Sala fasteigna, fyrirtækja og skipa

Fimmtudaginn 27. maí 2004, kl. 18:13:08 (9256)

2004-05-27 18:13:08# 130. lþ. 129.17 fundur 462. mál: #A sala fasteigna, fyrirtækja og skipa# frv. 99/2004, Frsm. BjarnB
[prenta uppsett í dálka] 129. fundur, 130. lþ.

[18:13]

Frsm. allshn. (Bjarni Benediktsson):

Herra forseti. Ég mæli fyrir nál. frá allshn. um frv. til laga um sölu fasteigna, fyrirtækja og skipa.

Nefndin hefur fjallað um málið og fengið á sinn fund fulltrúa frá dómsmrn., þá aðila sem komu að því að semja drög að frv. Nefndin hefur jafnframt fundað með Félagi fasteignasala, fulltrúum byggingaraðila í þessum iðnaði, fasteignasölum, fulltrúum frá fjmrn. og fleiri aðilum, og enn fremur fengið fjölmargar umsagnir. Ég vil leyfa mér að segja að þetta frv. var alveg sérstaklega vandað þegar það kom fram. Því fylgdu umsagnir og það hefur áður komið fram í umræðu um þetta mál að það var einstaklega vel vandað til þess sem varð auðvitað mjög til þess að létta alla vinnu sem fram fór í nefndinni.

Engu að síður var ástæða til að fara mjög nákvæmlega ofan í saumana á málinu því að með frv. er lagt til að sett verði ný heildarlög um sölu fasteigna, fyrirtækja og skipa sem leysa gildandi lög, nr. 54/1997, af hólmi. Í frv. eru lagðar til viðamiklar breytingar á núgildandi fyrirkomulagi, m.a. í því skyni að bregðast við þeim vandamálum sem komið hafa upp í starfsstéttinni og lýst er í nál. allshn.

Meðal helstu breytinga samkvæmt frv. er að öðrum en fasteignasölum verður bannað að hafa milligöngu um kaup og sölu fasteigna fyrir aðra.

Í annan stað er lagt til að gerðar verði auknar kröfur til þeirra sem vilja þreyta prófraun til að fá löggildingu sem fasteignasalar.

Í þriðja lagi eru í frv. gerðar tillögur um breytingar á reglum um eignarhald á fasteignasölum, um útibú og um að starfsábyrgðartrygging eigi að taka til þeirra sem ráðnir eru til starfa hjá fasteignasala.

Loks er gerð sú breyting, og þar er um mjög veigamikla breytingu að ræða, að komið er á fót eftirlitskerfi með fasteignasölum. Lagt er til að fasteignasölum verði skylt að eiga aðild að Félagi fasteignasala sem er ætlað viðamikið hlutverk samkvæmt ákvæðum frv. Þannig er gengið út frá því að sett verði á fót stjórnsýslunefnd, eftirlitsnefnd Félags fasteignasala, sem starfi í tengslum við félagið og á kostnað þess.

[18:15]

Allshn. gerir tillögur um breytingar á fyrirkomulagi eftirlitsins sem ég ætla að fara aðeins nánar yfir á eftir.

Ég ætla að leyfa mér í öllum aðalatriðum að vísa til nál. allshn. Það var samstaða í henni um öll helstu atriðin. Nokkrir fyrirvarar voru gerðir af hálfu einstakra nefndarmanna en sameiginlega standa þeir þó að þessu áliti.

Þau atriði sem ég ætla að víkja að snúa að þessum helstu þáttum en ég ætla aðeins að staldra við innheimtu félagsgjaldsins til Félags fasteignasala. Allshn. gerir tillögu um að innheimta þess verði aðgreind frá innheimtu eftirlitsgjaldsins, þ.e. að gerður verði aðskilnaður á milli félagsgjalds og eftirlitsgjalds enda eru þessi tvö gjöld ólíks eðlis. Þannig er lagt til að bætt verði við frv. ákvæði þess efnis að Félag fasteignasala beri sjálft kostnað af þeim störfum sem því eru fengin með lögunum og fengin heimild til að leggja árgjald á félagsmenn til að standa straum af þeim kostnaði. Jafnframt er lagt til að sérhver fasteignasali greiði árlegt eftirlitsgjald að fjárhæð 100.000 kr. til að standa straum af kostnaði við störf eftirlitsnefndarinnar. Félagið annist innheimtu eftirlitsgjaldsins og standi skil á því til eftirlitsnefndarinnar, en vangoldið eftirlitsgjald verði aðfararhæft.

Fyrir þessu eru færð frekari rök í nál. allshn. og ég ætla að leyfa mér að vísa til þeirrar umfjöllunar.

Veigamikil breyting á frv. felst í því að allshn. leggur til að sjálfstæði eftirlitsnefndarinnar verði styrkt frá því sem greinir í frv. Þetta kemur m.a. fram í því að ráðherra ákveði henni þóknun í stað þess að þóknunin greiðist af Félagi fasteignasala. Þá leggur nefndin til að frekar verði skilið á milli félagsins og eftirlitsnefndarinnar, einkum að því leyti að nefndin ráði sér sjálf starfsmann, enda gæti komið til þess að ekki yrði samstaða með nefndinni og félaginu um það atriði. Því telur allshn. heppilegast að eftirlitsnefndin ráði sér sjálf starfsmann án atbeina Félags fasteignasala.

