2004-05-28 00:59:30# 130. lþ. 129.27 fundur 997. mál: #A framleiðsla, verðlagning og sala á búvörum# (verðsamráð í mjólkuriðnaði) frv. 85/2004, JBjarn (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 129. fundur, 130. lþ.

[24:59]

Jón Bjarnason (andsvar):

Herra forseti. Bara til að upplýsa hv. þingmann hefur verð til neytenda á nýmjólk hækkað um 21% á sl. 10 ára tímabili. Almenn verðlagshækkun á matvöru hefur verið 38% og ef við lítum á allmargar innfluttar vörur er verðhækkunin miklu meiri. Ef við lítum á hlutfallslegar verðbreytingar á mjólk til neytenda er það hagstætt en sjálfsagt má gera betur. Við höfum samt gert þetta með þeim hætti að þetta er á jöfnu verði um allt land. Varan er á sama verði hvort sem hún er í stórri búð eða lítilli. Ég hefði ekki viljað, og vil bara ítreka það, sjá almenning í Reykjavík, Akureyri eða hvar sem er standa frammi fyrir þeirri samkeppni sem snýst í öndverðu sína þegar viðskiptaaðilar beita samkeppni til þess að mismuna þegnunum. Þeir geta gert það því að samkeppnin er hárfínn dans. Í litlu landi eins og hér getur hún auðveldlega snúist í öndverðu sína, snúist í fákeppni og einokun og síðan bara eins konar arðrán sem við þekkjum líka.

Við verðum líka að hafa ákveðna trú og traust á félagshyggjunni. Við verðum líka að bera traust til þess fólks sem vinnur á þessum vettvangi. Ég hefði ekki viljað að menn settu upp slíka harða hagræðingarkröfu að við værum hér að reyna að hagræða mjólkurbúum út af markaðnum. Það mundi kannski bara koma í bakið á manni og þá yrðu búin orðin svo fá og síðan lendir það aftur á móti í enn þá meiri fákeppni og einokun á eftir.

Ég ítreka það, herra forseti, að sjálfsagt má og sjálfsagt er að standa vel að þessu kerfi okkar en sleppum því a.m.k. ekki frá okkur.