2004-05-28 01:05:10# 130. lþ. 129.27 fundur 997. mál: #A framleiðsla, verðlagning og sala á búvörum# (verðsamráð í mjólkuriðnaði) frv. 85/2004, landbrh.
[prenta uppsett í dálka] 129. fundur, 130. lþ.

[25:05]

Landbúnaðarráðherra (Guðni Ágústsson):

Hæstv. forseti. Ég vil byrja á því að þakka þessa umræðu og þá vinnu sem landbn. hefur lagt í málið og farið yfir og skilað inn í þingið og fagna þeirri samstöðu sem um málið er á mörgum sviðum, bæði í þinginu og með þjóðinni.

Hv. þm. Lúðvík Bergvinsson og hv. þm. Ásgeir Friðgeirsson hafa gert mikið úr að hér væri engin réttaróvissa. Stundum verða menn að lesa sér til. Stundum verða menn að afla sér upplýsinga og stundum verða menn að vera sanngjarnir. Það er enginn vafi á því að þegar bændur skrifuðu undir síðasta mjólkursamning 1998 og töldu að frjáls verðlagning yrði á mjólkurvörum, þeim sem hafa verið undanþegnar því, þá töldu þeir á þeim tíma og ríkisvaldið einnig, það er viðurkennt af ríkisvaldinu og það er viðurkennt af bændum, að það þýddi að mjólkuriðnaðurinn mætti eigi að síður starfa undir búvörulögum en ekki samkeppnislögum. En annað kom í ljós, Samkeppnisstofnun taldi að allur mjólkuriðnaðurinn félli undir samkeppnislög. Þar var því réttaróvissa miðað við það sem samið var um og ef það hefði gengið eftir að mjólkuriðnaðurinn hefði farið undir samkeppnislög hefði sjálfsagt hrunið það skipulag hans sem er félagshyggju- og samvinnuskipulag, ekkert langt frá gamla Alþýðuflokknum sem er ekki lengur til, hefur ekki verið til í áratugi og er sennilega löngu dáinn. Nú eru það frjálshyggjumenn sem fara fyrir Samf. á mörgum sviðum, eða þeir tala eins og frjálshyggjumenn og gera lítið úr allri félagshyggju bæði á Íslandi og í Evrópu. Þeir virða ekki einu sinni félagshyggjuna sem ríkir í Evrópu eða á Norðurlöndunum og hjá Evrópusambandinu. Það vill svo til að þeir prófessorar og lögmenn sem fóru yfir málið fyrir mig til að skoða réttaróvissuna komust að því og segja í sínu áliti, hæstv. forseti:

,,Í þessu sambandi er rétt að vekja athygli á því að í flestum nágrannalöndum okkar Íslendinga, sem við berum okkur helst saman við, er að finna sérreglur um framleiðslu og viðskipti með landbúnaðarafurðir. Þetta stafar af sérstöðu landbúnaðar sem þykir víðast hvar vera slík að almennar reglur markaðshagkerfis eigi ekki að öllu leyti við um landbúnaðarvörur með sama hætti og aðrar framleiðsluvörur. Samkvæmt þessu gilda almennar samkeppnisreglur einungis um framleiðslu og viðskipti með landbúnaðarafurðir innan Evrópusambandsins að því marki sem ráðherraráðið ákveður.``

Það þættu tröllatök á Íslandi ef landbrh. hefði komið með það að ríkisstjórnin ein skyldi ráða. Nei, frv. snýr ekki að því. Frv. snýr að því sem segir:

,,Þrátt fyrir ákvæði samkeppnislaga er afurðastöðvum í mjólkuriðnaði heimilt að gera samninga sín á milli um verðtilfærslu milli tiltekinna afurða. Leggja skal slíka samninga fyrir verðlagsnefnd til upplýsingar.``

Hvaða fulltrúum eru hv. þm. Samf. að gera lítið úr? Hvaða fulltrúar eru það? Það er fulltrúi frá BSRB og ASÍ ... (LB: Var ráðherra ekki ... þegar frv. var samið? Hefur hann enga þekkingu á efni þess?) Hv. þm., fullkomna þekkingu og fullkomið vald, (LB: Enga.) meðan ég hlustaði á hv. þm. Lúðvík Bergvinsson fara hér eins og á milli fjalla og tala um sitt hvort málið.