Krafa kom fram frá Félagi fasteignasala, eða tillaga skulum við segja, um að fasteignasölum yrði gert að setja tiltekna tryggingu --- og gerð var tillaga um 5 millj. kr. tryggingu í því efni --- í því skyni að standa straum af kostnaði sem félli til við frágang skjala þegar sú óvænta staða kemur upp að fasteignasali leggur niður störf, þ.e. lokar starfsstöð sinni. Nefndin lagði sig fram um að koma til móts við þann vanda sem þarna var verið að benda á en féllst þó ekki á þessar hugmyndir um 5 millj. kr. peningatryggingu eða bankaábyrgð. Af hálfu allshn. er gerð sú tillaga að bætt er inn hlutlægri ábyrgðarreglu á þessu afmarkaða sviði og starfsábyrgðartrygging viðkomandi fasteignasala á síðan að taka til þess tjóns sem af slíkum atvikum leiðir sem ég hef hér fjallað um.

Ég hygg að með þessu sé verulega komið til móts við þær áhyggjur sem lágu til grundvallar tillögunni frá Félagi fasteignasala en við höfum hér fundið með þessu nokkuð vægara úrræði sem er kannski fyrst og fremst heppilegra fyrir þær sakir að sú leið hindrar ekki með sama hætti aðgang að greininni, eins og tillaga Félags fasteignasala gerði að mati nefndarmanna.

Einhverjir nefndarmanna höfðu fyrirvara á undirskrift sinni og munu hugsanlega gera grein fyrir þeim sjálfir. Sumir nefndarmanna höfðu fyrirvara varðandi skylduaðildina og það atriði fékk talsverða umræðu í nefndinni. Í nál. er gengið út frá því að mikilvægt sé að skylduaðild að Félagi fasteignasala verði komið á en á móti er lagt til að það fyrirkomulag verði tekið til endurskoðunar þegar reynsla er komin á það breytta fyrirkomulag. Bendir nefndin sérstaklega á að Félagi fasteignasala er samkvæmt frv. ætlað viðamikið hlutverk, og hafa má efasemdir um hvort félagið geti staðið undir því viðamikla hlutverki án skylduaðildarinnar. Nefndin telur þó að félagið kunni á næstu árum að styrkjast svo verulega, m.a. á grundvelli þá þessarar skylduaðildar og á forsendum þeirra verkefna sem því verða falin, að í ljós kunni að koma að til lengri tíma verði ekki nauðsynlegt að kveða á um skylduaðildina. En í upphafi eru sem sagt færð fyrir því rök í nál. að þetta kunni að vera nauðsynlegt.

Miklar umræður fóru fram um það hvort ástæða væri til að taka til endurskoðunar umfang þess eftirlits sem frv. kveður á um. Ég vil leyfa mér að segja að nefndin hafi verið nokkuð einhuga um þá afstöðu að kveðið sé á um fullítarlegt eftirlit með þessari starfsemi í frv. Á hinn bóginn komu líka á fund nefndarinnar sérfróðir aðilar á þessu sviði sem vöktu athygli á því að full ástæða væri til að breyta fyrirkomulaginu og að sérstaklega fyrst um sinn væri ástæða til að fara gaumgæfilega ofan í saumana á þessari starfsemi. Á endanum varð niðurstaðan sú að breyta ekki umfangi þessa eftirlits sem frv. gerir ráð fyrir en það var þá einungis á þeirri forsendu að jafnt og gildir um skylduaðildina verði þetta atriði sérstaklega tekið til endurskoðunar að liðnum fjórum árum. Þannig gera nefndarmenn ráð fyrir að eftir fjögur ár, ég hygg að það sé í lok árs 2008 sem varð niðurstaðan í þessu hjá okkur ... (Gripið fram í: Í janúar.) Já, í byrjun árs 2008 var það, 1. janúar 2008 á að fara fram endurskoðun á lögunum og það er einkum varðandi þessi tvö atriði sem ætlast er til að það ákvæði taki til.

Að þeim tíma liðnum, þ.e. fyrir 1. janúar 2008, mun samkvæmt öðrum ákvæðum frv. hafa farið fram eftirlit með starfsemi allra löggiltra fasteignasala. Þessi tvö ákvæði frv. eru þannig sett í ákveðið samhengi, annars vegar er tíminn fram að endurskoðuninni og hins vegar hversu umfangsmikið eftirlitið verður, þ.e. hversu oft hver og einn löggiltur fasteignasali mun sæta eftirliti.

Eins og áður segir lá vinnu nefndarinnar til grundvallar mjög viðamikið, ítarlegt og vel unnið frv. Gerðar voru breytingar á nokkrum atriðum þess og ég held að nefndarmenn séu sammála um að þær skipti verulegu máli fyrir málið í heild sinni og jafnframt að niðurstaðan sé á allan hátt góð enda einhugur um hana í allshn.

Ég hygg að ég hafi snert nú í máli mínu á því helsta sem nefndin hefur tekið til skoðunar. Það verður mjög mikil réttarbót að þessu máli þegar þingið hefur samþykkt frv. og það er mjög athyglisvert í því samhengi að hjá stétt fasteignasala er mjög rík krafa um að herða á eftirliti með greininni og að koma á nýju skipulagi varðandi innra starf þeirra.