Sala fasteigna, fyrirtækja og skipa

Fimmtudaginn 27. maí 2004, kl. 18:29:37 (9258)

2004-05-27 18:29:37# 130. lþ. 129.17 fundur 462. mál: #A sala fasteigna, fyrirtækja og skipa# frv. 99/2004, SigurjÞ
[prenta uppsett í dálka] 129. fundur, 130. lþ.

[18:29]

Sigurjón Þórðarson:

Herra forseti. Hér er um þarft mál að ræða, sérstaklega í ljósi þeirra mála sem hafa komið upp á undanförnum missirum og mjög mikilvægt að tryggja neytendavernd í þessum málaflokki. Fulltrúi Frjálsl. gerði fyrirvara við málið og hann felst einkum í tvennu. Það eru tvö atriði sem við gerum fyrirvara við.

Einkum varðar fyrirvarinn skylduaðildina. Ég hef ákveðnar efasemdir um hana vegna þess að hér er um nokkuð ósamstæðan hóp að ræða sem á í samkeppni og fyrirtækin sem standa í þessum rekstri eru innbyrðis nokkuð ólík.

Hitt varðar eftirlitið. Það er verið að búa til nýja stjórnsýslunefnd sem hefur eftirlit með þessum málaflokki sem verður í samkrulli við Félag fasteignasala. Þetta samkrull líst mér kannski ekkert sérstaklega vel á og ég hefði talið mun eðlilegra að skoða þann möguleika að fara með þetta inn í aðra eftirlitsstofnun á vegum hins opinbera og hafa þetta hreint og klárt, t.d. á vegum Fjármálaeftirlitsins.

Í heild sinni tel ég hér um þarft mál að ræða og vonandi verður það til góðs fyrir markaðinn.