Meðferð opinberra mála

Fimmtudaginn 27. maí 2004, kl. 17:27:51 (9247)

2004-05-27 17:27:51# 130. lþ. 129.16 fundur 871. mál: #A meðferð opinberra mála# (rannsóknargögn, símhlerun o.fl.) frv. 86/2004, KolH (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 129. fundur, 130. lþ.

[17:27]

Kolbrún Halldórsdóttir (andsvar):

Frú forseti. Það er gott að hæstv. dómsmrh. skuli vera sáttur við breytingarnar. Það hefur auðvitað verið staðfest hér líka að breytingar þær sem koma frá hv. allshn. milda mjög áhrif þessa frv. eins og það var lagt fram af hæstv. dómsmrh. og við höfum í umsögn frá Mannréttindaskrifstofu Íslands vísbendingar um að eins og frv. var hafi verið gengið lengra en skrifstofan taldi eðlilegt. Það er ekkert óeðlilegt þó að við gagnrýnum hæstv. dómsmrh. fyrir það að ætla að ganga svo langt, og getum samt sem áður fullyrt að vinnan sem allshn. lét fara fram hafi verið góð og að brtt. séu sannarlega til batnaðar.

Endapunkturinn í þessu máli er auðvitað alltaf sá að það sem verið er að gera hér er að verið er að skerða heimildir eða öllu heldur frelsi manna með því sem hér um ræðir. Við skulum ekki gleyma því að þegar símhleranir eru heimilaðar koma þær ekki bara við þann sem er grunaður um afbrot. Símhleranirnar koma líka við alla meðlimi fjölskyldu hans sem deila með honum síma. Haldið þið að það sé að ófyrirsynju að Persónuvernd geri þær athugasemdir að því valdi sem hér er verið að færa lögreglu sé beitt af ýtrustu varkárni og að það þurfi að vera eftirlit með valdheimildinni og beitingu hennar? Mér finnst ekkert óeðlilegt við það.

Og mér finnst ekkert óeðlilegt þó að minni hluti allshn. tali tæpitungulaust í því máli sem hér um ræðir því að það er óvanalegt að réttarfarsnefnd skuli ekki fá vitneskju um frv. af því tagi sem hér var flutt af hæstv. dómsmrh. Það fengum við líka staðfest í yfirferð nefndarinnar, að það væri óeðlilegt að réttarfarsnefnd fengi ekki umsagnarrétt um svona frv. áður en það væri lagt fram.