Vernd, friðun og veiðar á villtum fuglum og spendýrum

Fimmtudaginn 27. maí 2004, kl. 20:27:37 (9268)

2004-05-27 20:27:37# 130. lþ. 129.20 fundur 594. mál: #A vernd, friðun og veiðar á villtum fuglum og spendýrum# (ernir, hreindýr, stjórnsýsla o.fl.) frv. 94/2004, MÁ
[prenta uppsett í dálka] 129. fundur, 130. lþ.

[20:27]

Mörður Árnason:

Forseti. Ég hef ekki miklu að bæta við það sem áður er fram komið um meginefni þessa frv. um vernd arnarins og breytingar á reglum um hana. Ég tel að nefndin hafi komist vel í gegnum viðkvæmt mál og gætt jafnvægis milli þeirra sjónarmiða sem hér eru uppi. Síðan verður reynslan að skera úr. Það er nokkuð erfitt fyrir stjórnvald, hvort sem það er framkvæmdarvaldið eða löggjafarvaldið, að standa frammi fyrir þessum hlutum og reyna að stjórna þeim sem allra best og nú er bara að vona að það takist í þessu tilfelli.

Af því að ég er nýr í þessu verð ég að segja að það sem mér sýnist kannski einkum skapa þessa erfiðleika er það að ríkisvaldið skuli afar staðfastlega neita allri hugsanlegri skaðabótaskyldu. Ég hef ekki athugað þetta mál þannig að ég hafi myndað mér ákveðna skoðun sem ég ætli að koma með fyrir þingið en þó verð ég að segja að sjónarmið æðarbænda njóta samúðar minnar að nokkru leyti þegar um það er að ræða að dýrategundir sem samfélagið vill friða og vill halda við valda óskunda í æðarvörpum, sérstaklega þeim sem forn eru og hafa lengi staðið. Ég held að það sé eitt af viðfangsefnum framtíðarinnar í náttúruverndarmálum og umhverfisvernd að líta aftur á þetta og skoða hvort ástæða sé til að vera eins harður á þessu og menn hafa kosið að vera í allmarga tugi ára, að ég ekki segi aldir.

[20:30]

Ég kem upp til að gera grein fyrir fyrirvara mínum sem ég hef við nál. og það er sams konar fyrirvari og hv. þm. Kolbrún Halldórsdóttir hefur. Hann varðar 7. gr. Í fyrsta lagi verð ég að segja að það er sérkennilegt að sjá hana. Frv. er sent til okkar frá umhvrn. sem er svolítið skrýtið ráðuneyti og það fjallar auðvitað um ernina fyrst og fremst af þeim brýnu ástæðum sem fyrri ræðumenn hafa minnst á en um leið eru ekki bara settar inn ákveðnar lagfæringar sem sjálfsagt er að koma með heldur beinar efnislegar breytingar á sviðum sem ekki snerta örninn hætis hót. Þar á meðal er þessi 7. gr. Ég held því miður að það sé ekki alveg rétt hjá síðasta hv. ræðumanni að þetta hafi verið rætt mikið í nefndinni því að a.m.k. á þeim fundum sem ég sótti var þetta í raun og veru ekki rætt. Það gafst mjög lítill tími til þess og nefndin hefur það sér til vorkunnar að það starf var töluvert að koma sér niður á ásættanlega niðurstöðu með þetta arnarmál þó að hitt málið væri ekki rætt líka.

Það er auðvitað ekki stórt mál en þó verð ég að segja að þegar farið er í gegnum umsagnir um frv. kemur í ljós að nánast allar fagstofnanir og samtök áhugamanna sem um það fjalla, og þá undanskil ég æðarbændurna sem auðvitað hafa fyrst og fremst áhuga á viðskiptum sínum og arnarins, gagnrýna þetta ákvæði 7. gr. Ég nefni umsagnir Náttúrufræðistofnunar, þeirrar rannsóknastofnunar sem umhvrn. helst styðst við í þessum málum, Líffræðistofnunar Háskóla Íslands, náttúrustofu Vesturlands sem hér kemur mjög við sögu vegna þess að örninn auðvitað á sér óðul vestanlands eins og menn vita, og Ævars Petersens fuglafræðings, eins af okkar fremstu fuglafræðingum sem einnig situr í Breiðafjarðarnefnd. Það álit sem hafði kannski mest áhrif á mig var álit Fuglaverndar, bæði álitið sjálft og þegar fulltrúar Fuglaverndar komu á fund okkar vegna þess að það eru þau samtök áhugamanna sem bera hag fugla fyrir brjósti og hafa myndað sérstök samtök um verndun og rannsóknir á þeim. Þeir segja þetta um 7. gr., með leyfi forseta:

