Búnaðarfræðsla

Fimmtudaginn 27. maí 2004, kl. 22:40:11 (9285)

2004-05-27 22:40:11# 130. lþ. 129.24 fundur 879. mál: #A búnaðarfræðsla# (Landbúnaðarháskóli Íslands) frv. 71/2004, Frsm. 1. minni hluta AKG
[prenta uppsett í dálka] 129. fundur, 130. lþ.

[22:40]

Frsm. 1. minni hluta landbn. (Anna Kristín Gunnarsdóttir):

Frú forseti. Það er álit þeirra sem gengið hafa á fund landbn. að sameining Landbúnaðarháskólans á Hvanneyri, Rannsóknastofnunar landbúnaðarins og Garðyrkjuskóla ríkisins að Reykjum sé tímabær. Undir það taka fulltrúar Samf. í landbn. Sameining stofnana er vandasamt verk og mikið í húfi að vel takist til, bæði hvað varðar framtíðarskipulag og þau rannsóknarverkefni sem unnið er að. Sá skortur á samráði sem komið hefur í ljós í undirbúningsferlinu er því áhyggjuefni. Fulltrúar Samf. í landbn. leggja til að frv. til laga um búnaðarfræðslu verði breytt samkvæmt tillögum á sérstöku þingskjali.

Í lögum um háskóla, nr. 136/1997, er í IV. kafla kveðið á um stjórn ríkisháskóla, þar með talið skipan háskólaráðs, verkefni þess og valdsvið, og skipan rektors og valdsvið hans. Fyrirhuguð skipan háskólaráðs Landbúnaðarháskóla Íslands er allfrábrugðin því sem kveðið er á um í rammalögum um háskóla. Í frumvarpinu eru áhrif fagráðuneytis og hagsmunasamtaka mun veigameiri en almennt gerist um háskóla og áhrif kennara og nemenda að sama skapi minni.

Þá ber Háskóla Íslands að tilnefna fulltrúa í háskólaráð en ekki finnast önnur dæmi þess að óskyldur háskóli tilnefni fulltrúa í æðstu stjórn annars háskóla. Háskólaráð Háskóla Íslands er að meiri hluta til skipað fulltrúum nemenda og kennara. Verður að teljast einkennilegt að nemendur og kennarar skólans séu orðnir aðilar að stjórn Landbúnaðarháskóla Íslands sem ekki var ætlunin að hefði á að skipa fulltrúum sinna eigin nemenda og kennara í háskólaráði. Breytingartillaga meiri hlutans gerir að vísu ráð fyrir að nemendur og kennarar Landbúnaðarháskólans fái skipaðan sinn fulltrúann hvorir í háskólaráð.

Ein aðalnýjungin í starfsemi Landbúnaðarháskólans á Hvanneyri, Landbúnaðarháskóla Íslands eftir breytinguna, lýtur að umhverfisþáttum, landnýtingu og skipulagi. Þykir 1. minni hluta því eðlilegt að fulltrúar umhverfisráðuneytis og Sambands íslenskra sveitarfélaga eigi fulltrúa í háskólaráði og leggur Samfylkingin til breytingu við 7. gr. frv. um skipan háskólaráðs.

Í breytingarfrumvarpi um búnaðarfræðslu er fellt út ákvæði um að háskólaráð sé æðsti ákvörðunaraðili innan skólans. Þetta samræmist ekki rammalögum um háskóla. Samfylkingin leggur til að frumvarpinu verði breytt til samræmis við það sem tíðkast í öðrum háskólum á Íslandi.

Í 15. gr. frv. er lagt til að ráðherra geti sett sérstaka reglugerð um rannsóknasvið Landbúnaðarháskólans.

Frumvarpsgreinin er svona, með leyfi forseta:

,,Við 37. gr. laganna bætist ný málsgrein, svohljóðandi:

Landbúnaðarráðherra setur með reglugerð nánari ákvæði um skipulag og starfsemi rannsóknasviðs Landbúnaðarháskóla Íslands.``

Athugasemdir við hana eru svona, með leyfi forseta:

,,Gert er ráð fyrir því að landbúnaðarráðherra geti sett reglugerð sérstaklega um rannsóknasvið Landbúnaðarháskólans. Með þessu ákvæði kemur fram ákveðin sérstaða rannsóknasviðsins umfram önnur svið sem ekki er sérstaklega getið um í lögunum, heldur eru háð því skipulagi sem rektor og háskólaráð móta hverju sinni.``

Ég vil taka fram í þessu sambandi að ég lít svo á að hér sé verið að leggja áherslu á sérstöðu rannsóknasviðsins sem hafi vegna þessa ákvæðis annars konar stöðu gagnvart háskólaráði og rektor en önnur svið skólans. Ég vil hins vegar í fyrsta lagi taka fram að ég lít svo á að ráðherra setji þessa reglugerð í fullu samráði við rektor og háskólaráð auk starfsmanna deildarinnar.

