Náttúruverndaráætlun 2004--2008

Fimmtudaginn 27. maí 2004, kl. 21:24:50 (9273)

2004-05-27 21:24:50# 130. lþ. 129.21 fundur 477. mál: #A náttúruverndaráætlun 2004--2008# þál. 28/130, KolH
[prenta uppsett í dálka] 129. fundur, 130. lþ.

[21:24]

Kolbrún Halldórsdóttir:

Frú forseti. Við ræðum hér mál sem sum okkar a.m.k. erum búin að bíða lengi eftir að liti dagsins ljós því að í lögum um náttúruvernd, nr. 44/1999, er getið um að á næstu fimm árum skuli unnið að gerð náttúruverndaráætlunar sem þessarar. Við höfum satt að segja mörg hver verið óþreyjufull og fögnuðum því verulega þegar skýrslan stóra leit dagsins ljós frá Umhverfisstofnun þar sem 75 svæðum er lýst sem ákjósanlegum svæðum til að njóta verndar eða friðlýsingar samkvæmt lögum. Ég tek því undir orð formanns umhvn., hv. þm. Sigríðar Önnu Þórðardóttur, þegar hún segir að þetta sé langþráð mál og hafi verið gaman og gjöfult að vinna að því. Ég tek sömuleiðis undir þakkir hennar og vil þakka henni fyrir hvernig hún hefur stýrt vinnunni því að hún hefur gert það af mikilli skynsemi og röggsemi, eins og hennar er von og vísa.

Á hitt ber samt að líta að ég er ekki alls kostar ánægð með niðurstöðuna. Það helgast ekki af því að ég sé ekki sátt við þau 14 svæði sem við ákveðum að setja undir þessa fyrstu náttúruverndaráætlun. Það sem fyrirvari minn við þetta mál lýtur að er þau svæði önnur sem verið er að vinna að friðlýsingu á en fá einhverra hluta vegna ekki að heyra undir þessa náttúruverndaráætlun.

Í nefndarálitinu kemur fram að á undaförnum árum hafi verið unnið að friðlýsingu ýmissa svæða, ýmist að beiðni umhvrn., sveitarfélaga eða ýmissa félagasamtaka. Þar eru nefnd þau helstu sem eru Vatnajökull, Hekla, Krossanesborgir við Akureyri, Gerpissvæðið, Orravatnsrústir, Snæfells- og Vesturöræfi, Þingey og Skuldaþingey í Skjálfandafljóti og Hraun í Öxnadal. Við fengum upplýsingar inn í nefndina um þessa vinnu og hvar hún væri stödd. Við öfluðum okkur frekari upplýsinga en þeirra sem bárust til okkar inn á skrifborð nefndarinnar og fundum það út eða ég vil meina að ég hafi fundið það út í öllu falli að þar séu upplýsingar nokkuð misvísandi.

Þannig vil ég nefna sérstaklega til sögunnar Gerpissvæðið sem ég hef sjálf lagt mikla áherslu á að falli undir þessa náttúruverndaráætlun. Ég gerði það strax við 1. umr. þessa máls og fékk þá að heyra hjá hæstv. umhvrh. að til stæði að friðlýsa Gerpissvæði og sú vinna væri langt komin. Þær sömu upplýsingar komu inn í nefndina eftir öðrum leiðum. Sömuleiðis heyrðum við samt frá heimafólki að lítið virtist vera í gangi í því máli. Heimamenn á Austfjörðum sem bera hag Gerpissvæðisins fyrir brjósti vildu gjarnan að það fengi þá náð að fara hér undir náttúruverndaráætlunina.

Það sem ég hef ekki fengið viðhlítandi svör við er það hvers vegna verið sé að keyra tvö ólík kerfi hvað varðar friðlýsingarnar. Hvernig stendur á því að nokkur fjöldi svæða sem Umhverfisstofnun er, eftir því sem við heyrum, þegar búin að hefja vinnu við friðlýsingu á fær ekki að njóta sömu stöðu og þau 14 svæði sem við hér fjöllum um? Hvers vegna fá þau ekki að heyra náttúruverndaráætlun til sem er formlegt stefnumörkunarplagg stjórnvalda um friðlýsingarmál? Ég hef enn ekki fengið svör við þessum spurningum mínum og þess vegna geri ég þennan fyrirvara við málin.

Ég tel Gerpissvæðið falla fyllilega undir meginmarkmið þessarar náttúruverndaráætlunar, þ.e. fuglaverndarmarkmiðin. Á Gerpissvæðinu er að finna afar sjaldgæfa fuglategund sem er bjargdúfan og það er meira að segja mjög ákjósanlegt á þessu svæði að skoða hana og rannsaka lífshætti hennar. Það væri afar merkilegt ef við næðum að friða Gerpissvæðið og þá sé ég ekki hvers vegna það má ekki gefa því sama status og þeim öðrum svæðum sem hér eru talin upp.