(Forseti (BÁ): Ég bið hv. þingmenn að gefa hæstv. landbrh. frið til þess að flytja ræðu sína.)

Hér er búið að gera mjög lítið úr þeim fulltrúum sem að því koma en þessi grein snýr fyrst og fremst að því að sá farsæli, samkeppnishæfi og markaðssækni mjólkuriðnaður sem við eigum megi starfa eftir leikreglum þar sem hann má stunda verðtilfærslu. Það hafa verið svona 10%, um 500 millj. af 10 milljarða veltu sem hafa farið í verðtilfærslu til þess að skipuleggja mjólkuriðnaðinn þannig að hann geti skipulagt framleiðslu sína, framleitt eitt í Búðardal, annað á Selfossi, þriðja á Akureyri, fjórða í Skagafirði, dýra vöru. Ef þetta skipulag hefði hrunið og farið undir samkeppnislög þá taldi mjólkuriðnaðurinn að allir færu í dagvöruna og ákveðinn hluti þessara vara mundi flytjast úr landi og mikil samvinnufyrirtæki eins og Osta- og smjörsalan ættu kannski mjög erfitt og gætu kannski ekki starfað undir samkeppnislögum. Þess vegna væri mikilvægt að fá að starfa áfram með þeim hætti sem hefur verið mjög farsæll fyrir mjólkuriðnaðinn. Hér segir í þessari grein: ,,Leggja skal slíka samninga fyrir verðlagsnefnd til upplýsingar``, hv. þm. Lúðvík Bergvinsson, til upplýsingar. (LB: Til upplýsingar, en áður fyrr var ákvörðun tekin í verðlagsnefnd.) Nei, nei, ekki um þetta atriði, (LB: Jú, jú.) sem þýðir það að fulltrúi frá BSRB og ASÍ, (LB: Fær að kíkja á ákvörðunina þegar búið er að taka hana.) kíkja, hann kemur að ákvörðun. (LB: Nei.) Við skulum halda áfram að lesa okkur til fróðleiks. Í 2. gr. frv. segir, og það sýnir hve hv. þm. fór langt út af brautinni og fór villur vegar í ræðu sinni, í 2. gr. segir:

,,Þrátt fyrir ákvæði samkeppnislaga er afurðastöðvum í mjólkuriðnaði heimilt að sameinast, gera með sér samkomulag um verkaskiptingu milli mjólkursamlaga að því er varðar framleiðslu einstakra mjólkurvara og hafa með sér annars konar samstarf`` --- hlustaðu nú, hv. þm. Lúðvík Bergvinsson, samstarfs til hvers? (LB: Ég hlýði ...) --- ,,til þess að halda niðri kostnaði við framleiðslu ...``

