Meðferð opinberra mála

Fimmtudaginn 27. maí 2004, kl. 17:04:57 (9239)

2004-05-27 17:04:57# 130. lþ. 129.16 fundur 871. mál: #A meðferð opinberra mála# (rannsóknargögn, símhlerun o.fl.) frv. 86/2004, Frsm. minni hluta BH (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 129. fundur, 130. lþ.

[17:04]

Frsm. minni hluta allshn. (Bryndís Hlöðversdóttir) (andsvar):

Virðulegi forseti. Það er kannski ekki sanngjarnt að setja hv. þm. Bjarna Benediktsson í vörn fyrir tillögur sem hann er búinn að vinda ofan af og bæta nokkuð stórlega frá þeirri mynd sem þær komu í frá hæstv. dómsmrh. Ég held engu að síður að brtt. meiri hlutans í hv. allshn. og sú mynd sem frv. er í í dag sýni einungis og sanni að tillögurnar voru ekki tækar. Þær bara þóttu ekki standast og þar af leiðandi var snúið til baka með þær. Það er svo sem ekkert að gera annað en að fagna því.

Hins vegar tel ég ástæðu til að hafa áhyggjur af þeim tillögum sem koma frá dómsmrn. Gildir mig þá einu, virðulegur forseti, hvort verið er að leita fyrirmynda hjá ríkisstjórn Danmerkur og þeim breytingum sem voru gerðar þar á réttarfarslögunum fyrir nokkrum árum eða í Noregi. Ég er reyndar ekki viss um að þær tillögur séu farnar í gegn en það gildir einu, virðulegur forseti, því að við verðum að sjálfsögðu að sníða okkar tillögur að okkar veruleika, þeim veruleika sem hér er. Við þurfum að leggja fram rökstuðning fyrir því þegar við erum að gera breytingar á réttarfarslögum. Það nægir ekki að segja bara: Það vantar svona heimild og þess vegna ætlum við að hafa hana.

Þess vegna töldum við ástæðu til þess, virðulegi forseti, að fara sérstaklega yfir málið eins og það lá fyrir í upphafi og vara við þeim hugmyndum sem eru að koma ofan úr dómsmrn. vegna þess að þær eru ekki til fyrirmyndar. Ég fagna því samt að meiri hluti allshn. sé þó eitthvert aðhald sínum hæstv. dómsmrh. í þeim efnum.