Í öðru lagi leggjum við áherslu á orðalagið ,,skipulag og starfsemi`` í frumvarpsgreininni. Um er að ræða hinn ytri ramma um störf rannsóknasviðsins, boðvald, skipurit og formlegan verkferil en hér er að okkar áliti alls ekki um að ræða heimild fyrir ráðherra til neins konar afskipta af rannsóknunum sjálfum, inntaki þeirra eða starfsháttum við þær. Allt slíkt eiga starfsmenn rannsóknasviðsins sjálfir að ákveða.

Í 5. gr. laga um háskóla er fjallað um rannsóknir við háskóla. Í 2. tölul. 5. gr. er hlutverk ráðherra --- menntamálaráðherra í þessu tilfelli --- skilgreint á eftirfarandi hátt, með leyfi forseta:

,,Með hvaða hætti hver háskóli sem hefur rannsóknahlutverk skuli uppfylla skyldur sínar um eftirlit með gæðum rannsóknanna og nýtingu þeirra fjármuna sem fara til rannsókna.``

Samfylkingin telur að í þessu efni sem öðrum eigi skipan mála hjá Landbúnaðarháskóla Íslands að vera með sama hætti og hjá öðrum ríkisháskólum og landbúnaðarráðherrann hafi því ekki önnur afskipti af rannsóknum en að setja skilyrði um skyldur um eftirlit með gæðum rannsóknanna og nýtingu fjármuna sem til þeirra fara. Við samþykkjum þessa grein í því trausti að sá skilningur sé réttur og ég óska þess að framsögumaður meiri hlutans taki undir þann skilning úr ræðustóli.

Í 25. gr. laga um búnaðarfræðslu, nr. 57/1999, er kveðið á um að landbúnaðarráðherra skipi rektor til fimm ára samkvæmt tilnefningu háskólaráðs og skuli staðan auglýst laus til umsóknar. Þar eru einnig gerðar kröfur um æðri prófgráðu við háskóla og stjórnunarreynslu. Í umræddu frumvarpi er hins vegar fellt út ákvæði um að háskólaráð skuli tilnefna háskólarektor og landbúnaðarráðherra fært sjálfdæmi í málinu. Jafnframt er fellt út ákvæði um að rektor verði ekki leystur frá störfum án þess að það sé borið undir háskólaráð og hljóti samþykki þess. Sú skipan mála sem gert er ráð fyrir í frumvarpinu tíðkast ekki við neinn annan ríkisháskóla á Íslandi en þar er í öllum tilfellum kveðið á um að ráðherra skipi rektor samkvæmt tilnefningu háskólaráðs, að undangenginni auglýsingu. Samfylkingin leggur til að 25. gr. búfræðslulaganna standi óbreytt að því er varðar ráðningu rektors.

Mikilvægt er að skipulag og starfsumhverfi búnaðarfræðslunnar sé hið sama og annarra greina á háskólastigi og því eðlilegt að hún heyri undir sama ráðuneyti og aðrar menntastofnanir á háskólastigi. Flutningur menntastofnana landbúnaðarins undir menntamálaráðuneytið mun því verða viðfangsefni innan tíðar, að því er okkur sýnist.

Með frumvarpi þessu hafa málefni menntastofnana landbúnaðarins, annarra en Hólaskóla, Hólum í Hjaltadal, verið tekin til endurskipulagningar og staða þeirra treyst með sameiningu við Rannsóknastofnun landbúnaðarins. Fyrirhugað er að taka málefni Hólaskóla til endurskoðunar í framhaldinu og fagna ég því sérstaklega.

Breytingartillögur Samfylkingarinnar sem ég mun lesa hér á eftir miða allar að því að skipulag Landbúnaðarháskóla Íslands sé sem næst því sem sagt er fyrir um í rammalögum um ríkisháskólana sem ríkisvaldið hefur boðvald yfir.

Tillögur okkar eru eftirfarandi, með leyfi forseta:

,,1. 2. málsl. 1. efnismgr. 6. gr. orðist svo: Háskólaráð er æðsti ákvörðunaraðili innan háskólans, markar stefnu, m.a. í kennslu og rannsóknum, mótar skipulag hans og samþykkir starfs- og rekstraráætlanir.

2. Við 7. gr.

a. Á eftir 3. tölul. 1. efnismgr. komi nýr töluliður, svohljóðandi: Einn fulltrúi tilnefndur af umhverfisráðherra.

b. 4. tölul. 1. efnismgr. orðist svo: Einn fulltrúi tilnefndur af Bændasamtökum Íslands.

c. 6. tölul. 1. efnismgr. orðist svo: Einn fulltrúi tilnefndur af Sambandi íslenskra sveitarfélaga.

3. 9. gr. falli brott,`` þannig að greinin eins og hún stóð fyrir verði eins og hún var.