Búnaðarfræðsla

Fimmtudaginn 27. maí 2004, kl. 23:22:13 (9288)

2004-05-27 23:22:13# 130. lþ. 129.24 fundur 879. mál: #A búnaðarfræðsla# (Landbúnaðarháskóli Íslands) frv. 71/2004, MÞH (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 129. fundur, 130. lþ.

[23:22]

Magnús Þór Hafsteinsson (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég vil byrja á að þakka hv. 7. þm. Suðurk., Björgvini G. Sigurðssyni, fyrir að mörgu leyti mjög ágæta ræðu. Ég var sammála mörgu af því sem hann ræddi um.

Það var þó eitt sem fékk mig svolítið til að hoppa í stólnum, ef svo má segja. Það var þegar hann fór að tala um að færa landbúnaðarfræðsluna frá landbrn. og til menntmrn. Ég hef mjög miklar efasemdir um það. Ég held í fyrsta lagi að ekki sé kominn tími til að ræða þetta og íhuga, við ættum frekar að láta umræðuna snúast meira um það hvernig við getum hagrætt meðal stofnana landbúnaðarins, sameinað þær, m.a. undir þennan sprota sem við erum núna vonandi að skapa, þ.e. Landbúnaðarháskóla Íslands. Ég held að það væri mjög varhugavert að ætla að fara að stíga of stór skref í einu, þ.e. ætla síðan að fara að brjóta þetta upp og færa á milli ráðuneyta. Það er skoðun mín og trúa, og ég hygg að hægt væri að færa fyrir því mörg rök að landbúnaðarmenntun og landbúnaðarrannsóknum hér á Íslandi hafi í raun og veru verið mjög vel stýrt, a.m.k. þokkalega vel --- það má að sjálfsögðu alltaf gera betur --- undir landbrn. Reynslan af öðrum sérskólum hræðir, til að mynda stýrimannamenntun hér á landi sem var færð undir menntmrn. fyrir nokkrum árum. Þau spor hræða því að stýrimannamenntun hefur hrakað mjög mikið á Íslandi á undanförnum árum. Að sjálfsögðu eru fyrir því fleiri ástæður. Fiskvinnsluskólinn er nánast útdauður og svona má lengi telja.

Ég held að við ættum fyrst og fremst núna að einbeita okkur að því að hagræða í stofnunum landbúnaðarins, styrkja landbúnaðarrannsóknir en ekki eyða kröftum okkar í að tala um að flytja þær á milli ráðuneyta.