Búnaðarfræðsla

Fimmtudaginn 27. maí 2004, kl. 22:28:12 (9280)

2004-05-27 22:28:12# 130. lþ. 129.24 fundur 879. mál: #A búnaðarfræðsla# (Landbúnaðarháskóli Íslands) frv. 71/2004, Frsm. meiri hluta DrH
[prenta uppsett í dálka] 129. fundur, 130. lþ.

[22:28]

Frsm. meiri hluta landbn. (Drífa Hjartardóttir):

Hæstv. forseti. Ég mæli fyrir nál. frá meiri hluta landbn. um frv. til laga um breytingu á lögum um búnaðarfræðslu, nr. 57/1999, með síðari breytingum.

Nefndin hefur fjallað um málið og fengið á sinn fund fjölmarga aðila og gesti sem tilgreindir eru í nál. Eins hafa nefndinni borist margar umsagnir og eru umsagnaraðilar jafnframt tilgreindir í nál.

Málið var unnið samhliða frv. til laga um breytingu á lögum um rannsóknir í þágu atvinnuveganna, nr. 64/1965, með síðari breytingum, mál nr. 878, sem var hér til umræðu áðan.

Með frumvarpinu eru lagðar til breytingar á skipulagi búnaðarfræðslu í landinu, sér í lagi breytingar á æðstu stjórn Landbúnaðarháskólans á Hvanneyri og er nafni skólans breytt í Landbúnaðarháskóla Íslands.

Meiri hlutinn leggur til nokkrar breytingar á frumvarpinu sem leiðir af tillögu nefndarinnar um að Garðyrkjuskólinn verði sameinaður hinum nýja Landbúnaðarháskóla Íslands.

Lagt er til að fjölgað verði um tvo fulltrúa í háskólaráði hinnar nýju stofnunar þannig að starfsmenn tilnefni einn og nemendur einn en þá tilhögun telur meiri hlutinn koma hinni nýju stofnun vel og auka samstöðu og samvinnu allra þessara fulltrúa. Meiri hlutinn leggur auk þess til þá breytingu á frumvarpinu að háskólaráð verði skipað til tveggja ára í senn í stað fjögurra en þessi tilhögun og breytingin á tilnefningum fulltrúa í stjórn eru í samræmi við lög um háskóla, nr. 136/1997. Þá er einnig lagt til að háskólaráð verði skipað frá 1. júlí 2004 en að landbúnaðarráðherra skipi formann háskólaráðs tímabundið og skal hann ásamt háskólaráði undirbúa framkvæmd þessara breytinga. Ráðherra skipi rektor frá 1. ágúst 2004 að fenginni umsögn háskólaráðs.

Meiri hlutinn leggur áherslu á að yfirstjórn Landbúnaðarháskóla Íslands verði áfram á Hvanneyri þótt ekki sé kveðið á um staðsetningu skólans í frumvarpinu, enda skólinn með starfsstöðvar á nokkrum stöðum á landinu. Þá telur meiri hlutinn eðlilegt að við mótun skipulags Landbúnaðarháskóla Íslands verði starfseminni deildaskipt.

Leggur meiri hlutinn áherslu á að með breytingunum er stigið fyrsta skrefið í átt að enn frekari sameiningu eða víðtækara samstarfi þeirra skóla og stofnana sem starfa á sviði landbúnaðar við kennslu, rannsóknastörf og leiðbeiningarþjónustu. Telur meiri hlutinn að sameiningin efli landbúnaðinn í heild og leggur áherslu á að áfram verði unnið að hugmyndum um frekari sameiningu.

Með frumvarpinu er ekki verið að breyta stöðu Hólaskóla en meiri hlutinn telur ástæðu til að farið verði sérstaklega yfir stöðu og málefni hans eins og ábendingar komu fram um á fundum nefndarinnar.

Meiri hlutinn leggur til að frumvarpið verði samþykkt með breytingum sem lagðar eru til í sérstöku þingskjali og ég mun fara yfir á eftir.

[22:30]

Undir nál. rita Drífa Hjartardóttir, Magnús Stefánsson, Kjartan Ólafsson, Guðmundur Hallvarðsson og Þórarinn E. Sveinsson.

Breytingartillögurnar eru þessar, með leyfi forseta:

,,1. Við 1. gr. Greinin orðist svo:

1. gr. laganna orðast svo:

Lög þessi taka til menntastofnana landbúnaðarins sem eru Landbúnaðarháskóli Íslands og Hólaskóli, Hólum í Hjaltadal.``

Þarna er nefndin að festa Hólaskóla í Hjaltadal. Það var mikil ósk þeirra Hólamanna að það yrði gert og varð nefndin við þeirri ósk.

