Meðferð opinberra mála

Fimmtudaginn 27. maí 2004, kl. 17:44:38 (9251)

2004-05-27 17:44:38# 130. lþ. 129.16 fundur 871. mál: #A meðferð opinberra mála# (rannsóknargögn, símhlerun o.fl.) frv. 86/2004, Frsm. meiri hluta BjarnB (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 129. fundur, 130. lþ.

[17:44]

Frsm. meiri hluta allshn. (Bjarni Benediktsson) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég vil byrja á því að þakka fyrir hlý orð í minn garð og meiri hlutans í tilefni af þeim breytingum sem gerðar hafa verið á frv. Ég ætla ekki að fara að endurtaka umræðuna sem hefur átt sér stað hér og ég hef tekið þátt í um önnur efnisatriði þessa máls Ég vil aðeins vekja athygli á einu fyrst og fremst í tilefni af orðum hv. þingmanns um að það væri engin önnur fyrirmynd en sú sem við höfum frá Danmörku varðandi þær hleranaheimildir sem gerð var tillaga um í frv. Ég hygg að ég fari rétt með að slíka fyrirmynd er bæði að finna í Noregi, Danmörku og jafnvel í Hollandi. Ég vil jafnframt hnykkja á því og ég tel að það hafi eftir atvikum ekki komið nægilega vel fram í umræðunni í dag að til þessarar heimildar samkvæmt frv. væri einungis heimilt að grípa ef brýn hætta væri á því að bið eftir úrskurði mundi valda sakarspjöllum.

Þetta er sama skilyrðið og gildir annars staðar. Ég ætla jafnframt að vekja athygli á því að í lögum um meðferð opinberra mála eru enn frekari skilyrði en þau sem við höfum verið að fjalla hér um í tengslum við þetta frv. sem hefði reynt á. Í fyrsta lagi er það skilyrðið um að ástæða verði að vera til að ætla að þær upplýsingar sem leitast er við að komast í geti skipt miklu máli fyrir rannsókn málsins og í öðru lagi að rannsóknin beinist að broti sem varðað getur að lögum átta ára fangelsi. Þetta vildi ég nefna af því tilefni að mér hefur þótt umræðan gefa þeim sem eru að hlusta tilefni til að ætla að til hafi staðið að veita lögreglunni heimildir til þess að opna fyrir hleranir nánast að tilefnislausu.