Vernd, friðun og veiðar á villtum fuglum og spendýrum

Fimmtudaginn 27. maí 2004, kl. 20:45:06 (9269)

2004-05-27 20:45:06# 130. lþ. 129.20 fundur 594. mál: #A vernd, friðun og veiðar á villtum fuglum og spendýrum# (ernir, hreindýr, stjórnsýsla o.fl.) frv. 94/2004, JBjarn
[prenta uppsett í dálka] 129. fundur, 130. lþ.

[20:45]

Jón Bjarnason:

Frú forseti. Hér er verið að ræða frv. til laga um breytingu á lögum um vernd, friðun og veiðar á villtum fuglum og villtum spendýrum, með síðari breytingum.

Megininntak frv. lýtur að tvennu, annars vegar að erninum, stöðu hans, verndun og sess hans í lífríkinu og hvernig við stöndum vörð um það og svo hins vegar veiðum á mink eða öðrum slíkum skaðvaldi.

Ég vil fyrst nefna það, frú forseti, að kannski er ég vanhæfur til að tala um málið því að ég hef alist upp með örninn í túninu. Það var örn sem varp fyrir utan túnið hjá okkur í Bjarnarhöfn árum saman og gerir enn. Fyrstu rannsóknir sem voru gerðar á örnum, vísindalegar rannsóknir sem dr. Finnur Guðmundsson gerði á örnum, voru einmitt gerðar á þessum fuglum. Dr. Finnur gerði sér leyniból alveg við arnarhreiðrið til að geta myndað og rannsakað lífshætti arnarins. Hann hefur síðan gefið rannsóknir sínar út bæði í myndum og í riti. Fyrir krakka var spennandi að fara með honum og fá að fylgjast með þessu. Hann var þarna á hverju vori í 3--4 ár og fylgdist með uppeldinu. Þetta var sem sagt fyrsti grunnur að vísindalegum rannsóknum á erni.

Ég er þá líka uppalinn við það og nú hin síðari ár að það er talið nánast öruggt að í næsta nágrenni bæjarins sér maður örn á flugi. Þarna er rekin ferðaþjónusta núna og það er meðal aðdráttaraflsins fyrir ferðafólk að það eru miklar líkur á að sjá örn. Það er gríðarlega tígulegt að sjá þennan stóra fugl hefja sig til flugs. Hann er yfirleitt spakur, frekar manngæfur, hefur oft gaman af að vera í námunda við fólk og fylgir því oft eftir þegar verið er að fara um. Ég man að þegar ég fór ríðandi að leita kinda var mér að vísu um og ó en örninn fylgdi manni oft, var í einhverri ákveðinni fjarlægð. Örninn er búinn að vera hluti af því náttúrusamfélagi sem ég hef alist upp með og ég virði hann mikils.

Þetta vildi ég segja í upphafi, bæði til að lýsa vanhæfni minni en líka brennandi áhuga á þessu máli.

Auk þess snertir þetta líka lífríki Breiðafjarðar og umgengni þess. Hið gríðarlega fjölbreytta og magnþrungna lífríki Breiðafjarðar er alveg einstætt. Örninn er bara hluti af því. Mér finnst í sjálfu sér hæpin nálgun þegar verið er að krukka í einn þátt þessa gríðarlega lífríkis eins og verið er að gera með þessum hætti án þess að horfa á neina heildarmynd. Ég vona að þetta frv. skaði það samt ekki en sýnin sem verið er að nálgast þetta mál á er að mínu viti allt of þröng. Hún er teknókratísk, hún er svona týpísk skrifstofumennska í umgengni við náttúruna sem við upplifum í allt of ríkum mæli eins og hæstv. landbrh. veit. Hann hefur verið talsmaður náttúrunnar og fegurðarinnar um íslenskar sveitir og það verður ekki sett utan um hana strik með reglustiku á skrifborði kontórista. Þetta veit hæstv. ráðherra.