,,2. Við 2. gr. Greinin orðist svo:

2. mgr. 4. gr. laganna orðast svo:

Landbúnaðarráðherra skipar búfræðsluráð til fjögurra ára í senn. Búfræðsluráð skal skipað átta fulltrúum: rektor Landbúnaðarháskóla Íslands, skólameistara Hólaskóla, tveimur fulltrúum tilnefndum af menntamálaráðherra, einum fulltrúa kjörnum af búnaðarþingi og tveimur fulltrúum kennara tilnefndum af félagi þeirra, auk formanns sem landbúnaðarráðherra skipar án tilnefningar.

3. Við 5. gr. Greinin orðist svo:

21. gr. laganna orðast svo:

Landbúnaðarháskóli Íslands er vísindaleg fræðslu- og rannsóknastofnun á háskólastigi á sviði landbúnaðar og garðyrkju sem veitir nemendum sínum fræðslu og vísindalega þjálfun er miðast við að þeir geti tekið að sér sérfræði- og rannsóknastörf í þágu íslensks landbúnaðar og garðyrkju.

4. Við 7. gr.

a. Í stað orðsins ,,Háskólarektor`` í 1. tölul. 1. efnismgr. komi: Rektor.

b. Við 1. efnismgr. bætist tveir nýir töluliðir, svohljóðandi:

7. Einn fulltrúi tilnefndur af starfsmönnum stofnunarinnar.

8. Einn fulltrúi tilnefndur af nemendum.

5. Við 9. gr. A-liður orðist svo: Í stað orðanna ,,samkvæmt tilnefningu háskólaráðs`` komi: að fenginni umsögn háskólaráðs.

6. Við 11. gr. Greinin orðist svo:

28. gr. laganna orðast svo:

Við Landbúnaðarháskóla Íslands skal starfrækja sérstakar búnaðarnámsbrautir og sérstakar starfsmenntanámsbrautir á sviði garðyrkju. Heimilt er að ráða að búnaðar- og starfsmenntanámsbrautum skólans kennara sem ekki uppfylla skilyrði til háskólakennslu skv. 27. gr.

Um yfirstjórn búnaðar- og starfsmenntanáms í Landbúnaðarháskóla Íslands fer eftir ákvæðum 22. og 23. gr. og er rektor skólans jafnframt yfirmaður þess.``

Í 7. lagi er það 14. gr. og það er aðallega lagahreinsun. Orðið ,,Hólaskóli`` verður Hólum í Hjaltadal og er sú breyting bara til að skýra það og hreinsa það til.

,,8. Ákvæði til bráðabirgða orðist svo:

Störf hjá Landbúnaðarháskólanum á Hvanneyri, Garðyrkjuskóla ríkisins að Reykjum í Ölfusi og Rannsóknastofnun landbúnaðarins eru lögð niður við gildistöku laga þessara. Starfsfólki framangreindra stofnana skulu boðin störf hjá Landbúnaðarháskóla Íslands.

Þrátt fyrir ákvæði 17. gr. laga þessara skal skipa nýtt háskólaráð frá 1. júlí 2004, eftir ákvæðum 7. gr. laga þessara, þó þannig að í stað rektors skipar landbúnaðarráðherra tímabundið formann háskólaráðs uns rektor Landbúnaðarháskóla Íslands hefur verið skipaður.

Þrátt fyrir ákvæði 17. gr. laga þessara skal skipa rektor Landbúnaðarháskóla Íslands frá 1. ágúst 2004 og skal hann ásamt háskólaráði undirbúa framkvæmd laga þessara.

Við gildistöku laga þessara tekur Landbúnaðarháskóli Íslands við öllum eignum og skuldbindingum Landbúnaðarháskólans á Hvanneyri, Garðyrkjuskóla ríkisins og Rannsóknastofnunar landbúnaðarins.

Nemendur sem við gildistöku laga þessara stunda nám í Landbúnaðarháskólanum á Hvanneyri og Garðyrkjuskóla ríkisins eiga rétt á að ljúka námi samkvæmt gildandi námsskipulagi skólanna við gildistöku laganna. Nemendur geta þó lokið prófum samkvæmt nýju skipulagi ef þeir kjósa svo.``