2004-05-28 00:52:58# 130. lþ. 129.27 fundur 997. mál: #A framleiðsla, verðlagning og sala á búvörum# (verðsamráð í mjólkuriðnaði) frv. 85/2004, ÖS (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 129. fundur, 130. lþ.

[24:52]

Össur Skarphéðinsson (andsvar):

Herra forseti. Í því dæmi sem við erum með hér undir eru þrjár stærðir, framleiðendur, afurðastöðvarnar og neytendur. Hv. þm. Jón Bjarnason, sem er einn af þeim sem hefur verið hvað djarflegast í baráttu fyrir þá sem minna mega sín hér á landi, gleymdi algjörlega að fjalla um eina stærðina. Hann talaði um bændur og sagði að það væri nauðsynlegt að tryggja afkomu þeirra. Það er rétt hjá honum. Hv. þm. ræddi líka töluvert um að það væri nauðsynlegt að heimila afurðastöðvunum þessar sérkennilegu undanþágur frá samkeppnislögum til að tryggja afkomu þeirra. Í máli hans var hins vegar aldrei minnst á þá sem hv. þm. og hans ágætu félagar, sem eru staddir hér líka í kvöld, hafa þó verið að eyða lífi sínu í að berjast fyrir, þ.e. almenning í landinu, neytendur. Hvernig má það vera þegar við erum að ræða þetta að hv. þingmaður gefi þeim engan gaum? Það sem skiptir langmestu máli í þessu er auðvitað að tryggja með einhverjum hætti að það sérkennilega svigrúm sem afurðastöðvunum er þarna gefið leiði ekki til þess að verð til neytenda hækki.

Hv. þm. Lúðvík Bergvinsson flutti hér ásamt félaga sínum, hv. þm. Ásgeiri Friðgeirssyni, ágæt rök, að því er mér þótti, sem hnigu að því að þarna væri í reynd verið að gefa afurðastöðvunum möguleika á að hækka verð til neytenda með því að undanþiggja þær algerlega ákvæðum samkeppnislaga.

Þá hlýt ég að spyrja hv. þingmann: Hvernig ætlar hann að tryggja að hagræðing í mjólkuriðnaði komi neytendum til góða?

Síðan aðeins að því er varðar samkeppnina. Hv. þm. veit, af því að hann hefur lesið skýrsluna sem hér hefur verið lögð fram, að þar sem samkeppni ríkir á smásölumarkaði hefur verð á mjólkurafurðum hækkað hlutfallslega töluvert minna en verð í heildsölu frá afurðarstöðvunum þar sem engin samkeppni er. Það hlýtur að skipta máli.