins vegar ákvæði um símhleranir. Hann gerir þær með tilliti til þess hvernig frv. kom fram í upphafi og við teljum mjög ámælisverð þau vinnubrögð sem voru viðhöfð í hæstv. dómsmrn. við undirbúning þessa máls.

Fyrir það fyrsta er hér verið að gera breytingar á ákvæðum réttarfarslaga, ákvæðum sem snerta annars vegar persónuvernd og friðhelgi einkalífs, þegar símhleranirnar eru annars vegar, og hins vegar snerta þau ákvæði um réttláta málsmeðferð fyrir dómi, þegar við erum að fjalla um heimild til að halda gögnum frá verjanda vegna óska lögreglu.

[16:45]

Þetta frv. er eigi að síður lagt fram án þess að réttarfarsnefnd sé falið að semja það. Það er mjög sérstakt, virðulegi forseti, og mjög undarlegt að það skuli vera gert, sérstaklega í ljósi þess sem kom fram í hv. allshn., að réttarfarsnefnd er að vinna að heildarendurskoðun réttarfarslaga eða laga um meðferð opinberra mála og hyggst ljúka þeirri endurskoðun í haust. Þess vegna er algjörlega óskiljanlegt, virðulegi forseti, að ástæða skuli vera talin til þess af hálfu dómsmrh. að leggja fram þetta frv. án þess að hafa samráð við réttarfarsnefnd. Ég vil vekja athygli á því að í réttarfarsnefnd sitja okkar helstu og færustu sérfræðingar á sviði réttarfarsmála, þeir sem sitja í þeirri nefnd þekkja best til í þeim efnum enda hefur hún það hlutverk að vera stjórnvöldum til aðstoðar við réttarfarsleg málefni og hún hefur haft það hlutverk, a.m.k. hingað til, að semja lög þegar verið er að gera breytingar á réttarfarslögum.

Hins vegar kom fram í hv. allshn. að sá eini af umsagnaraðilunum sem dómsmrn. hafði samráð við var ríkislögreglustjóri. Þetta mál er í upphafi sniðið að þeim hugmyndum sem koma frá ríkislögreglustjóra og eru í raun og veru eðlilegar kröfur af hálfu þess embættis í ljósi þess að að sjálfsögðu vill ríkislögreglustjóri hafa sem opnastar heimildir til þess að geta hlerað síma fólks. Að sjálfsögðu hefur enginn það að markmiði að misnota slíka heimild, mér dytti aldrei í hug að bera það neinum á brýn. Eigi að síður, virðulegur forseti, hefur sagan sýnt að það er skynsamlegra að setja slíkum heimildum mörk auk þess sem okkur ber skylda til að setja þau mörk samkvæmt þeim mannréttindasáttmálum sem við höfum skuldbundist til að fylgja.

Eins og heimildin til að halda gögnum frá verjanda er lögð fram í upphafi á hún að vera ótímabundin. Það þurfti ekki mikla yfirlegu yfir þeirri grein til að sjá að hún gæti aldrei staðist 6. gr. mannréttindasáttmála Evrópu. Þarna er um að ræða frávik frá þeirri jafnræðisreglu sem að jafnaði gildir á milli málsaðila, sækjanda og verjanda, og þarna er um að ræða heimild til fráviks frá þeirri jafnræðisreglu. Þetta var mjög lítið rökstutt og minni hlutinn telur rétt að draga það fram í áliti sínu að það er mjög óæskilegt að frá dómsmrn. komi frv. um jafnviðamikla breytingu án þess að henni fylgi nánast nokkur einasti rökstuðningur.

Hvað segir um þetta í athugasemdum með ákvæðinu?

Þar segir einfaldlega, með leyfi forseta:

,,Hér er lögð til breyting á aðgangi verjanda að gögnum máls þannig að lögreglu sé heimilt, að ákveðnum skilyrðum uppfylltum, að neita sakborningi um slíkan aðgang. Lögregla metur þetta með tilliti til rannsóknarhagsmuna hverju sinni og hefur hún til þess nokkurt svigrúm.``

Virðulegur forseti. Auðvitað gengur ekki að setja svona nokkuð fram. Satt best að segja undrar mig að frá dómsmrn. skuli koma frv. sem er ekki með meiri rökstuðning fyrir jafnviðamikilli breytingu og þetta ákvæði var í upphafi.

