2004-05-28 00:20:30# 130. lþ. 129.27 fundur 997. mál: #A framleiðsla, verðlagning og sala á búvörum# (verðsamráð í mjólkuriðnaði) frv. 85/2004, Frsm. minni hluta LB
[prenta uppsett í dálka] 129. fundur, 130. lþ.

[24:20]

Frsm. minni hluta landbn. (Lúðvík Bergvinsson):

Virðulegi forseti. Ég ætla að reyna að gera grein fyrir nál. minni hluta landbn. sem að standa auk mín hv. þm. Ásgeir Friðgeirsson og Anna Kristín Gunnarsdóttir.

Ég vil segja í upphafi máls míns að trú mín á ríkisstjórn Framsfl. og Sjálfstfl. er óskaplega lítil. (ÖS: En á Guðna?) Ég skal samt játa það hér í þessum ræðustóli að aldrei hvarflaði að mér að hugmyndir af þeim toga sem hér eru settar fram kæmu fram, að menn stefndu til baka nánast eins og til hinna myrku miðalda hvað varðar frjálsa samkeppni, hvað varðar eðlilega verðmyndun og hvað varðar þá framtíðarsýn sem menn hafa fyrir landbúnaðinn.

Sú hugmyndafræði sem hér á að lögfesta gengur í stuttu máli út á það að þekkt aðferðafræði úr Öskjuhlíð sem stunduð var hér fyrir nokkrum árum verður lögleg í mjólkuriðnaði. Það á að heimila verðsamráð og það á að heimila uppskiptingu markaða, grófustu samkeppnisbrot sem til eru. Í reynd er það þannig að hvergi þar sem ég leitaði í Evrópu er þetta heimilt, hvergi nokkurs staðar. Menn hafa heimild til að starfa saman en allar þjóðir draga línurnar við verðsamráð, það er ekki heimilt.

Í þessu tilviki opnar hæstv. landbrh. umræðuna á því að á þessu sviði ríki einhver réttaróvissa, réttaróvissa um það hvar búvörulög gilda og hvar samkeppnislög gilda. Það hefur ekki verið nokkur óvissa á þessu sviði í 20 ár, frá 1985. Hins vegar hefur verið skýlaus krafa frá ýmsum í landbúnaðarframleiðslunni um að losna undan samkeppnislögum, um það að geta stundað Öskjuhlíðarstarfsemina óáreittir. Það hefur verið skýlaus krafa í mörg ár.

Nú á að færa mjólkuriðnaðinum þetta að gjöf, og ekki aðeins það, það á að lögvernda einokunarstarfsemi. Það á að lögvernda þessar minni máttar afurðastöðvar í mjólkuriðnaði til að þær geti stundað verðsamráð og uppskiptingu á mörkuðum. Þetta er með hreinum ólíkindum en, eins og ég sagði í upphafi máls míns, þó að ég hafi ekki mikla trú og hafi aldrei haft nokkra trú á þessari ríkisstjórn sem nú situr óraði mig ekki fyrir að svona hugmyndir kæmu fram.

Eftir þennan inngang, virðulegi forseti, ætla ég að reyna að draga fram þau helstu sjónarmið sem hér er verið að leggja til þar sem framsóknaríhaldið ætlar að hverfa til fortíðar og jafnvel aftar en nokkru sinni fyrr. Ég er viss um að þær hugmyndir sem hér eru lagðar fram hefðu talist gamaldags á þinginu árið 1000 --- einhverjir eru að saka hæstv. landbrh. um að hafa setið á þeim tíma. (Landbrh.: Þeir voru frjálslyndir þá.)

Virðulegi forseti. Minni hluti landbn. vill taka fram að það er rangt sem fram kemur í greinargerð landbrh. sem fylgdi frv. þessu þar sem sagt var að markmið frv. væri að eyða réttaróvissu um að gildandi búvörulög tryggðu ekki nægjanlega heimildir mjólkurframleiðenda og afurðastöðva til samráðs, samruna og verðtilfærslna og því væru þær aðgerðir undanskildar gildissviði samkeppnislaga.

Þessar reglur eru alveg skýrar. Í búvörulögunum eru tilteknar heimildir til undanþágu, að öðru leyti gilda samkeppnisreglurnar. Þetta kemur líka fram í greinargerð Eiríks Tómassonar og félaga sem hæstv. landbrh. lét vinna þannig að það er engin réttaróvissa á þessu sviði. Það er hins vegar ljóst að þeir hafa ekki heimildir til að stunda þá starfsemi sem þá dreymir um, að stunda verðsamráð og markaðsskiptingu.