Gerð hefur verið tilraun til að búa til heildstæða umgjörð um lífríki Breiðafjarðar eins og hæstv. ráðherra veit. Þetta mál ætti kannski að heyra undir hæstv. landbrh. Ég er í alvöru þeirrar skoðunar, þrátt fyrir allt. En lög hafa verið sett um vernd Breiðafjarðar sem líka lýtur umhvrh. og í þeim lögum um vernd Breiðafjarðar stendur, með leyfi forseta:

,,Tilgangur laga þessara er að stuðla að verndun Breiðafjarðar, einkum landslags, jarðmyndana, lífríkis og menningarminja.`` --- Þessi lög taka á öllum þeim verkefnum sem hér er verið að fjalla um. Í þeim er kveðið á um skipan nefndar. --- ,,Umhverfisráðherra fer með stjórn mála er varða vernd Breiðafjarðar samkvæmt lögum þessum.``

Hér erum við að búa til hreinan tvíverknað í lagaumgjörð og ég spyr hæstv. umhvrh.: Vissi ráðherrann ekki að þessi lög um vernd Breiðafjarðar væru til? Ég fer að draga það í efa. Þegar ég les greinar þess frv. sem hér er til meðhöndlunar dreg ég í efa að hæstv. ráðherra hafi vitað af því að til væru lög um vernd Breiðafjarðar. Þau taka yfir eiginlega öll þessi verkefni sem þarna er verið að fjalla um á Breiðafjarðarsvæðinu. Þar er líka kveðið á um hvernig hún skuli vera bökkuð upp faglega. Hún á að vera bökkuð upp af Náttúrufræðistofnun, náttúrustofu Vestfjarða og náttúrustofu á Vesturlandi þannig að það er alveg ljóst hvernig hún er bökkuð upp faglega. Er ekki meira að gera í ráðuneytunum en svo að menn geti stundað tvíverknað, búið til lög á lög ofan um sömu þættina bara til að gera þá flóknari og fjarlægari þeim sem á vettvangi eru? Það er a.m.k. mín tilfinning gagnvart þeirri lagasetningu sem hér er um að ræða. Í lögum um vernd Breiðafjarðar stendur, með leyfi forseta:

,,Nefndin [sem fer með þetta umboð umhvrh.] skal í samráði við sveitarfélögin láta gera verndaráætlun þar sem fram kemur hvernig ná skuli þeim markmiðum sem sett eru með vernd svæðisins. Áætlun þessi skal send ráðherra til staðfestingar.``

Það er unnið að þessari áætlun og hæstv. ráðherra ætti að vita það. Verið er að taka á öllum þessum þáttum sem hér er verið að fjalla um. Mér finnst þess vegna þetta frv. sem hér er --- ég tek viljann fyrir verkið og hygg að þeir sem staðið hafa að því að leggja það fram hafi ekki meint í sjálfu sér neitt slæmt. En vettvangur til að taka á þessu máli er þegar fyrir hendi og þegar menn koma með hann með tvöföldum hætti er bara verið að ala á tortryggni ef eitthvað er.

Forstöðumaður náttúrustofu Vesturlands í Stykkishólmi hefur verið faglegur ráðunautur hjá Breiðafjarðarnefnd. Ég vil spyrja hæstv. ráðherra hvort hann hafi ekki velt því fyrir sér eða hvort ráðherrann geti ekki beitt sér fyrir því að verkefni þetta, þar á meðal eftirlit með erninum og lífríki Breiðafjarðar, verði fellt undir umsvif og ráðgjöf náttúrustofunnar í Stykkishólmi. Það er svo einboðið að mínu viti. Það er nú þegar náið samstarf á milli náttúrustofu í Stykkishólmi og Breiðafjarðarnefndar og ætti að styrkja það. Það ætti að styrkja þann faglega bakgrunn og starf náttúrustofunnar í Stykkishólmi til að axla ábyrgð eða vinna með að náttúruvernd í Breiðafirði. Þetta er svo gríðarlegt lífríkis- og hagsmunamál. Að láta það vera undir umsjón stofnunar í Reykjavík er að lengja arminn og gera hann veikari og ómarkvissari.

