Meðferð opinberra mála

Fimmtudaginn 27. maí 2004, kl. 16:58:43 (9236)

2004-05-27 16:58:43# 130. lþ. 129.16 fundur 871. mál: #A meðferð opinberra mála# (rannsóknargögn, símhlerun o.fl.) frv. 86/2004, Frsm. meiri hluta BjarnB (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 129. fundur, 130. lþ.

[16:58]

Frsm. meiri hluta allshn. (Bjarni Benediktsson) (andsvar):

Virðulegi forseti. Mig langar aðeins til að bregðast við orðum hv. þm. Bryndísar Hlöðversdóttur.

Í umræddu frv. er þeim reglum fylgt sem gilda á Norðurlöndunum, bæði um heimildina til hlerunar --- við sjáum sambærileg ákvæði í dönsku og norsku lögunum --- og um aðganginn að skjölum þar sem farnar eru mjög sambærilegar leiðir í þessu frv. og við sjáum á Norðurlöndunum. Mjög gild rök hafa komið fram fyrir þeirri leið sem frv. gerði ráð fyrir.

Síðan er hitt að þær breytingar sem gerðar voru á frv. voru gerðar að höfðu mjög góðu samráði við dómsmrn. og þær taka mið af tillögum réttarfarsnefndar þannig að mér þykir alveg með ólíkindum hversu mikið er gert úr því hvernig frv. kom fram í upphafi. Ég held að það hafi einmitt komið í ljós í ræðu hv. þingmanns að minni hlutinn er fyrst og fremst að mótmæla einhverjum vinnubrögðum í dómsmrn. Ef ekki er verið að mótmæla einhverjum vinnubrögðum í dómsmrn. í málum er verið að finna að því að mál hafi ekki fengið nægilega góða umfjöllun í nefndinni þannig að það er bara stokkið á eitthvað til þess að vera á móti. (Gripið fram í.)

Þetta mál fékk mjög vandaða umfjöllun í nefndinni. Við fengum umsagnir frá fjölmörgum aðilum og ég tel að staðreyndin sé sú að um frv. í þeirri mynd sem það kemur núna frá meiri hluta allshn. aftur inn á þingið eigi að geta náðst mjög víðtæk sátt. Það eru engin efni til þess að vera að deila um þau atriði sem hér er verið að færa til betri vegar í lögum um meðferð opinberra mála.