Í greinargerð með frv. er tilgangi búvörulaga lýst þannig að markmið þeirra sé m.a. að vernda byggðastefnu og tryggja landbúnaðarvörur í því skyni að halda verði á þessum vörum niðri í smásölu neytendum til hagsbóta.

Hvaða hugmyndir eru hér á ferðinni? Það sem er hér á ferðinni er það að allt opinbert eftirlit verður tekið af verðmyndun til framleiðenda, allt saman. Þessi einokunarstarfsemi hefur sjálfdæmi um verðlagningu sína. Í reynd upplifi ég það þannig þegar ég fer yfir þetta að ekki hafi verið nægileg samstaða um hversu háar fjárhæðir eigi að greiða úr ríkissjóði til mjólkurframleiðenda þannig að samkomulag hafi verið um að menn hækki þá verðið, hækki verð á mjólkinni þannig að neytendur greiði það sem upp á vantar. (Landbrh.: Skoðaðu söguna.) Svona hugmyndir, hæstv. landbrh., eiga sér enga sögu. Þetta á sér enga sögu, það er algerlega nýtt í íslenskri löggjöf að menn leyfi sér svona munað. Hér er verið að brjóta í blað.

Svo leyfa menn sér að tala um að það sé neytendum til hagsbóta að heimila hér verðsamráð og einokunarstarfsemi, að fyrirtækin hafi sjálfdæmi um verðlagningu. Svo segir hæstv. landbrh.: Kynntu þér söguna. Þetta á sér enga sögu. (Landbrh.: Hver er sagan?) Þetta á sér ekki nokkra einustu sögu.

Hæstv. landbrh. lánar mér hér blað með hækkun nokkurra vörutegunda á 10 árum. Hér er bensín og ýmislegt annað. Hæstv. landbrh., við erum hér að tala um mjólkurframleiðendur. (Landbrh.: Ég náði því.) Hér er rafmagn og agúrkur. Virðulegi forseti, ég hef nú lúmskt gaman af þessu hjá hæstv. landbrh. en það er talsvert liðið á kvöldið og það getur vel verið að það skýri eitthvað af þessum aðgerðum hæstv. ráðherra.

Það sem hér er á ferðinni er einfaldlega það að hækka á verð á mjólk til neytenda. Hæstv. landbrh. náði ekki nægilegum fjármunum út úr ríkissjóði (Landbrh.: Jú, jú.) yfir í greinina og þess vegna, virðulegi forseti, á að gera þetta.

Ég spyr hæstv. landbrh.: Af hverju á að taka þessa verðlagningu út úr verðlagsnefndinni? Verðmyndun á einokunarsviði getur aldrei orðið eðlileg, einfaldlega vegna þess að það er ekki markaður fyrir þessa verðmyndun. Þar af leiðandi er eðlilegt að verðlagsnefndin taki þessa ákvörðun. Ef menn hugsa það hefur umræða um landbúnað tekið stakkaskiptum á undanförnum 10 árum, ekki síst vegna þess að neytendur og ASÍ hafa komið að verðlagningu á þessum vörum.

Af hverju er hæstv. landbrh. að kasta stríðshanska í átt að þessum aðilum? Af hverju gerir hæstv. landbrh. svona hluti? (Landbrh.: Ég er að tryggja þá í sessi.) Það er ekki verið að tryggja neitt í sessi, virðulegi forseti. Það er nánast verið að gera verðlagsnefndina óvirka því að það er alveg ljóst að það eina sem verðlagsnefndin gerir eftir þetta er að taka ákvörðun á heildsölustigi. Hvaða möguleika hefur verðlagsnefndin eftir að búið er að taka ákvörðun um verð til framleiðenda aðra en að verðið skrúfist upp? Það er alveg með ólíkindum að menn skuli leggja þetta fram hér á árinu 2004. Ég hefði aldrei trúað því að þetta ætti eftir að koma inn á þing á þessu ári.

Þegar farið er yfir og skoðað það sem er að gerast í löndunum í kringum okkur er alveg sama hvar borið er niður ... (Gripið fram í.) Þetta er hvergi leyft, hvergi nokkurs staðar. En framsóknaríhaldið á Íslandi fetar nýja slóð.