,,Hér er lagt til að menn sem ætli sér að veiða minka þurfi ekki að hafa veiðikort eins og gilt hefur undanfarin 10 ár eða svo. Tilgangurinn mun vera að standa ekki í vegi fyrir minkaveiðum. Fuglaverndarfélagið er því eindregið fylgjandi að mink verði haldið niðri, fækkað verulega eða útrýmt úr íslenskri náttúru, sé það talið framkvæmanlegt. Félagið telur hins vegar að tilfallandi minkaveiðar sumarbústaðafólks og jafnvel barna eins og dæmin sanna, sé ekki leið til að ná árangri í baráttu við minkinn. Fuglaverndarfélagið telur að eina leiðin til að fækka mink verulega séu vel skipulegar veiðar atvinnumanna, sem byggist á bættri þekkingu á minkastofninum og hegðun hans. Félagið er því mótfallið að undanskilja minkaveiðar sérstaklega frá þeirri kvöð sem gildir um nær allar aðrar veiðar á villtum spendýrum og fuglum hér á landi, að veiðimenn hafi hlotið tilskilda þjálfun (sótt námskeið) og tilskilin leyfi til að stunda veiðarnar, hafi veiðikort. Þrátt fyrir að minkurinn sé aðskotadýr í íslenskri náttúru, eiga að gilda lög og reglur siðmenntaðra manna í baráttunni við þann vágest.``

Þetta hljómar aftur og aftur í öðrum umsögnum frá fagstofnunum og samtökum áhugamanna. Þá eru færð til dýraverndarrök. Það vill svo til að í gær gekk ég í góða veðrinu út í alþingisgarðinn þar sem hvílir nár í moldu Tryggvi Gunnarsson alþingismaður og bankastjóri sem um hafa verið skrifaðar merkilegar bækur og það er gaman að líta á minnisvarða hans og legstein í senn. Þar er höggmynd eftir Ríkarð Jónsson og hún sýnir með þeim svolítið tilfinningasama hætti sem tíðkaðist á þeim tímum, um það bil sem Tryggvi dó og Ríkarður var að hefja feril sinn, verndarhlyn dýranna, tré sem vex upp og skýlir síðan ýmsum dýrum í íslenskri náttúru. Þeir hafa verið það framsýnir að þarna er ærin og þarna eru foglar og kýr og hestar og þarna hreiðrar sig líka refur í einu horninu. Ég er hræddur um að það hafi verið fyrir tíma minksins sem hefði kannski ekki komist inn á þessa mynd en það er hollt fyrir okkur í Alþingishúsinu að hafa í huga að rétt hjá okkur er sérstakur minnisvarði um dýravininn Tryggva Gunnarsson. Þetta var að vísu útúrdúr, en þarfur held ég.

Menn segja líka í umsögnum að þetta með að undanskilja minkaveiðar veiðikortum geti beinlínis spillt rannsóknum á minknum vegna þess að veiðikortin munu mynda ákveðin fagleg gögn sem geta verið undirstaða rannsókna og spilla talningu á drepnum mink í landinu sem full þörf er á að hafa á einum stað.

Menn nefna auðvitað líka gagnsemisrök. Til hvers er það gert að heimila mönnum að skjóta mink án þess að hafa veiðikort, heimila sem sé óskipulegar og ófaglegar veiðar á mink? Er það til þess að fækka minknum? Ólíklegt er að slíkar veiðar geri neitt gagn í baráttu við minkinn, að útrýma honum, halda honum frá varpi eða öðrum stöðum þar sem menn vilja síst að hann spilli fyrir. Menn nefna líka það sem ég vil kalla uppeldisrök, þ.e. veiðar af þessu tagi sem beinast að dýri sem við kunnum að hafa óþokka á en er að vísu okkur að kenna að hér er, beinast að dýri sem lifir í villtri náttúru og fylgir ekki manninum eftir, er ekki fylgifiskur eða sníkjudýr á manninum eins og rottur eru og húsamýs. Rökin eru líka siðferðileg og beinast að því hvernig við viljum að samfélag okkar hagi sér gagnvart dýrum, jafnvel þeim sem við höfum tekið einhvers konar afstöðu gegn og varðar það hvernig við viljum kenna börnum okkar að umgangast dýr og villta náttúru.

