2004-05-28 00:55:13# 130. lþ. 129.27 fundur 997. mál: #A framleiðsla, verðlagning og sala á búvörum# (verðsamráð í mjólkuriðnaði) frv. 85/2004, JBjarn (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 129. fundur, 130. lþ.

[24:55]

Jón Bjarnason (andsvar):

Herra forseti. Mér þykir leitt ef ég hef talað of óskýrt varðandi hagsmuni neytenda. Ég taldi mig nefna hagsmuni þeirra, almennings um allt land. Ella geri ég það nú, ég nefni neytendur.

Ég tel að það skipti miklu máli að það sé möguleiki á að bjóða mjólkurvörur á nokkuð hliðstæðu eða sama verði um allt land. Þetta er einn af grunnþáttum fæðu okkar, mjólkurvörurnar. Ég tel að það hafi verið styrkur þessa kerfis að óháð því hvort verslunin er stór eða lítil, hvort hún er í Reykjavík, á Ísafirði, Akureyri eða hvar annars staðar á landinu, hefur hún getað boðið almenningi mjólkurvörur á hliðstæðu verði, á sanngjörnu og góðu verði. Það tel ég gríðarlega mikilvægt.

Ég hefði ekki viljað sjá það verðstríð sem við erum að upplifa á ýmsum öðrum neysluvörum þegar stórverslunarkeðjur geta í krafti markaðsráðandi stöðu sinnar beitt þvingunum til verðlækkunar á ákveðnum vörutegundum og skekkt þannig samkeppnisstöðuna.

Ég skil þó alveg áhyggjur hv. þm. Össurar Skarphéðinssonar að öðru leyti líka og ég tel mjög mikilvægt að sú sanngjarna og eðlilega hagræðing sem á sér stað í mjólkuriðnaðinum og hefur átt sér stað skili sér til neytenda að eðlilegri hlutdeild. Það hefur líka gerst. Hvort það megi gerast betur má vel vera en verð á mjólkurvörum til neytenda hefur farið hlutfallslega lækkandi síðustu árin frekar en hitt.