Virðulegi forseti. Frv. sem hér er til umfjöllunar er tengt öðru frv. sem liggur einnig fyrir Alþingi vegna breytinga á búvörulögum í framhaldi af samningi ríkisstjórnarinnar og Bændasamtaka Íslands um starfsskilyrði í mjólkuriðnaði. Niðurstaða þessara frv., verði þau að lögum, mun að mati minni hlutans þýða verulega hækkun á verði mjólkurvara til neytenda. Sú er niðurstaða þessa máls, (Landbrh.: Rangt.) verði þetta að lögum. (Landbrh.: Rangt.) Það þýðir verulega hækkun á mjólkurverði til neytenda. (Gripið fram í: Þetta er rangt.)

[24:30]

Virðulegi forseti. Það er alveg ljóst að þegar einokunarstarfsemi fær svona heimildir mun það leiða til verðhækkunar. Það verður gaman að hlýða hæstv. landbrh. yfir það að ári hvernig verðþróun hefur verið á þessu sviði, enda hefðu menn aldrei farið þessa leið nema vegna þess að þeir vilja fá hækkað afurðaverð. Þess vegna verður það hækkað, menn ráða því sjálfir. Það eru framleiðendur og eigendur afurðastöðva, framleiðendur, sem koma saman og ákveða verð.

Spurningin sem vaknar líka í þessu, virðulegi forseti, er: Hvers vegna þarf að vernda einokunarstarfsemi? Hvers vegna er einokunarstarfsemi, hæstv. landbrh., ekki fær um að standa á eigin fótum? Það er ekki eins og verið sé að vernda einhverja smákalla. Það er ekki eins og verið sé að vernda minni háttar aðila í samfélaginu. Það er Mjólkursamsalan, það er KEA og það eru fleiri og fleiri. Það er verið að fórna hagsmunum neytenda á altari hinnar skelfilegu landbúnaðarstefnu núverandi ríkisstjórnar. Um leið, virðulegi forseti, er verið að koma í veg fyrir að mjólkuriðnaðurinn getið lagað sig að þeim breytingum sem án efa munu eiga sér stað á næstu missirum með auknum innflutningi sem við sjálfsagt óhjákvæmilega munum standa frammi fyrir. Það á ekki að nota þennan tíma til að undirbúa þá samkeppni. Nei, það á að loka þessa grein enn frekar inni.

Það er ekki nema von að menn séu með hugmyndir um að hæstv. landbrh. Guðni Ágústsson hafi verið hér uppi fyrir löngu.

Virðulegi forseti. Ég hef rakið þau grundvallarsjónarmið sem búa að baki því að menn hafa miklar áhyggjur af hækkun á mjólkurvörum verði þetta að veruleika. Ég taldi að menn hefðu lært það, til að mynda af Öskjuhlíðarverðsamráðinu, að það væri ekki aðferðafræði sem ætti að lögfesta. Ég taldi að þróunin hefði undanfarin missiri öll verið í þá átt að reyna að opna þetta, auka samkeppni, auka hagræðingu, en það einasta sem hæstv. landbrh. dettur í hug er að hverfa til baka.

Það er sök sér með hæstv. landbrh. Hugmyndafræði hans hefur verið sú að vernda og nánast koma í veg fyrir að greinin geti aðlagað sig breyttum aðstæðum. Það sérstæða er hins vegar hvar frjálshyggjudeild Sjálfstfl. er. Hvar eru þeir menn sem öllu ætluðu að breyta? Hvar eru þeir menn sem ætluðu að lækka skatta og markaðssetja alla skapaða hluti?

Þeir munu vera hér í bandi. Þeir munu sjálfsagt fylgja hæstv. landbrh. í þessu máli eins og öllum öðrum. Hvar eru þeir hv. þm. í þessari umræðu? Maður hefði haldið að slíkir byltingarmenn sem þeir kynntu sig þegar þeir buðu sig fram til þings kæmu nú í umræðuna og tækjust á við þessar gömlu hugmyndir framsóknaríhaldsins. Þeir eru ekki hér. (Landbrh.: Enginn bannar þeim að vera vitrari í dag en í gær.) Þeir eru ekki hér.