Þá er á það að líta, og ég bið þingheim að fyrirgefa mér hvað ég er langorður um þetta en ég tel ástæðu til að fara vel yfir þessi mál, hvað við vitum um þetta dýr sem hingað kom fyrir 50--60 árum á okkar vegum og er í náttúrunni vegna þess að við gættum þess ekki að að hafa búrin nógu held eða stunda ekki yfir höfuð þennan hættulega landbúnað sem þarna var um að ræða. Það er ekki bara við afa okkar og ömmur að sakast heldur höfum við gert þetta sjálf. Við byrjuðum á þessu aftur síðar á síðustu öld og þá sluppu líka dýr og eru enn að sleppa sem auðvitað þýðir m.a. það að minkastofninn verður aldrei í jafnvægi, heldur koma nýir og nýir geðveikir einstaklingar inn í hann sem hafa lifað allan sinn aldur í búrum og eru þess vegna ekki hluti af villtum náttúrulegum stofni, hvernig sem við lítum svo á þann stofn. Við höfum í 50 ár verið að veiða þetta dýr og reyna að útrýma því. Það hefur ekki gengið og árangur er ákaflega óljós af því máli nema við vitum að hann var einkum á ákveðnum svæðum fyrst. Það er hægt að kortleggja það. Hann hefur farið út fyrir þau svæði og er að sækja á á öðrum svæðum. Það er árangurinn af okkar 50--60 ára starfi gegn minknum.

Við höfum varið miklu erfiði og ómældu fé þegar allt er saman talið, ég kann ekki þá tölu en menn geta bara ímyndað sér það, til að veiða þetta dýr en á sama tíma í þessa fimm eða sex áratugi eða hvað þeir eru margir höfum við varla sett krónu í neins konar rannsóknir á ástandi dýrsins eða lífsháttum þess. Við vitum í raun og veru ekki hvernig tjóni það veldur. Á ýmsan hátt byggjast hugmyndir okkar um það hvað þetta dýr er á þjóðsögum og hryllingssögum sem við höfum búið okkur til og eiga kannski frekar heima í sögusafni en í ritgerðum um náttúruvísindi.

Eftir öll þessi ár vitum við heldur ekki hvað dýrin eru mörg. Við vitum ekki hvort hér eru 10 þúsund minkar eða 70 þúsund minkar. Þó að við vitum nokkurn veginn, a.m.k. meðan þetta er á veiðikortum, hversu mörg dýr hér eru veidd höfum við ekki hugmynd um hve hátt hlutfall það er af minkastofninum. Þess vegna höfum við ekki grænan grun um það hvort við erum í raun og veru að gera gagn eða hvort við erum að vinna á ef markmiðið er það að útrýma þessu dýri eða hvort þetta er bara hreint fúsk og peningaeyðsla nánast út í bláinn. Þá á ég að vísu ekki við hinar skipulegu varnir, t.d. þegar verið er að verja æðarvörp eða önnur viðkvæm fuglasvæði sem hlýtur að vera gagnlegt þótt veiðarnar standi ekki á faglegum grunni.