Annað landsvæði sem ég vil nefna er stækkun Þjórsárverafriðlands. Nú er getið um það í stóru skýrslunni sem Umhverfisstofnun gaf út og kynnt var á umhverfisþingi sl. haust að Umhverfisstofnun telji að stækka beri Þjórsárverafriðlandið svo að hin landfræðilegu mörk Þjórsárvera fái notið sín öll sem ein heild undir friðlýsingu en ekki eins og nú er þar sem verndarmörkin eru dregin eftir ákveðnum hagsmunum orkufyrirtækis sem, eins og við vitum, hefur ásælst vatnið úr Þjórsá og upptakakvíslum hennar til virkjanaframkvæmda.

Ég tel í ljósi þess sem á undan er gengið í orkumálum, ásælni Landsvirkjunar í ósnortin landsvæði, hefði verið verulegur sómi að því að láta stækkun Þjórsárverafriðlands heyra þessari náttúruverndaráætlun til.

Mér finnast engin rök í því máli að stækkun Þjórsárverafriðlands skuli ekki hafa fengið að falla undir þessa náttúruverndaráætlun. Ég hefði talið það vera góðan, fagran bautastein fyrir fráfarandi umhvrh., Siv Friðleifsdóttur hæstv. umhvrh., ef hún hefði látið til leiðast og leyft stækkun Þjórsárverafriðlands undir þessari náttúruverndaráætlun. En hæstv. ráðherra kýs að gera ekki svo. Mér finnst það vera mjög miður.

Hinu ber að fagna að hv. formaður umhvn. sem, eins og okkur er kunnugt, er væntanlegur næsti umhvrh. hefur boðað það að umhvn. muni heimsækja Þjórsárverafriðland í sumar. Ég treysti því að við finnum hentugan tíma þannig að nefndin geti farið og skoðað svæðið. Það væri þá reyndar í annað sinn sem sú sem hér stendur færi í Þjórsárverafriðland í fylgd umhvn. Alþingis en ég hef fulla löngun til þess og sannarlega nægan skerf af þolinmæði til að fara enn einu sinni í Þjórsárverafriðland með þeirri umhvn. sem nú starfar. Ég treysti því að við komumst þangað og getum þá líka látið verða af því að hitta áhugahóp um friðun Þjórsárvera. Hann hefur verið að óska eftir því að hitta umhvn. í allan vetur og því miður hefur ekki reynst svigrúm eða tími til að hitta það ágæta baráttufólk. Við fáum kannski að hitta það fólk í heimabyggð í Gnúpverjahreppi í sumar. Ég treysti því.

Þá treysti ég því líka að þegar hv. umhvn. verður búin að fara um svæðið og hitta áhugasamt heimafólk sjái umhvn. Alþingis sóma sinn í því að slá skjaldborg um Þjórsárverin í heild sinni og sjái til þess að virkjanahagsmunir víki af því svæði. Eins og ég segi hefði mér fundist það slík rausn af þeim umhvrh. sem nú starfar að ljúka ferli sínum með því. Jafnframt lýsi ég yfir vonbrigðum mínum yfir því að kjarkur eða afl hafi þrotið á þeirri leið.

Að öðru leyti vil ég segja að ég fagna ákaflega þeim svæðum sem hér eru tilnefnd. Ég hefði gjarnan viljað sjá reyndar fjallað um friðland í Herdísarvík, Brennisteinsfjöll í Herdísarvík sem getið er um í náttúruverndaráætluninni. Við verðum að átta okkur á því að háhitasvæðin okkar eru líka undir ógn orkufyrirtækjanna sem hafa ásælst verulega öll háhitasvæðin á landinu, eru búin að fá heimildir fyrir rannsóknarborholum, að mínu mati ótæpilega mörg leyfi því að við vitum að þegar orkufyrirtækin eru komin inn á þessi svæði gerist það ævinlega með þeim hætti að þau fara inn á mitt svæðið og búa þar til púða eða pall fyrir borstæði. Bara það eitt að bora rannsóknarholu er ævarandi skemmd á svæðunum. Við höfum því miður ekki borið gæfu til þess að forgangsraða hvað varðar verndun á háhitasvæðunum okkar hingað til. Orkugræðgin hefur verið þvílík. Ég tel líka að nýleg lagasetning í raforkumálum hafi orsakað það að orkufyrirtækin hafi nánast fengið veiðileyfi á öll þessi svæði, þeim hafi beinlínis verið att út í samkeppnina um orkutækifærin og þess vegna séu háhitasvæðin okkar undir þeirri ógn að orkufyrirtækin ásælist þau öll sem eitt.

Auðvitað eigum við og ekki hvað síst hæstv. umhvrh. og umhvn. Alþingis að slá skjaldborg um einhver þau svæði og segja bara: Hingað og ekki lengra. Einhver þeirra verður að vernda fyrir ásælni orkufyrirtækjanna. En það hefur heldur ekki reynst nægur kjarkur í núverandi ríkisstjórn eða hæstv. umhvrh. til að gera slíkt. Mér þykir það mjög miður.

Þó að ég fagni í heild sinni því að þessi áætlun skuli hafa litið dagsins ljós og við skulum nú vera komin að því að samþykkja hana --- ég kem auðvitað til með að veita henni brautargengi með samþykki mínu þó að ég hafi afar harðan fyrirvara á --- verður að hafa það í huga að menn fá víst ekki allt sem æskilegt er. Hér hefði getað verið rismeiri afgreiðsla en raun ber vitni, hæstv. forseti.