Því miður kemur lítið fram um það, ekki í greinargerð með frv., hvað þá í framsöguræðu hæstv. landbrh. sem var vægast sagt rýr að efni til, hvaða hagsmuni verið er að vernda. Þó segir í greinargerð með frv. að þetta eigi að tryggja að þeir ,,aðilar sem stunda smásöluverslun eigi kost á að kaupa þessar mikilvægu neysluvörur á sambærilegu verði og þar með verði komið í veg fyrir að stórar verslanakeðjur geti keypt umræddar vörur á mun hagstæðara verði en keppinautarnir í krafti stærðar sinnar``. Með öðrum orðum, sérstaklega er verið að vernda einokunarstarfsemina og koma í veg fyrir að magninnkaup geti haft í för með sér afslátt. Það er eiginlega verið að færa þessari einokunarstarfsemi lögin í sínar hendur, þ.e. hún getur verðlagt þetta eins og henni sýnist. Það er verið að taka hana undan eftirliti, taka hana út af markaðnum.

Af þeirri tilvitnun sem ég las upp áðan, virðulegi forseti, verður ráðið að tilgangur frv. sé sá að koma í veg fyrir að þrýstingur geti myndast á afurðastöðvar vegna samkeppni þeirra í milli um að selja tilteknum aðilum mjólkurvörur á lægra verði en þeir vilja. Aðferðin við að sporna gegn þessu er að heimila verðsamráð og skiptingu markaða. Þetta verður að telja afar óeðlilegt og nánast aðför að neytendum. Ef stórar verslanakeðjur misnota markaðsráðandi stöðu sína þannig að einokunarfyrirtæki stafi ógn af er rétt að taka það fram að misnotkun á markaðsráðandi stöðu er óheimil og varðar við samkeppnislög. Það er því hlutverk samkeppnisyfirvalda að taka á slíkum brotum. Það getur varla verið markmið laganna að koma í veg fyrir að þeir sem gera stórinnkaup fái magnafslátt vegna þess. Það er einfaldlega eðli hins frjálsa markaðar. Minni hlutinn hafnar því að leiðin til að taka á þessu vandamáli sé sú að hverfa aftur til aukinnar hafta- og verndarstefnu. Það er í hrópandi ósamræmi við þróun síðustu ára í landbúnaði.

Um nokkurt skeið hefur það verið stefnan að afnema opinbera verðlagningu á mjólkurvörum en gefa greininni kost á að hagræða á þeim aðlögunartíma, og að þeim tíma loknum muni greinin fá aðhald frá innflutningi mjólkurafurða. Flest bendir til að á endanum verði niðurstaða samningaviðræðna á alþjóðavettvangi sú að heimilaður verði aukinn innflutningur landbúnaðarafurða. Það er því mikilvægt að undirbúa greinina vel fyrir þær breytingar.

Í frv. er varla að sjá nokkra framtíðarsýn hvað þetta varðar. Hér er fyrst og fremst verið að styrkja stöðu afurðastöðvanna á kostnað neytenda og framleiðenda. Sagan greinir mýmörg dæmi þess að fyrirtæki sem starfa undir verndarvæng ríkisins í einokunaraðstöðu án nokkurs aðhalds frá markaðnum eða opinberum aðilum geti sjaldnast fótað sig þegar rekstrarumhverfið breytist eins og dæmin sanna. Það er því engin framtíðarsýn í þessu frv. Þess í stað er ákveðið að hverfa til fortíðar hvað varðar hefðbundna hafta- og verndarstefnu. Með lögfestingu þessara reglna er verið að koma í veg fyrir að fulltrúar neytenda eða samkeppnisyfirvöld geti haft nokkurt eftirlit með þessari atvinnugrein. Við teljum því lögfestingu þessara reglna afturhvarf til fortíðar fyrir landbúnaðinn, neytendur og framleiðendur. Því hafnar minni hlutinn alfarið þeirri aðferðafræði sem hér á að lögfesta og telur hana hættulega, bæði greininni og neytendum.

Virðulegi forseti. Það er farið að líða á kvöldið og kannski er ekki ástæða til að halda áfram þessari umræðu. Ég held að ég hafi dregið hér fram helstu sjónarmiðin. Það er þó óskaplegt til þess að vita að núverandi hæstv. landbrh., sem á sumum sviðum hefur verið að gera ágæta hluti, skuli leyfa sér að lögleyfa þá aðferðafræði sem stunduð var í Öskjuhlíð um árið.