Halda niðri kostnaði við framleiðslu, það er ekki samkomulag um að þeir megi hækka, nei, halda niðri kostnaði við framleiðslu, geymslu og dreifingu mjólkurafurða, þ.e. um að lækka verð, enda kemur það í ljós í töflu sem ég lét hv. þm. hafa að í farsælu samstarfi við aðila vinnumarkaðar, við verkalýðshreyfinguna, hefur ríkisvaldið og landbúnaðurinn náð þeim árangri á 10 árum að mjólkurvörur hafa hækkað minna en annað. Ég lýsi yfir fullu trausti á fulltrúa launafólksins í verðlagsnefnd og tel þá góða fulltrúa neytenda á Íslandi og ég tel að það fólk hafi haldið þar vel vöku sinni, hafi veitt afurðastöðvunum ... (LB: Af hverju ertu þá að reka það?) Það er ekki búið að reka það. (LB: Af hverju ertu að reka það?) (Forseti hringir.) Það er ekki verið að reka það, það er bara rangt hjá hv. þm. af því að hann hefur ekki lesið frv. Hann hefur verið í útlöndum um langa hríð og er ekki farinn að lesa frv. Hann hefur því ekki hugmynd um hvað hann er að tala og kem ég kannski að því síðar í máli mínu um hið stærra mál, sem er mjólkursamningurinn sjálfur. En ég ætla að vekja athygli á því af því að hér hefur það komið fram að menn telja, og hv. þm. margsagði það úr þessum stól, að þetta þýddi hækkað verð á mjólkurvörum í framtíðinni. Mjólkurskýrslan sem aðilar vinnumarkaðarins komu að og bændurnir voru sammála um að stórt skref og mikilvægasta atriði nýrra samninga yrði að sjá lækkað verð á þessum afurðum þó það skuli tekið alveg skýrt fram af því að hv. þm. Ásgeir Friðgeirsson lét að því liggja að landbúnaðarafurðir væru dýrari hér en annað, þá er það rangt því að landbúnaðarafurðir hér eru ekki hlutfallslega dýrari en annað í landinu og ekki hlutfallslega dýrari en innflutningur. Hér geta hv. þm. séð það sem Hagstofa Íslands hefur gert, 10 ára könnun á verðþróun, og kemur í ljós að smjörið hefur lækkað um 15%, rjóminn um 7% undir þessu kerfi, osturinn hefur hækkað um 16%, nýmjólkin um 21%. En margar hinar innfluttu vörur og líka framleiddar hér, eins og strásykur hefur hækkað um 144%, rúgbrauð um 113, stórlúðan um 106, ýsan um 87, kaffið um 62%. Þetta var á hinum frjálsa markaði. Þetta var hjá þeim sem heyrðu undir samkeppnislögin. (Gripið fram í.) Hitt var hjá þeim þar sem verðlagsnefnd er að störfum, sem hefur það markmið að hlusta á neytendur, hefur neytendur með sér, hefur launafólkið í nefnd með sér til að vinna að málum. Þeir hafa náð þessum árangri á 10 ára tímabili fyrir launafólkið og ég trúi því að þeir muni á næstu 10 árum ná enn lengra.

[25:15]

