Vernd, friðun og veiðar á villtum fuglum og spendýrum

Fimmtudaginn 27. maí 2004, kl. 20:12:33 (9265)

2004-05-27 20:12:33# 130. lþ. 129.20 fundur 594. mál: #A vernd, friðun og veiðar á villtum fuglum og spendýrum# (ernir, hreindýr, stjórnsýsla o.fl.) frv. 94/2004, JBjarn (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 129. fundur, 130. lþ.

[20:12]

Jón Bjarnason (andsvar):

Frú forseti. Sérstök lög eru til um vernd Breiðafjarðar og sérstök Breiðafjarðarnefnd fer með þau verkefni í umboði umhvrn. Í 7. gr. þeirra stendur, með leyfi forseta:

,,Með rannsóknum á vegum Náttúrufræðistofnunar Íslands, náttúrustofu Vestfjarða og náttúrustofu á Vesturlandi, sbr. lög nr. 60/1992, skal markvisst unnið að því að auka þekkingu á náttúru Breiðafjarðarsvæðisins til að tryggja sem best verndun þess.``

Nú veit ég og þekki til að á milli Breiðafjarðarnefndar og náttúrustofunnar í Stykkishólmi er mjög gott og náið samstarf. Náttúrustofan í Stykkishólmi starfar með Breiðafjarðarnefnd og íbúum þess svæðis í vöktun á þessu lífríki. Þess vegna finnst mér alveg einboðið að þau verkefni sem lúta að því sem þessi lög fjalla um, um vernd, friðun og veiðar á villtum fuglum og spendýrum á þessu svæði, verði falin náttúrustofu Stykkishólms. Náttúrustofa Stykkishólms, þ.e. náttúrustofa Vesturlands í Stykkishólmi, er að hluta til á ábyrgð sveitarfélaganna, íbúanna. Þar er fagþekking, þar er vilji, þar er samstarfið fyrir hendi. Baklandið er Náttúrufræðistofnun og ég er svo viss um að þessum málum væri mun betur og öruggar komið fyrir ef þetta væri fyrst falið í þeirra forsjá hvað varðar nærsamskipti. Ég hvet til þess að nefndin skoði það á milli umræðna að setja það inn því að ekkert er verra en að vera í einhverri óvissu eða ala á tortryggni eða slæmri sambúð við það fólk sem býr á þeim svæðum þar sem er þetta fjölbreytta og viðkvæma lífríki, t.d. örninn og annað í lífríki Breiðafjarðar.