Það má nánast segja að uppreisn hafi orðið innan lögfræðingasamfélagsins, mjög hávær mótmæli voru í öllum umsögnum sem komu fram og þar fór réttarfarsnefnd fremst í flokki, dómstólaráð, laganefnd Lögmannafélagsins o.s.frv. Allar voru þessar umsagnir á þann veg að svona gengi ekki. Þess vegna enn og aftur, virðulegur forseti, hlýtur maður að velta því fyrir sér hvar hæstv. dómsmrh. hafi leitað lögfræðilegrar ráðgjafar með þessar hugmyndir sínar. Þeir aðilar virðast a.m.k. vandfundnir sem gátu réttlætt þessar hugmyndir eins og þær komu fram í upphafi. Sem betur fer voru fulltrúar meiri hluti allshn. á sömu skoðun. Þeir fengu greinilega dómsmrh. ofan af þessum áformum sínum sem betur fer, að mestu leyti.

Það er líka rétt að taka fram að þrátt fyrir að heimildinni til að halda gögnum frá verjanda hafi verið breytt til bóta í meðförum nefndarinnar --- þar er lagt til að eingöngu sé um að ræða tímabundið frávik frá þessari meginreglu um jafnræði málsaðila þannig að það sé heimilt að halda gögnum frá verjanda í tiltekinn tíma, annars vegar þrjár eða allt upp í fimm vikur, sem er allt annað mál en það að hafa slíka heimild ótímabundna --- er líka að finna í brtt. meiri hlutans þrengingu á rétti verjanda til að fá endurrit af einstökum skjölum á meðan á rannsókn máls stendur. Samkvæmt brtt. meiri hlutans getur lögregla neitað verjanda um endurrit á einstökum skjölum ótímabundið, eftir því sem okkur skildist í hv. allshn. þegar við spurðum meiri hlutann að því hvernig bæri að skilja ákvæðið. Þetta er ekki hægt samkvæmt gildandi lögum og þarna er þar af leiðandi um þrengingu að ræða.

Ég hefði talið eðlilegt, virðulegur forseti, að þetta tiltekna ákvæði hefði fengið meiri umfjöllun í nefndinni. Það fékk ekki mikla umfjöllun. Þegar þessar tillögur voru kynntar var spurt út í þetta, hvort þetta þýddi þrengingu hvað varðaði afhendingu endurrita og því var svarað játandi en í raun og veru var ekki kafað ítarlega ofan í þennan þátt málsins. Án þess að ég ætli að fullyrða hér og nú að þetta sé í raun og veru óæskilegt nákvæmlega í þeirri mynd sem það er hefði ég talið að við hefðum þurft að skoða þetta mál betur. Það er einfaldlega mjög mikilvægt að réttarfarslög fái góða umfjöllun og að farið sé yfir allar breytingar af okkar færustu sérfræðingum á því sviði. Annað er í raun og veru ekki verjandi, og engin ástæða til að hafa þannig, virðulegur forseti. Þetta er t.d. eitt sem hefði verið mjög mikilvægt að skoða betur. Ég treysti mér ekki til að styðja málið þrátt fyrir að það hafi horft til verulegra bóta í meðförum nefndarinnar, m.a. vegna þess að ég veit ekki nákvæmlega hvað þessi breyting þýðir og hvort hún stenst auk þess sem minni hlutinn telur að það sé ekki rétt af hálfu dómsmrh. að leggja fram frv. án þess að farið sé vandlega yfir það af okkar færustu sérfræðingum eins og hér hefur verið sagt áður.

Varðandi heimildina til símhlerana án dómsúrskurðar, eins og hún var lögð fram í upphafi, fékk hún álíka viðbrögð og kannski fékk hún mestu viðbrögðin. Umsagnirnar sem bárust nefndinni voru nánast einróma þar sem því var mótmælt mjög harðlega að verið væri að stíga yfir þann þröskuld að heimila símhleranir án dómsúrskurðar. Rökin fyrir þessari breytingu í frv. voru heldur ekki mjög ítarlega ígrunduð, verð ég að segja, virðulegur forseti, a.m.k. ekki ítarlega sett fram. Þau voru eitthvað í þá veru að með tilkomu nýrrar tækni og GSM-símanotkunar væri auðveldara að hlera síma en oft áður og væri nokkuð um að það væri gert þegar um væri að ræða grun um brot. Vegna þess hversu oft væri hægt að skipta um síma og brotamenn skiptu svo oft um síma gerði það lögreglunni erfitt um vik, eitthvað svoleiðis. Jú, jú, þetta eru allt saman skiljanlegar ástæður af hálfu lögreglu en hæstv. dómsmrh. ber skylda til þess að tryggja að heimildir lögreglu falli innan t.d. mannréttindasáttmála Evrópu og að þær gangi ekki það nærri friðhelgi einkalífs að of langt sé gengið.

