2004-05-28 00:40:00# 130. lþ. 129.27 fundur 997. mál: #A framleiðsla, verðlagning og sala á búvörum# (verðsamráð í mjólkuriðnaði) frv. 85/2004, ÁF
[prenta uppsett í dálka] 129. fundur, 130. lþ.

[24:40]

Ásgeir Friðgeirsson:

Herra forseti. Hér er til umræðu stjórnarfrumvarp, 997. mál, um framleiðslu, verðlagningu og sölu á búvörum. Það er náskylt öðru máli með sama nafni sem fjallar um mjólkursamninginn svokallaða. Ég vil leyfa mér í þessari stuttu ræðu minni að fjalla um þetta tvennt í senn.

Ég vil segja að ég er sáttur við mjólkursamninginn eins og hann liggur fyrir á þeirri forsendu að hann skapar bændum örugg starfsskilyrði. Það er afar mikilvægt í þessari umræðu að draga það fram að hann skapar bændum örugg starfsskilyrði.

Á hinn bóginn er margt við það að athuga hvernig núverandi stjórnvöld ætla þessari starfsgrein að takast á við áskoranir framtíðar.

Eins og hv. þm. Lúðvík Bergvinsson greindi frá áðan ætla stjórnvöld að fara þá undarlegu leið að búa landbúnaðinn undir samkeppni við erlenda aðila með því að losa hana undan samkeppni. Ég hef hvergi heyrt þessa lógík og ég skil ekki með hvaða hætti maður undirbýr samkeppni með því að hafa enga samkeppni. Hvernig undirbýr maður knattspyrnuleik með því að spila enga knattspyrnu? (Gripið fram í.)

Í mínum huga eru menn búnir að grafa sér það djúpa gröf að þeir eru hættir að sjá upp úr og kunna enga aðra leið en að halda áfram að grafa.

Ég vil draga hér fram skýrslu frá forsrh. sem var dreift í kvöld og er um samanburð á matvælaverði á Íslandi, Norðurlöndum og í ríkjum Evrópusambandsins. Í þessari skýrslu forsrh. sem ég held að hæstv. landbrh. væri hollt að lesa segir m.a. þegar spurt er hvernig Íslendingar geti breytt þeim aðstæðum sem valda því að matarverð er hærra hér á landi en annars staðar, með leyfi forseta: ,,Stjórnvöld geta hins vegar gripið til tvíþættra aðgerða til þess að halda matvælaverði eins lágu og unnt er.``

Takið eftir: ,,Í fyrsta lagi geta þau reynt að tryggja samkeppni með því að vera vel á verði og fylgja eftir samkeppnislögum innan lands... ``

Hver er tillagan í því frv. sem við erum að ræða hér?

Í öðru lagi er bent á að ,,... með því að opna fyrir viðskipti við útlönd eftir því sem heilbrigði og sóttvarnir leyfa``. --- skýrslu forsrh. er sem sé verið að hvetja til aukinnar samkeppni og aukins innflutnings. Ég er þeirrar skoðunar að fátt sé eins mikilvægt fyrir íslenskan landbúnað og að takast af alvöru á við erlenda samkeppni, takast á við hið fjölbreytta vöruúrval sem aðrar þjóðir þekkja og kynnast á sviði mjólkurframleiðslu. Með þeim hætti einum er hægt að búa íslenskan landbúnað sem best undir átökin við erlenda framleiðslu.

Sú hugmyndafræði, hæstv. forseti, að banna samkeppni til þess að búa menn undir samkeppni er í raun að venja menn á vonda siði. Verið er að leyfa mönnum að brjóta leikreglur sem annars staðar eru viðhafðar. Það er fátt eins gott fyrir verðlag og öfluga vöruþróun og kraftmikil samkeppni. Maður sigrar ekki í neinum leik öðruvísi en að þjálfa sig og takast á við verðuga andstæðinga.

Ég vil að lokum draga það fram sem kom fram í máli fulltrúa Samtaka atvinnulífsins á fundi í landbn. þar sem hann vakti athygli á því að með frv. væru stjórnvöld að gera það löglegt sem í öðrum greinum er glæpsamlegt og menn geta þurft að sæta fangelsisvist vegna, þ.e. að viðhafa samráð í viðskiptum. Þetta voru orð fulltrúa Samtaka atvinnulífsins. Með öðrum orðum var hann að draga það fram að göngutúrar í Öskjuhlíðinni væru löglegir og leyfilegir ef menn eru að tala um mjólk. (Gripið fram í.) Samráð og samtöl manna í annarri atvinnugrein en landbúnaði geta varðað sektum og tukthúsvist meðan sambærilegt samtal um mjólkurframleiðslu er löglegt.

Virðulegi forseti. Sem jafnaðarmaður get ég ekki með neinum hætti fallist á ákvæði af þessu tagi.