Ábúðarlög

Fimmtudaginn 27. maí 2004, kl. 23:41:46 (9295)

2004-05-27 23:41:46# 130. lþ. 129.25 fundur 782. mál: #A ábúðarlög# (heildarlög) frv. 80/2004, Frsm. minni hluta JBjarn
[prenta uppsett í dálka] 129. fundur, 130. lþ.

[23:41]

Frsm. minni hluta landbn. (Jón Bjarnason):

Frú forseti. Ég mæli fyrir minnihlutaáliti landbúnaðarnefndar sem ég skipa.

Ég vísa til ræðu minnar sem ég flutti við 1. umr. um þetta mál hér í þinginu um ýmis efnisatriði og reifun málsins.

Samhliða framlagningu frumvarps til ábúðarlaga var lagt fram frumvarp til jarðalaga og hefur landbúnaðarnefnd á fundum sínum fjallað um bæði frumvörpin.

Ég leyfi mér að vísa í nefndarálit um frumvarp til jarðalaga og fylgiskjal með því sem verður tekið fyrir hér sem næsti dagskrárliður á eftir.

Með frumvarpi þessu um ný ábúðarlög er verið að skerða rétt ábúenda og leiguliða en styrkja rétt jarðareiganda sem í flestum tilfellum er ríkið.

Er þetta grundvallarbreyting frá því sem gilt hefur um árabil um réttindi og skyldur í samskiptum leigusala og leiguliða við ábúð á jörðum. Þetta ótrygga ástand sem leiguliðar eru settir í veikir búrekstrarstöðu þeirra og skerðir lánshæfi þeirra og lánstraust til framkvæmda á jörðinni. Réttur landeiganda til að skipta landspildum út úr leigujörð við ábúð er að mínu mati allt of sterkur. Leiguliðum er nánast gert ómögulegt að breyta búskaparháttum, svo sem að taka upp skógrækt vegna ákvæða um sterka stöðu jarðareiganda og rétt hans til eignar, t.d. á virðisauka skógarins.

Þá má og geta þess að í lögum um prestssetur, nr. 137/1993, segir að ákvæði ábúðarlaga, ,,taki til réttarsambands aðila eftir því sem við getur átt``. Eðlilegt hefði því verið að hafa gott samráð við stjórn prestssetrasjóðs um breytingar á ábúðarlögum en það hefur ekki verið gert.

Að öðru leyti en því sem segir í þessu nefndaráliti er vísað til sjónarmiða sem koma fram í nefndaráliti minni hlutans um frumvarp til jarðalaga og fylgiskjala með því áliti.

Meiri hluti landbúnaðarnefndar leggur til umfangsmiklar breytingar á frumvarpi til ábúðarlaga og frumvarpi til jarðalaga. Minni hlutinn bendir á að frumvörpin hafa verið skamman tíma til umræðu nú í landbúnaðarnefnd, áhrif þeirra breytinga sem frumvörpin geta haft í för með sér hafa ekki verið könnuð til hlítar og ekki hefur verið tekið tillit til athugasemda umsagnaraðila, t.d. Bændasamtakanna, Þjóðkirkjunnar og margra sveitarfélaga. Á grundvelli þess leggur minni hlutinn til að málunum verði vísað til ríkisstjórnarinnar og þau unnin betur og lögð fyrir næsta reglulega þing til meðferðar. Ekkert liggur á því að endurskoða jarðalög og ábúðarlög en þeim mun mikilvægara að vanda til endurskoðunar þeirra.

Ég vil, frú forseti, t.d. benda á eitt í brtt. meiri hlutans, brtt. við 12. gr.: ,,Skylt er ábúanda að hafa fasta búsetu`` þar sem breytt er frá því að hafa ,,lögheimili``. Enginn mun vita hvað ,,föst búseta`` þýðir eða hún hefur a.m.k. enga lagalega skýringu neins staðar. Hér eru mörg atriði sem hefði verið mjög mikilvægt að fara mun nákvæmar í gegnum og láta hlutaðeigandi aðila sem eiga að starfa eftir fara yfir.

Þess vegna legg ég til, frú forseti, að þessu þingmáli verði vísað frá og það unnið betur fyrir næsta þing.