Svo gera hv. þingmenn Samfylkingarinnar lítið úr því sem komið hefur fram, að það sé rangt að mjólkuriðnaðurinn fái að starfa eftir þessu félagslega skipulagi. Þeir gera líka mikið úr því að opinber verðlagning sé vitlaus. Þeir gera mikið lítið úr því að aðgangur að mjólkuriðnaðinum yrði mjög misjafn hvað stórar og smáar keðjur varðar, hvað kaupmanninn á horninu varðar, hvað litlu keðjurnar varðar eða hinar stóru keðjur sem hafa gengið mjög illa til dæmis um kjötiðnað og gert hann gjaldþrota. Ég dáðist til dæmis að viðtali sem ég las í Morgunblaðinu hinn 1. apríl við breskan auðjöfur sem hér var á ferð, Bill Grimsey. Hann talar mjög skýrt um stöðu á markaði og hann segir frá þeirri baráttu sem Bretar heyja. Hann talar um hinar stóru keðjur sem séu neytendum mjög hættulegar og öllum smærri rekstri. Hann segir þetta mjög skýrum orðum þannig að þetta er mjög fróðleg lesning eftir þennan breska verslunarmann. Hann telur til dæmis að það sé neytendum ekki hagfellt að neitt fyrirtæki á markaði hafi meira en 25% hlutfall á markaðnum og segir að bresku samkeppnislögin fari inn í öll slík fyrirtæki sem verði stærri. Hann segir frá því að hann sé að glíma við fyrirtæki sem sé 27% og það sé neytendum þar stórhættulegt. (ÖS: Hvað þá með mjólkuriðnaðinn?) Mjólkuriðnaðurinn er í samkeppni. Ég var að segja það, hv. þm. Hafirðu sofið áðan, vaknaðu þá. Ég var að segja frá því í þessum þingsal hvernig þetta kerfi hefði skilað mjólkurvörunum á lægra verði meðan margt sem heyrir undir samkeppnislög hefur hækkað meira en annað. (Gripið fram í: ... breyta kerfinu.) Ég er ekki að breyta kerfinu. Það liggur ekkert fyrir um að kerfinu verði breytt. Ég kem að því nánar í hinu stóra máli á eftir. Það liggur ekkert fyrir um að kerfinu verði breytt. Það sem þingmenn hafa hér verið að gagnrýna er heimildarákvæði í mjólkursamningnum um að bændurnir og afurðastöðvarnar geti gert samkomulag um verð sem bændurnir eru ekkert sáttir við því þeir óttast að þá verði þeir píndir til að lækka sitt verð meira en þeir þola. Þeir óttast þá hlið miklu frekar heldur en að mjólkurstöðvarnar geri við þá stóra samninga um hækkað verð. Bændurnir hafa því á þeim fundum sem ég hef sótt svolítið varað við þeirri leið. Þetta er heimildarákvæði. Ég mun við hið stóra mál á eftir ... (Gripið fram í: ... vara við þessu.) þegar það verður flutt þá mun ég gefa yfirlýsingu um hvernig ég mun vinna úr því máli (Gripið fram í: Við erum að ...) þannig að kannski erum við hér bara allir sammála. (Gripið fram í.) Kannski er það að verða niðurstaðan. Ég fagna því ef ég hef getað sannfært þessa hv. þingmenn Samfylkingarinnar um að það er vissara að lesa mál og kynna sér þau áður en farið er í ræðustól á Alþingi.

Hins vegar þakka ég hv. þm. Ásgeiri Friðgeirssyni fyrir það sem hann sagði hér um mjólkursamninginn, að hann væri sáttur við mjólkursamninginn, að hann skapaði bændum örugg starfsskilyrði horft til framtíðar. Ég þakka þessi orð og virði þau og met.

Ég ætla ekki að deila öllu lengur við hv. þm. Lúðvík Bergvinsson. Hann hefur gerst mikill talsmaður í þinginu fyrir samkeppni og baráttu í þeim efnum. Það er virðingarvert sjónarmið. En það er líka virðingarvert að skoða það að íslenskur mjólkuriðnaður getur ekki lotið einhverjum sérreglum alveg eins og hjá Evrópusambandinu og svo framvegis. Ég ætla því ekki að lengja umæðu um þetta hér meira en þakka hana. Ég tel að hér sé stigið hvað mjólkuriðnaðinn varðar mikið heillaskref horft til framtíðar. Ég treysti fulltrúum launafólksins með bændum og ríkisvaldinu til þess að vinna að þessum málum. Ég trúi því að þessi staða muni gera mjólkuriðnaðinum kleift að halda þeirri sóknarbaráttu áfram sem hann er þekktur fyrir í landinu, að framleiða þá vöru sem neytendur eru mjög ánægðir með. Ég held að það hljóti að vera virðingarvert fyrir okkur alla sem köllum okkur félagshyggjumenn að skoða það virkilega hvort á Íslandi geti ekki eitthvað starfað eftir félagshyggju. Og getur það ekki verið réttlætanlegt að stór markaðsfyrirtæki með 50% hlutdeild í smásölu eigi ekkert meiri aðgang að daglegum vörum fólksins í landinu heldur en sá sem hefur 5% þannig að fólkið geti áfram keypt mjólkina sína hjá kaupmanninum á horninu eða í litlu keðjunni sinni og að landsbyggðin öll sé jafnsett og aðrir. Þetta mál er að tryggja þessi sjónarmið og koma þeim áfram. Ég þakka landbúnaðarnefnd enn og aftur hennar störf.