Virðulegur forseti. Þessu ákvæði var mótmælt mjög harðlega, líka af réttarfarsnefnd, Persónuvernd og laganefnd Lögmannafélagsins og fleirum. Ég held að þetta ákvæði hafi fengið tiltölulega farsæla lendingu af hálfu nefndarinnar þar sem haldið er í það grundvallaratriði að ekki séu heimilaðar símhleranir án dómsúrskurðar en í staðinn sé hægt að binda þá heimild við einstaklinga en ekki við símtæki. Ég held að þannig megi koma til móts við þessar þarfir lögreglu án þess að skerða friðhelgi einkalífsins um of.

Ég undra mig á því, virðulegi forseti, að farið hafi verið af stað í þessa vegferð í upphafi, satt best að segja. Mjög ítarlega var farið yfir það í hv. allshn. hvaða tíma við værum raunverulega að tala um þegar leitað væri eftir dómsúrskurði. Svörin voru á þá leið að yfirleitt fengist slíkur úrskurður innan klukkustundar frá því að hans er óskað, það sé sólarhringsvakt af hálfu dómstólanna til að vinna í slíkum málum. Þó að vissulega sé skiljanlegt að lögreglan þurfi oft að hafa hraðar hendur hefði maður ekki haldið að slík töf væri algerlega óásættanleg fyrir vinnuumhverfi lögreglu.

Ég fagna því að meiri hlutinn hafi náð að koma vitinu fyrir hæstv. dómsmrh. og koma honum í skilning um það að svona lagað getur ekki gengið, maður gengur ekki yfir svona grundvallarprinsipp eins og þetta varðandi heimild til símhlerana. Lendingin sem fannst var eins og hér var getið af hv. framsögumanni og formanni allshn. að tillögu réttarfarsnefndar og ég held að hún ætti að geta leyst þau vandamál sem uppi kunna að vera út af þessu.

Enn og aftur, virðulegur forseti, ég held að það hefði mátt spara heilmikið í vinnu þessa máls ef hæstv. dómsmrh. hefði í upphafi leitað til réttarfarsnefndar. Þegar upp er staðið er það hún sem leggur línurnar í þeirri leið sem farin er og ég held að hæstv. dómsmrh. hljóti að læra af því að það kannski borgi sig að leita til bestu sérfræðinga á hverju sviði áður en farið er af stað með frumvörp af þessu tagi.

Það vekur hins vegar furðu mína, virðulegur forseti, og ég verð að geta þess hér, að báðir þingflokkar ríkisstjórnarflokkanna, bæði þingflokkur Sjálfstfl. og Framsfl., hafi samþykkt frv. í þeirri mynd sem það var í í upphafi. Ég veit a.m.k. ekki betur en vel kann að vera að menn eigi eftir að greina frá því að mótmæli hafi komið fram í þessum flokkum. Ég undrast það ef það hefur farið í gegnum þingflokka þar sem sitja 34 hv. þm. án þess að nokkur hafi áttað sig á því að þetta mál gæti aldrei staðist í þeirri mynd sem það var í.

Virðulegur forseti. Meðal annars vegna þess hvernig frv. var unnið í upphafi og vegna þess sem út af stendur og nefnt var hér í framsögu minni mun minni hlutinn ekki styðja frv. í heild sinni þegar það kemur til afgreiðslu í þinginu. Ekki var haft samráð við lykilaðila og sérfræðinga. Enn fremur er málið illa rökstutt og sett fram og því mótmælum við þeim vinnubrögðum sem viðhöfð hafa verið í dómsmrn. hvað þetta varðar. Eins og ég benti á er líka verið að þrengja m.a. rétt verjenda til að fá endurrit af einstökum skjölum meðan á rannsókn máls stendur. Þrátt fyrir góða viðleitni hjá meiri hluta hv. allshn. mun minni hlutinn ekki treysta sér til að styðja málið.

Ég get líka sagt það hér að hefðu þessar breytingar ekki verið gerðar er nokkuð öruggt að sú sem hér stendur hefði ýtt á rauða takkann í þessu máli. Það gaf fullt tilefni til þess.