Frú forseti. Ég tel þetta vera alveg gríðarlega mikið mál. Lífríki Breiðafjarðar er ein af perlum þessa lands. Þetta er líka atvinnumál fyrir þá sem þar búa og kunna að umgangast það.

Eitt aðalvandamálið þar er einmitt þegar kemur fólk sem er búið að kaupa upp jarðir eða eyjar og kann ekki að umgangast lífríkið, fer um allt á spíttbátum með hávaða og skýtur í allar áttir. Ég þekki það, ég hef séð það. Ég man að þegar faðir minn var á bátnum hægði hann alltaf og lét vélina dóla að eynni en núna fara menn með eins miklum hávaða og þeir geta, finnst manni a.m.k. stundum. Eiginlega ætti að setja þær kvaðir á menn að þeir fengju ekki að eignast eða fara með þessa náttúruperlu nema hafa farið á námskeið. Menn verða að fara á skotvopnanámskeið. Það mætti kannski kenna þeim að umgangast slík svæði. Menn verða að læra á bíl til að mega aka úti í umferðinni. Eins ættu menn að fá að fara á námskeið til að mega fara með náttúruperlueyjar í lífríki Breiðafjarðar. Menn mega ekki hegða sér eins og þeir séu komnir þar í villtan bófahasar eins og við upplifum stundum. Á þessu ætti að taka en ekki að vera að sýna íbúum, bændum og þeim sem hafa lifað með lífríki Breiðafjarðar um áratugi og aldir eitthvert vantraust eins og gæti falist í þeirri umfjöllun sem þetta frv. lýtur að.

Frú forseti. Ég get svo sem látið gott heita í bili. Ég vil ítrekað vekja athygli bæði hv. umhvn. og hæstv. ráðherra á að það er til nokkuð sem heitir lög um vernd Breiðafjarðar sem taka á öllum þeim þáttum sem þetta frv. kveður á um á Breiðafirði. Að mínu viti eru þetta furðuleg vinnubrögð, óttalegur tvíverknaður. Bæði þessi lög heyra undir hæstv. umhvrh. og ég hélt að ráðherrann hefði eitthvað annað þarfara að gera en að vera að óverlappa lögin sín með lögum á lög ofan. (Gripið fram í: Óverlappa?) Já, það heitir að yfirlappa, leggja löppina upp á hina löppina eins og verið er að gera með þessum lögum.

Frú forseti. Það á að sýna lífríki Breiðafjarðar mikla virðingu. Lífríki Breiðafjarðar verður ekki verndað, nýtt og varið nema af því fólki sem þar er og býr og það á að styrkja traust og samstarf við þá aðila um verndun þessa mikla lífríkis.

Ég ítreka spurningu mína til hæstv. umhvrh.: Hefur ráðherrann ekki áttað sig á að það eru til lög um verndun Breiðafjarðar sem heyra undir umhvrh.? Það virðist ekki vera að ráðherrann átti sig á því. Í öðru lagi: Mun ráðherra beita sér fyrir því að verkefni sem lúta að þessum verndunaraðgerðum sem bæði þessi lög, lög um verndun Breiðafjarðar, taka til og eins líka frv. til laga um vernd og veiðar á villtum fuglum sem við erum að fjalla um verði falin fyrstu handar forsjá náttúrustofunnar í Stykkishólmi sem gæti síðan starfað með íbúum á svæðinu og Breiðafjarðarnefnd eins og reyndar er þegar í gangi? Það er alveg ótækt að einhver óvissa sé um það hver á að vera þarna faglegur ráðgjafi og þessi mál eru langbest komin í höndum heimaaðila, náttúrustofunnar í Stykkishólmi, íbúanna, bænda og samtaka þeirra og landeigenda á Breiðafirði eins og lög um vernd Breiðafjarðar kveða á um.