Það hefur komið fram í fréttum að hér starfaði nefnd, minkanefndin, undir stjórn umhvrh. Hún mun hafa skilað frumvarpsdrögum sem hæstv. umhvrh. hefur hins vegar ekki komið með inn í þingið. Mér skilst að í þeim frumvarpsdrögum hafi verið lagt til að setja tæpan milljarð í minkaveiðar á næsta áratug án þess að þeir sem sömdu þessi frumvarpsdrög hafi í rauninni neinar vísindalegar eða fræðilegar forsendur til að geta skipulagt þær veiðar og séu þess vegna að leggja til fjáraustur --- við skulum kannski ekki kalla það fjáraustur heldur fjárveitingar --- án þess að árangur sé í augsýn. Slík ráð geta á hinn bóginn lent í fjáraustri þannig að ég vil hrósa umhvrh. fyrir það og hef kannski verið heldur spar á hrós við hæstv. umhvrh. fyrir að hafa ekki komið með þetta frv. inn á þingið. Þessi saga sýnir okkur hvað við höfum staðið okkur illa í þessum efnum, hvað við höfum farið vitlaust að gagnvart minknum og hvað við eigum lítið með það að setja inn svona ákvæði af því að okkur dettur það í hug og án þess að hafa kannað málið eða skapað í kringum þetta einhvern ramma.

Það vakna þess vegna margar spurningar um minkinn. Er hægt að útrýma minknum? Það er það sem við eigum að virða fyrir okkur á næstu árum. Er það hægt? Það getur verið að það sé hægt, ég hef ekki séð neinar rannsóknir um það. Ég hygg að þær séu ekki til. Ef það er hægt eigum við að athuga hvað það getur kostað og hvort við eigum að ráðast í það, hvort það spillir annarri náttúru eða hvort það borgar sig. Margir eru á því. Það er auðvitað alveg ljóst við fyrstu sýn að við vildum útrýma minknum. Á hitt ber að líta að minkurinn hefur a.m.k. á sumum svæðum þegar gert það ógagn sem hann gerir og útrýmt þeim fuglategundum sem hann útrýmir og komið öðrum til að breyta um hegðun þannig að þeir hafa flutt hreiðurstæði sín og búsvæði á þá staði sem minkurinn á erfiðara með að komast að. Þess vegna kunna að vera nokkrar spurningar á ferðinni. Ein er auðvitað sú hvort minkurinn sé með einhverjum hætti orðinn hluti af íslenskri náttúru, t.d. við sjávarsíðuna. Ég hef séð mink við suðurströndina og verð að segja að þetta er auðvitað þekkilegt dýr í sjálfu sér. Þetta er ekki ljótt dýr. Þetta er fagurt ... Nú grettir hv. þm. Kolbrún Halldórsdóttir sig en mér þykir þetta ekki ljót skepna í sjálfu sér þegar hann er ekki með hænu eða rjúpu í kjaftinum, hvað þá æðarfugl, heldur er að éta það sem hann gerir við sjávarströndina, fyrst og fremst marhnút og annað sjávarfang.

Síðan er auðvitað spurning hvort hægt sé, ef ekki er hægt að útrýma honum, að halda honum með skipulegum hætti, vísindalegum aðferðum og faglegri veiði frá tilteknum svæðum eða landshlutum þar sem við viljum sem sé ekki hafa hann en erum þó ekki að eyða peningum í tilgangslausar herferðir annars staðar. Þessar spurningar vakna.

Að lokum þetta: Ég hef verið langorður og biðst afsökunar á því en þetta hefur líka hlaðist upp í mér í vetur og reyndar með árunum. Á síðari hluta þingsins hefur verið takmarkaður tími til umræðu um þennan þátt í umhvn. Á hinn bóginn var brýnt að arnarákvæðin væru lögfest í vor í þessu frv. Umræða í þingsalnum hlýtur að verða takmörkuð af ástæðum sem ekki þarf að rekja, og ég tel sjálfur ekki vænlegt að efna að þessu sinni til neins konar átaka um þetta þar sem tækifæri gefst ekki til nauðsynlegra rökræðna sem gætu verið undanfari ákvörðunar eða niðurstöðu með atkvæðagreiðslu í þessu efni. Þess vegna kýs ég að skila af mér þessari ræðu minni hér sem fyrirvara við atkvæði mitt sem fellur með þessu frv. í heild sinni. Ég geri líka ráð fyrir að bæði af minni hálfu og af hálfu ráðuneytisins og annarra þeirra sem þetta mál varðar muni von á meiri vinnu á næstunni, vonandi í sumar, a.m.k. næsta vetur um þetta dýr og stöðu þess í íslenskri náttúru í heild sinni og þá verður þetta ákvæði auðvitað að vera undir líka.