Meðferð opinberra mála

Fimmtudaginn 27. maí 2004, kl. 17:21:00 (9243)

2004-05-27 17:21:00# 130. lþ. 129.16 fundur 871. mál: #A meðferð opinberra mála# (rannsóknargögn, símhlerun o.fl.) frv. 86/2004, Frsm. minni hluta BH (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 129. fundur, 130. lþ.

[17:21]

Frsm. minni hluta allshn. (Bryndís Hlöðversdóttir) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég geri ráð fyrir því að hæstv. dómsmrh. viti að vændisfrumvarpið snýst um breytingu á almennum hegningarlögum og heyrir það undir refsiréttarnefnd. Það er önnur nefnd sem starfar undir hæstv. dómsmrh. sem hefur með þau mál að gera og hún fékk það mál til umsagnar. Ég held að hæstv. dómsmrh. viti það vel. Hér erum við hins vegar að ræða um réttarfar og þess vegna er eðlilegt að réttarfarsnefnd fari yfir það mál.

Ég hlýt að spyrja hæstv. dómsmrh.: Út af hverju var þetta ekki borið undir réttarfarsnefnd? Ef hæstv. dómsmrh. lítur svo á að réttarfarsnefnd sé menn úti í bæ og að við séum að skorast undan einhverri ábyrgð með því að leita til slíkra manna, af hverju leggur hann bara ekki nefndina niður, virðulegur forseti? Hvers vegna að hafa nefnd sem hefur það hlutverk að vera dómsmrh. til ráðgjafar um réttarfarsleg málefni og hún er ekki notuð vegna þess að hún er bara menn úti í bæ? Ég undra mig því á þessum orðum hæstv. dómsmrh.

Getur verið að hæstv. dómsmrh. telji það nægan rökstuðning sem kemur fram í athugasemdum við 1. gr. þessa frv. eins og það var í upprunalegri mynd? Hér segir, með leyfi forseta:

,,Hér er lögð til breyting á aðgangi verjanda að gögnum máls þannig að lögreglu sé heimilt, að ákveðnum skilyrðum uppfylltum, að neita sakborningi um slíkan aðgang. Lögregla metur þetta með tilliti til rannsóknarhagsmuna hverju sinni og hefur hún til þess nokkurt svigrúm.``

Ef hæstv. dómsmrh. telur þetta vera nægilegan rökstuðning fyrir jafnviðamikilli breytingu og þarna var lögð til en hæstv. dómsmrh. sendur til baka með erum við einfaldlega bara algjörlega ósammála í grundvallaratriðum um það hvernig undirbúa eigi lagasetningu á þessu sviði. Kannski þýðir ekki mikið að karpa um það hér, virðulegur forseti.